Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 22:27:47 (2757)

2000-12-05 22:27:47# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[22:27]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér ekki grein fyrir hvaða stærð þingmaðurinn var að tala um. Var hún að tala um skattþynginguna, þ.e. það sem persónuafslátturinn hefði þurft að hækka á næsta ári, þessa 81 krónu sem ég talaði um sem ég hef leyft mér að segja að geti varla ráðið miklum úrslitum hjá fólki?

Er þingmaðurinn hins vegar líka að segja að hún sé þeirrar skoðunar að sveitarfélögin eigi að hafa mjög rýrt sjálfstæði í þessum efnum og að ríkisvaldið eigi sem sagt alltaf að skammta þeim naumt í tekjuöflunarmöguleikum? Þá erum við bara algjörlega ósammála.

Það má deila um það hvað liggur að baki þeim útsvarshækkunarprósentum sem hafa verið ákveðnar, en almennt talað er ég þeirrar skoðunar en þingmaðurinn greinilega ekki að sveitarfélögin eigi að hafa ríkt sjálfstæði í þessum efnum, eins og reyndar er tekið fram sérstaklega í stjórnarskránni.