Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 23:51:37 (2783)

2000-12-05 23:51:37# 126. lþ. 40.14 fundur 285. mál: #A staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar# (Þingvallaprestakall) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[23:51]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru athyglisverðar umræður sem hér fara fram. Ég vil aðeins fá að nota tækifærið og leiðrétta það sem hv. þm. sagði áðan. Hann hélt því fram að þetta frv. væri í andstöðu við kirkjuna. Það er ekki rétt. Ég vil ítreka það sem ég sagði í framsögu minni að sérstaklega var ályktað um þetta mál á kirkjuþingi og kirkjuþing lagði blessun sína yfir það að frv. yrði lagt fram. Það er í samræmi við þau lög sem voru sett um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar en þeim lögum var einmitt ætlað að undirstrika sjálfstæði kirkjunnar enn frekar. Það er auðvitað kirkjan sem tekur ákvörðun um hvar prestsembættin eru og prestar ráðnir og hver fjöldi þeirra er og hvaða breytingar eru gerðar á sóknum. Það fer m.a. eftir því hvernig aðstæður eru, hvort mikil mannfækkun hefur orðið í sóknum eða aðstæður breyst að öðru leyti. Ég bendi á það að enda þótt Þingvellir séu vissulega sá staður sem þjóðin ber miklar tilfinningar til og ég er viss um að menn eru mjög jákvæðir í garð þess að reyna að finna einhvers konar lausn á þessu máli, þá er það samt svo að þetta er langminnsta sóknin á landinu. Ég held mér sé óhætt að segja að það séu ekki nema rúmlega þrjátíu manns sem þarna eru, eða a.m.k. þá eru þeir --- (ÁJ: Nálægt fimmtíu) jæja, nálægt fimmtíu segir 1. þm. Suðurl., en auðvitað breytir það því ekki að það þarf að þjóna þessu fólki. Samt sem áður þarf kirkjan að geta haft ákveðinn sveigjanleika í þeim málum sem snerta sóknir og prestssetur. Ég vildi bara fá að leiðrétta þetta.