Losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 13:54:18 (2812)

2000-12-06 13:54:18# 126. lþ. 41.94 fundur 175#B losun gróðurhúsalofttegunda# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það hljómar eins og endurtekning og hefur vissulega komið fram áður að þetta mun eini málaflokkurinn sem við ræðum á hv. Alþingi þar sem Samfylkingin og vinstri grænir eru sammála, þessir fyrrum samherjar. Þeir kölluðu sig það a.m.k. hér áður. Ég er hins vegar sammála þeim um eitt í þessu máli, þ.e. að mikilvægt sé að ríki heims nái samningum um skuldbindandi gagnkvæm ákvæði alþjóðasamnings um aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum af manna völdum. Hitt, hversu brýnt er að ganga til verksins, erum við ekki sammála um og alls ekki um hver sérstaða Íslands er eða hvernig eigi að halda á hagsmunum okkar.

Það hefur komið ítrekað fram að hv. þm. þessara tveggja flokka virðast álíta að sérstaða Íslands sé mjög léttvæg og hagsmunir okkar með engu móti öðruvísi en hagsmunir annarra vestrænna ríkja. Sérstaðan Íslands er sú, herra forseti, að útblástur okkar á þessum lofttegundum kemur frá gerólíkum uppsprettum við það sem gerist í hinum vestrænu löndunum sem við köllum iðnvædd. Ísland er hins vegar fiskiðnvætt og sérstaðan liggur í því að þriðjungur útblásturs Íslendinga kemur frá samgöngum og flutningastarfsemi, annar þriðjungur frá fiskveiðum. Iðnaður okkar er mjög léttvægur í samanburði við ríkin sem hér eru tekin til samanburðar. Þetta er sérstaða Íslands auk þess sem við nýtum vistvæna orkugjafa í jafnmiklum mæli og raun ber vitni.

Ég er sannfærður, herra forseti, um að ef við mundum ganga svo langt að taka undir þau sjónarmið sem hv. þm. Samfylkingarinnar og vinstri grænna halda hér fram, mundum láta þau ráða gerðum okkar á alþjóðavettvangi í samningum við önnur ríki um samræmda byrði í aðgerðum, þá færum við illa með hagsmuni Íslands. Þar með mundum við gera íslenskum atvinnuvegum og Íslendingum byrðarnar þyngri en hjá öðrum. Atvinnuvegir okkar yrðu miður samkeppnisfærir og lífskjör færu versnandi. Eru þetta skilaboð þessara tveggja flokka?