Varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:06:16 (2842)

2000-12-06 15:06:16# 126. lþ. 42.3 fundur 280. mál: #A varúðarregla, 15. regla Ríó-yfirlýsingarinnar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alrangt sem kemur fram hjá hv. fyrirspyrjanda að allar stofnanir ráðuneytisins hafi verið gegn þessum úrskurði. Það er alls ekki svo. Skipulagsstofnun er undirstofnun umhvrn. (KolH: Fyrirgefðu, ég átti við...) Það er sú stofnun sem fór yfir allt málið. Það er sú stofnun sem heldur utan um það, kallar inn eftir umsögnum og fer yfir umhverfismatið. Umhverfismatið fór fram í tveimur lotum, þ.e. frummat og frekara mat. Skipulagsstofnun féllst á að heimila Kísiliðjunni að fara í Syðriflóa með víðtækum skilyrðum til að tryggja að allt væri í lagi. Ég féllst síðan á þann úrskurð. Ég staðfesti úrskurð undirstofnunar minnar, sem er Skipulagsstofnun, að vísu með einu aukaskilyrði, tólfta skilyrðinu, sem lýtur að setflutningum sem Náttúruverndarráð hafði m.a. lagt áherslu á.

Það er ekki verið að misskilja varúðarregluna. Það er verið að framkvæma varúðarregluna. Og það er algjör misskilningur á varúðarreglunni ef hv. þm. heldur að varúðarreglan sé það sama og að gera aldrei neitt. Hér mátti heyra á máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að vegna þess að skoðanir stangast á, þá sé vafi. Hvað þýðir það? Á þá að úrskurða alltaf á móti framkvæmd ef skoðanir stangast á? Þá þyrfti engan umhvrh. til að úrskurða í máli því það félli þá á þessum svokallaða vafa, því að menn stangast á. Hér var algjörlega eðlilega staðið að málum. Skipulagsstofnun tekur inn í umhverfismat sem fór í tvo hringi, fékk faglegar umsagnir og úrskurðaði og síðan fór það í úrskurð hjá umhvrh. og það eru víðtæk skilyrði sett, tólf skilyrði. Ef það er ekki að láta náttúruna njóta vafans, þá veit ég ekki hvað. Hér er algjörlega eðlilega staðið að málum.