Bygging heilsugæslustöðvar í Voga- og Heimahverfi

Miðvikudaginn 06. desember 2000, kl. 15:30:50 (2853)

2000-12-06 15:30:50# 126. lþ. 42.5 fundur 306. mál: #A bygging heilsugæslustöðvar í Voga-og Heimahverfi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin við fyrirspurn minni og ágæta umræðu um fyrirspurnina. Í henni fólst alls ekki neitt annað en að fá upplýsingar um hvernig málið stæði. Mér er vel kunnugt um að töluvert hafi verið lagt í uppbyggingu á heilsugæslunni í Reykjavík með því að styðja við þá þjónustu sem er þegar til staðar og myndarlega hefur verið staðið að byggingu á nýrri heilsugæslustöð í Fossvogi og Grafarvogi og endurbótum í Hlíðunum. Ég er alls ekki að draga úr því. Ég fagna því að málið er komið á skrið. Ég fagna því einmitt að það verði þá vonandi gengið til samninga við Hrafnistu í þessu máli og vona að það þýði jafnframt að gera eigi áframhaldandi tilraunir með að einkaaðilar reki heilsugæslustöð í Reykjavík. Ég vildi þá í framhaldinu sjá fleiri tilraunir innan heilbrigðiskerfisins í þá veru að gera samkomulag við einkaaðila um rekstur einstakra þátta heilbrigðisþjónustunnar.

Ég fagna því jafnframt að sett eru ákveðin tímamörk í þetta dæmi, þ.e. eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra er fyrirhugað að setja á laggirnar og opna heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi snemma árs 2002, ef ég skildi ráðherra rétt, og er það sérstaklega ánægjulegt.