Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:47:01 (2879)

2000-12-07 10:47:01# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:47]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ekki er nýtt að hér sé blanda af einkapraxís og almannaþjónustu. Það er heldur ekki nýtt að greitt sé af almannafé fyrir þessa þjónustu. Það sem er nýtt er tvennt: Í fyrsta lagi að farið sé að líta á heilbrigðisþjónustuna sem arðvænlegan fjárfestingarkost á ameríska vísu, þ.e. starfsemi sem er vænleg til að gefa af sér arð. Það er þetta sem hefur gert ameríska kerfið dýrasta heilbrigðiskerfi í heiminum.

Það er líka nýtt að farið sé að ræða það á Íslandi að menn geti keypt sig fram fyrir aðra í biðröðum, ekki með því að borga alla þjónustuna sjálfir, nei, það á að láta skattborgarann niðurgreiða forganginn. Skattgreiðandinn á að borga grunninn og síðan á efnafólkið að geta keypt sig fram fyrir. Það er þetta sem er nýtt í umræðu um heilbrigðisþjónustuna. Það er líka nýtt og því má bæta við að innan úr heilbrigðisþjónustunni heyrast þessar raddir. Læknar sem eru farnir að líta á sig sem atvinnurekendur og fjárfesta sem ætla að hafa arð af þessari starfsemi. Það er nýtt og gegn þessu verður barist, einfaldlega vegna þess að við viljum varðveita heilbrigðisþjónustu sem jafnast á við það besta í heiminum. Við munum styðja hvern þann stjórnmálamann, úr hvaða flokki sem hann kemur, sem er reiðubúinn að beita sér í þá veru.