Einkarekið sjúkrahús

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 10:48:52 (2880)

2000-12-07 10:48:52# 126. lþ. 43.91 fundur 176#B einkarekið sjúkrahús# (aths. um störf þingsins), GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[10:48]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég átti þess kost að sitja ein átta ár í heilbr.- og trn. Þar átti sæti líka hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. Það sem kom mér mest á óvart þegar læknar voru að koma í heimsókn til heilbr.- og trn. var hversu ósamstæðir þeir voru og unnu hver gegn öðrum. Það hefur komið fram í umræðum í heilbr.- og trn. frá læknum sjálfum að um langan tíma standa skurðstofur spítalanna auðar vegna vinnutímafyrirkomulags sem þar er ástundað. Þeir hafa bent á að verði einhverjum hluta af störfum þeirra hleypt í svokallaða einkaframkvæmd gæti það þýtt meiri notkun á skurðstofunum sem þýddi líka styttri biðlista þannig að þeir aðilar sem vilja borga fyrir aðgerðina þurfi ekki að vera þess valdandi að biðlistinn lengist eða þeir sem eiga minni peninga komist seinna að. Það gæti virkað í öfuga átt.

Gott dæmi um þetta eru krossbandaaðgerðir. Ekki er langt síðan læknar opnuðu sérstaka stofu þar sem krossbandaaðgerðir fóru fram. Hvernig var þá brugðist við af öðrum læknum á ríkissjúkrahúsunum? Þeir gerðu allt til að stoppa það að sjúklingar færu á þessa einkastofu. Læknar segja manni jafnvel að þeim líði illa yfir því að vera þar sem 6--8 manns eru í kringum eina aðgerð. Á miðjum degi fara þeir á einkastofu sína þar sem þrír menn vinna sömu vinnu. Er ekki tími til kominn að við fáum að leita annarra leiða en að festast í viðjum vanans marga tugi ára aftur í tímann? Við skulum vera bjartsýnir og horfa fram á við og reyna nýjar leiðir. Ef okkur mistekst er alltaf hægt að fara til baka.