Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:24:04 (2889)

2000-12-07 11:24:04# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir nokkuð yfirgripsmikla ræðu og ágætis punkta sem við munum náttúrlega fara vel yfir þegar þar að kemur við meðferð allshn. á bæði þessu mikilvæga frv. og ekki síður hinu stóra frumvarpinu.

Í rauninni get ég ekki tekið undir það með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að taka þessi frumvörp saman því ég get ekki lofað því að afgreiðslu stóra frv. innan allshn. verði lokið fyrir 25. mars 2001 en þá er mikilvægt að það frv. sem við erum að ræða verði klárað til þess að við uppfyllum skilyrði Schengen-samningsins. Ég vil því fyrir mína parta klára þetta frv. og leggjast í mjög mikla vinnu við heildarfrumvarpið um málefni útlendinga sem er, eins og hv. þm. kom inn á, mjög mikilvægt frv. og að þar verði vandað vel til verka.

Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að í upphafi máls síns sagði hv. þm. að henni þætti ábyrgð Íslands í raun engin vera. Ég get ekki tekið undir það að ábyrgð Íslands í gegnum þetta frv. sem við erum að ræða til þess í rauninni að taka Dyflinnarsamninginn í gildi, verði engin því að ef ábyrgð Íslands er engin hver er þá ábyrgð þeirra landa sem eru einnig aðilar að Dyflinnarsamningnum? Í Dyflinnarsamningnum kveður einmitt skýrt á um það og tryggir rétt einstaklinga að umsókn verði tekin til meðferðar, að ekki verði hægt að ýta honum frá einu landi til annars. Það er einmitt það sem aðildarríkin undirrituðu með gerð þessa Dyflinnarsamnings þannig að ábyrgð Íslands verður einmitt mikil í gegnum þann samning.