Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:26:22 (2890)

2000-12-07 11:26:22# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar skoðað er hvaða lönd eru aðilar að Dyflinnarsamningnum eru þau ólík og landamæri þeirra liggja að löndum með ólíka stöðu. Ég get nefnt Ítalíu, þar er gífurlegt flóttamannavandamál út af erfiðleikum í nágrannalöndunum.

Við erum þannig staðsett að við höfum ekki slík landamæri og það er alveg ljóst að við höfum ekki uppfyllt flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna um að kynna hælisbeiðanda réttindi við komu, um að fá strax lögfræðing, um að fá túlk, um að fá ráðgjöf og réttaraðstoð. Tugir flóttamanna hafa leitað hér hælis á liðnum árum, þeim er alltaf snúið til baka. Það er það sem er réttur okkar og sem við erum að staðfesta í þessu frv. sem byggir á þessum Dyflinnarsamningi. Það er verið að hnykkja á því að okkur er alltaf heimilt að snúa flóttamanni til baka til þriðja lands, til hins svokallaða örugga lands samkvæmt Dyflinnarsamningnum, en við vitum ekki hvað verður gert við hann þegar hann er kominn þangað. Þá er hann kominn í hendur annarra og við getum bara þvegið hendur okkar því að við erum svo góð, ekki vorum við vond við hann, að vísu settum við einu sinni einn í fangelsi.

En það erum við sem snúum flóttamönnum til baka og tökum ekki við neinu vandamáli. Það getur vel verið að það verði framhaldið líka hvernig svo sem löggjöf okkar verður. En sameinumst um það að hver sem hér ber að dyrum fái réttmæta meðferð og þannig að ekki sé gagnrýnt af hálfu mannréttindasamtaka. Ég vek athygli á því að þau orð sem ég hef viðhaft er fyrst og fremst tilvitnun í orð og setningar sem komið hafa frá mannréttindasamtökum.