Eftirlit með útlendingum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 11:31:51 (2893)

2000-12-07 11:31:51# 126. lþ. 43.2 fundur 284. mál: #A eftirlit með útlendingum# (beiðni um hæli) frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[11:31]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það eru í rauninni mörg atriði sem ég hefði viljað koma að hér í andsvari en það er ekki víst að tíminn leyfi það. Hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum sem ég vil svara og ég vil leggja áherslu á að brýnt er að afgreiða þetta mál fyrir jól. Eftirlitsnefndir koma í janúar til Íslands til þess að fylgjast með og gera úttekt á því hvernig við stöndum gagnvart þeirri dagsetningu, 25. mars nk., að gerast fullgildir aðilar að Schengen-samkomulaginu. Samningi milli landanna er að ljúka núna á þessum dögum, sem sé samningur um hvernig Ísland og Noregur tengjast Dyflinnarsamningnum, það er því allt til reiðu.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. og hef raunar lýst því yfir áður að ég telji þörf á því að þetta nýja frv. til laga um útlendinga, stóra frumvarpið, komi sem fyrst til umræðu á hinu háa Alþingi og fari síðan til þingnefndar þar sem væntanlega er ljóst að hv. allshn. mun skoða það vel og vandlega og ég tel fulla þörf á því.

En ég er ekki sammála hv. þm. þegar hún segir að þetta frv. sem við ræðum um og Dyflinnarsamningurinn fríi Ísland alltaf við að taka við flóttamönnum. Það er þannig að við getum tekið við hverjum sem við viljum hvenær sem er og það er ekkert sem bannar okkur það. Þess vegna spyr ég hv. þm.: Hvers konar lög og reglur vill hv. þm. að Ísland setji? Eigum við ekki að vera einmitt með í samfélagi þjóðanna og vera með sambærilegar reglur og t.d. nágrannaríki okkar?