Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 12:37:01 (2902)

2000-12-07 12:37:01# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[12:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka að þessi mál séu tekin sameiginlega til umræðu hér á þingi því að gefur betri heildarmynd af þeim breytingum sem er verið að gera á núgildandi lögum. Hér mæli ég fyrir frv. til þjóðminjalaga, frv. til safnalaga, frv. til laga um húsafriðun og frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Þessi frv. eru hluti af heildarendurskoðun á þjóðminjalögunum en heildarendurskoðun á þeim lögum hefur ekki farið fram frá 1989.

Við endurskoðun laganna hefur verið tekið mið af eftirfarandi meginþáttum: Safnastarfsemi í landinu hefur breyst mikið og ört á undanförnum árum. Skilgreina þarf hlut ríkisins með skýrari hætti en áður og hlutverk Þjóðminjasafns Íslands þarf að skilgreina gagnvart öðrum söfnum er starfa á sviði þjóðminjavörslunnar. Húsafriðun hefur vaxið fiskur um hrygg og virðing fyrir byggingararfleifð vex ár frá ári. Sjálfstæði húsafriðunarnefndar er til þess fallið að árétta mikilvægi málaflokksins innan stjórnsýslunnar og út á við með sérstökum lögum. Um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa er fjallað í sérstökum lögum er taka mið af tilskipunum ESB nr. 93/7 og nr. 96/100 um skil á menningarminjum.

Þá er rétt að geta þess að mikilvæg þróun hefur orðið í fornleifarannsóknum á undanförnum árum. Fleiri fræðimenn á þessu sviði hafa haslað sér völl og fundið sér starfsvettvang. Fornleifarannsóknir eru í auknum mæli gerðar af einkaaðilum. Tryggja þarf eftirlit með þessum rannsóknum og jafnframt að stjórnkerfi minjavörslunnar verði ekki of þungt í vöfum.

Ef ég lít fyrst sérstaklega á frv. til þjóðminjalaga þá má segja að með frv. séu ekki lagðar til verulegar breytingar á þeim efnisákvæðum er gilda um þjóðminjavörsluna samkvæmt núgildandi lögum en megintilgangur frv. er að einfalda stjórnkerfi þjóðminjavörslunnar og styrkja embætti þjóðminjavarðar.

Helstu nýmæli frv. eru þau að heiti þeirrar stofnunar sem nú kallast Þjóðminjasafn Íslands er breytt í heitið embætti þjóðminjavarðar. Helgast þetta af því að safnastarfsemi á vegum Þjóðminjasafns Íslands er einungis einn af mikilvægum þáttum þeirrar fjölþættu starfsemi sem fer fram á vegum stofnunarinnar. Þykir því rétt að breyta heiti hennar í embætti þjóðminjavarðar um leið og safnastarfsemi á vegum embættisins er gefið sérstakt vægi.

Með frv. þessu eru lagðar til róttækar breytingar á stjórn þjóðminjavörslunnar með það fyrir augum að einfalda og styrkja stjórnkerfi hennar, stytta boðleiðir og skilgreina betur ábyrgð og starfssvið hverrar stofnunar. Stjórnkerfi Þjóðminjasafns Íslands samkvæmt núgildandi lögum er of flókið og margar nefndir og ráð koma að stjórnun málaflokksins með einum eða öðrum hætti.

Lagt er til að þjóðminjaráð og fornleifanefnd í núverandi mynd verði lögð niður. Lagt er til að þjóðminjavörður taki við meginhlutverki þessara aðila en að jafnframt verði sett á laggirnar úrskurðarnefnd er beri heitið fornleifanefnd og verði skipuð aðilum með fræðilega þekkingu á málaflokknum og þangað verði hægt að skjóta tilteknum ákvörðunum þjóðminjavarðar er varða fornleifarannsóknir.

Með framangreindum stjórnkerfisbreytingum á stofnuninni er embætti þjóðminjavarðar eflt. Ábyrgð hans á rekstri embættisins verður skýr auk þess sem lagt er til að þjóðminjavörður hafi forustu um mótun heildarstefnu fyrir þjóðminjavörsluna. Frv. gerir auk þess ráð fyrir eflingu minjavörslu á landsbyggðinni og að minjaverðir verði starfsmenn þjóðminjavarðar.

Hvað varðar þann þátt í starfsemi embættis þjóðminjavarðar er lýtur að fornleifum, rannsóknum þeirra og varðveislu eru í frv. lagðar til nokkrar breytingar.

Lagt er til að þjóðminjavörður hafi eftirlit með fornleifarannsóknum, veiti leyfi til fornleifarannsókna í stað fornleifanefndar samkvæmt núgildandi lögum og beri ábyrgð á fornleifaskráningu og friðlýsingarskrá og fari með yfirstjórn fornleifasjóðs.

Í frv. er sérstaklega tekið fram að þjóðminjavörður skuli leitast við að bjóða út fornleifarannsóknir á vegum embættisins sem nauðsynlegar eru á hverjum tíma. Í þessu ákvæði felst mikilvæg stefnumörkun. Sú tilhögun að bjóða út fornleifarannsóknir kallar á skýra markmiðssetningu til þess að tryggt sé að rannsóknarverkefnum verði forgangsraðað eðlilega og þekkingaröflun á þessu sviði verði markviss. Með þessari tillögu er tekið mið af þeim fjölda fornleifafræðinga sem starfa sjálfstætt hér á landi og sinna vísindalegum rannsóknum.

Í frv. er gert ráð fyrir því að starfsmenn þjóðminjavarðar geti sinnt fornleifarannsóknum að einhverju leyti, ekki síst svonefndum neyðarrannsóknum, sem erfitt kann að vera að bjóða út.

Þá er lagt til að settur verði á laggirnar sérstakur fornleifasjóður sem hafi það hlutverk að úthluta styrkjum til rannsóknarverkefna. Með þessu móti eru sköpuð skilyrði til að styrkja rannsóknir á þessu sviði og renna styrkari stoðum undir sjálfstæða rannsóknarstarfsemi á þessu mikilvæga sviði menningarmála og menningararfsins. Sérstök stjórn fornleifasjóðs á að úthluta úr sjóðnum.

Eins og ég sagði miðar frv. að því að efla safnastarfsemi á vegum embættis þjóðminjavarðar. Lagt er til að Þjóðminjasafn Íslands hafi sérgreindan fjárhag og að ráðinn verði sérstakur safnstjóri er beri fjárhagslega ábyrgð á rekstri safnsins gagnvart þjóðminjaverði. Auk þess er lagt til að safnið hafi ráðgefandi hlutverk gagnvart öðrum byggða- og minjasöfnum og hafi forgöngu um samræmda safnastefnu á sviði þjóðminjavörslunnar.

Í tengslum við undirbúning lagafrv. hafa komið fram þau sjónarmið að brýnt sé að efla forvörslu og í því sambandi hafa komið fram hugmyndir um að setja á laggirnar sérstaka stofnun sem sinnt geti forvörslu fyrir öll söfn í landinu. Ekkert er talið vera því til fyrirstöðu að Þjóðminjasafn Íslands eigi aðild að slíkri stofnun eða að slík stofnun sé sett á laggirnar í samvinnu við þjóðminjavörð. Þar af leiðandi var ekki talið nauðsynlegt að í lagatexta kæmi fram heimild fyrir þjóðminjavörð til að taka þátt í samvinnu af þessu tagi. Ég vil leggja áherslu á þennan þátt, ég tel að það þurfi að huga sérstaklega að forvörsluþættinum, bæði fyrir Þjóðminjasafnið, eins fyrir Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn, Árnastofnun og Þjóðskjalasafn. Ég tel að það sé sérstakt úrlausnarefni að velta því fyrir sér hvort ekki eigi að fela einum aðila að koma að því að annast forvörslu fyrir þessar ríkisstofnanir og gleymdi ég þá einni þegar ég taldi þetta, Listasafni Íslands, en allar þessar stofnanir sinna forvörslu með einum eða öðrum hætti. Ég held að menn séu að átta sig á því að nauðsynlegt er að huga vel að þessum þætti. Ég vil ég varpa þessu fram í umræðurnar þannig að menn geti einnig velt því fyrir sér þótt það sé ekki beint hluti af þeirri lagasetningu sem við erum að fjalla um.

[12:45]

Frv. til safnalaga er nátengt þessu frv. því að það að gæta þjóðminja og fornleifa og annast söfnun og þá starfsemi sem við flokkum undir safnastarfsemi er náskylt.

Megintilgangur frv. til safnalaga er að styrkja og efla almenna safnastarfsemi í landinu, stuðla að bættri nýtingu fjármuna, m.a. með því að fjárveitingar til safna grundvallist á rökstuddu mati á heildstæðri stefnu í safnamálum. Frv. tekur til starfsemi minja- og listasafna, en ekki til bóka- og skjalasafna eða Kvikmyndasafnsins. Hugtakið minjasafn tekur bæði til menningarminjasafna og náttúruminjasafna. Víða um land starfa slík söfn hlið við hlið í sama safnahúsi. Í báðum þessum flokkum safna eru gerðar sömu faglegu kröfur til skráningar, varðveislu og sýningarhalds.

Lagt er til að sett verði á laggirnar safnaráð er hafi það hlutverk að marka heildarstefnu um safnastarfsemi og úthluta styrkjum til safna úr safnasjóði. Ekki er ætlast til umfangsmikillar starfsemi af hálfu ráðsins. Þannig er miðað við að eftirlit ráðsins með söfnum í eigu ríkisins felist í því að meta skýrslur sem söfnum er gert að senda ráðinu.

Í frv. er lagt til starfræktur verði sérstakur safnasjóður sem hafi það hlutverk að sjá um styrkveitingar til safna. Safnaráð fari með yfirstjórn sjóðsins og eru tilgreind í frv. skilyrði sem söfn þurfa að uppfylla til þess að geta fengið styrk úr sjóðnum. Miðað er við að safnasjóður hafi m.a. til ráðstöfunar þá fjármuni sem hingað til hafa verið veittir til byggða- og minjasafna af fjárlagalið Þjóðminjasafns Íslands og af fjárlagaliðnum Söfn, ýmis framlög, sbr. fjárlagalið 02-919 1.90. Með stofnun slíks sjóðs er tryggð aukin samkvæmni í styrkveitingum og aukið eftirlit með þeim söfnum sem fá styrki. Vakin er athygli á því að lagt er til að safn geti ekki fengið rekstrarstyrk nema stofnskrá þess hafi verið samþykkt af safnaráði og er hér um mikilvæga nýbreytni að ræða.

Í frv. er lagt til að á hverju safnasviði verði komið á fót höfuðsafni er sé miðstöð safnastarfsemi á sínu sviði með ákveðnar lögbundnar skyldur gagnvart öðrum söfnum. Jafnframt er lagt til að Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands verði skilgreind höfuðsöfn er séu miðstöðvar safnastarfsemi á sínu sviði. Þá er enn fremur lagt til að á næstu tveimur árum verði sett á laggirnar höfuðsafn á sviði náttúrufræða og er það í samræmi við tillögur safnanefndarinnar. Sú stefnumörkun krefst þess að endurskoðuð verði ákvæði laga um Náttúrufræðistofnun Íslands, nr. 60/1992, hvað varðar safnastarfsemi á vegum stofnunarinnar, en það er alls ekki ætlunin að sú endurskoðun taki til annarra þátta í starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands, svo sem heimildasöfnunar og rannsókna á náttúru Íslands. Það er hins vegar nauðsynlegt að skjóta traustari lagastoðum en nú er undir safnastarfsemi á sviði náttúrufræða og er því lagt til í bráðabirgðaákvæði að undirbúningur slíkrar lagasetningar fari fram á næstu tveimur árum. Sjálfur tel ég ekki vansalaust að í íslenskum lögum skuli ekki vera nein ákvæði um náttúruminjasafn eða náttúrugripasafn og að þess vegna sé stigið hér mikilvægt skref þegar því er lýst yfir í 5. gr. þessa frv. að Náttúruminjasafn Íslands verði höfuðsafn á sviði náttúrufræða og Náttúruminjasafn Íslands skuli annast heimildasöfnun, kynningu og rannsóknir á íslenskri náttúru, en með því er að sjálfsögðu aðeins vísað til þeirra rannsókna sem eru nauðsynlegar til þess að safnið geti sinnt starfsemi sinni sem safn. Það er ekki verið að tala um að safnið fari inn á verksvið annarra stofnana sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

Varðandi húsafriðunarlöggjöfina þá er hér í fyrsta sinn flutt sérstakt frv. til laga um húsafriðun. Ákvæði um húsafriðunarmál hafa hingað til verið í þjóðminjalögunum. En ég tel að með því að flytja sérstakt frv. um þetta og með þeirri skipan sem við erum hér að leggja til, sé mikilvægi þessa málaflokks áréttað og það liggi betur fyrir hvernig unnt er að standa skipulega að því að taka á málefnum húsafriðunar.

Efnisákvæði frv. eru sambærileg ákvæðum V. kafla þjóðminjalaganna nr. 88/1989. Ekki eru lagðar til stórvægilegar efnisbreytingar á lagareglum sem gilda um húsafriðun, enda álíta sérfræðingar að gildandi lagareglur hafi í stórum dráttum staðist tímans tönn.

Þó er vakin athygli á því að í frv. er lagt til að skýrar verði kveðið á um heimildir menntmrh. til þess að fella niður friðun án tillits til þess hvort hún er vegna aldurs eða sérstakra friðunaraðgerða. Nokkur vafi hefur þótt leika á þessu í gildandi lögum og m.a. hef ég frestað að taka afstöðu til tillagna frá húsafriðunarnefnd um niðurfellingu á friðun. Þær tillögur liggja fyrir í menntmrn. en ég hef frestað að taka afstöðu til þeirra því ég tel að lagaheimildir menntmrh. til slíkra ákvarðana séu ekki nægilega skýrar. En tekið er af skarið um það í þessu frv.

Meginbreytingarnar sem frv. fjallar lúta að stjórnsýslu málaflokksins og miða að því að auka sjálfstæði yfirstjórnar þessa málaflokks innan þjóðminjavörslunnar. Þannig er lagt til að húsafriðunarnefnd sem nú er undirnefnd þjóðminjaráðs verði að sjálfstæðri ríkisstofnun er heyri beint undir menntmrh. Jafnframt er lagt til að menntmrh. skipi forstöðumann húsafriðunarnefndar til fimm ára. Þannig eru boðleiðir gerðar skýrari og stjórnsýsla málaflokksins treyst.

Helstu rökin fyrir því að lagaákvæðum um húsafriðun verði skipað með sérlögum en ekki heildarlöggjöf um þjóðminjavörsluna eru þau að friðun húsa og annarra mannvirkja nær samkvæmt framangreindu til mun fleiri bygginga en heyra undir eiginlega þjóðminjavernd og mælir það með því að kveðið sé á um málaflokkinn í sérstökum lögum. Þá tengist friðun húsa og annarra mannvirkja mjög löggjöf um skipulags- og byggingamál. Með sérstökum lögum um friðun húsa og annarra mannvirkja væri húsafriðun skapaður einn heildarrammi og gildandi reglur að því leyti gerðar aðgengilegri en nú er.

Í þriðja lagi er hægara að láta fara fram sérstaka stefnumótun og endurskoðun laga um húsafriðun ef kveðið er á um skipan þeirra í sérlögum, enda þarf þá ekki að hreyfa við gildandi fyrirkomulagi laga á öðrum sviðum. Ég tel því efnislegar, stjórnsýslulegar og formlegar forsendur fyrir því að flytja frv. til laga um húsafriðun eins og hér er gert og gera þar með þennan málaflokk sýnilegri í íslenskri löggjöf og skapa honum styrkari stöðu innan stjórnsýslunnar.

Eins og ég mun víkja að, herra forseti, hér á eftir koma öll þessi frv. mjög til móts við sjónarmið sem fram hafa komið á Alþingi á undanförnum árum.

Fjórða frv. í þessum nátengda lagabálki er frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa. Eru ákvæði frv. að mestu efnislega óbreytt frá ákvæðum VI. kafla núgildandi þjóðminjalaga, en með lögum nr. 60/1996 var þjóðminjalögunum breytt, m.a. til samræmis við tilskipun ráðs Evrópusambandsins 93/7/EBE frá 15. mars 1993 um skil menningarminja sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis. Var Ísland skuldbundið til að lögleiða ákvæði VI. kafla þjóðminjalaga vegna aðildarinnar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Samkvæmt frv. því sem hér liggur fyrr er lagt til að þjóðminjavörður taki við hlutverki Þjóðminjasafns Íslands samkvæmt núgildandi þjóðminjalögum og hann fari fyrir hönd íslenska ríkisins með daglega og almenna framkvæmd vegna flutnings menningarverðmæta úr landi og skil þeirra til annarra landa. Ágreiningi um ákvarðanir má skjóta til menntmrn. sem æðsta stjórnvalds á þessu sviði.

Þar sem þessi málaflokkur er nokkuð sérhæfður þykir rétt að setja þessar regur í sérstakan lagabálk og greina þær þannig frá öðrum reglum er gilda um vörslu þjóðminja hér á landi.

Herra forseti. Ég hef nú lokið að gera grein fyrir meginatriðum í þessum fjórum lagafrv. Eins og ég sagði tel ég að áherslurnar í frumvörpunum komi mjög til móts við þau sjónarmið sem hafa verið ríkjandi hér á hinu háa Alþingi á undanförnum árum þegar þessir málaflokkar eru til umræðu og endurspeglast m.a. í ákvörðunum sem Alþingi tók á Þingvöllum í sumar með stofnun Kristnihátíðarsjóðs, þar sem lögð var áhersla á fornleifagröft og varðveislu menningarminja, og endurspeglast einnig í ákvörðunum Alþingis við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2001 þar sem greinilega kemur fram mikill áhugi þingmanna á því að efla byggðasöfn, fornleifarannsóknir og safnastarfsemi almennt í landinu.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum þegar hv. formaður fjárln., Jón Kristjánsson, flutti hér eina af ræðum sínum vegna fjárlagafrv., kom skýrt fram hjá honum að það væri mjög æskilegt að til væri heildarlöggjöf um safnastarfsemi í landinu til þess m.a. að auðvelda fjárveitingavaldinu að meta ýmsar óskir um fjárstuðning sem hingað berast.

Ég tel að með safnalöggjöfinni eins og hún er mótuð í þessu frv. sé komið til móts við þessi sjónarmið og m.a. settar fram ákveðnar skilgreiningar fyrir þau söfn sem eðlilegt er að styrkja úr safnasjóði sem lagt er til að verði stofnaður og mundi þá taka við ýmsum fjármunum sem þegar eru á fjárlögum til einstakra safna. En úthlutað yrði úr sjóðnum á þeim forsendum sem lögin gera ráð fyrir ef frv. verður samþykkt.

Hið sama má segja um starfsemi Þjóðminjasafnsins. Fram hefur komið að menn telja æskilegt að þar sé ábyrgðin á rekstrinum skýr og ótvíræð og safnið hafi sína skýru stöðu án tillits til þjóðminjavörslunnar í heild og lagt er á ráðin um það í frv. til þjóðminjalaga.

Húsafriðunarsjóður hefur eflst og eflist enn með hliðsjón af því fjárlagafrv. sem við erum með til meðferðar þessa dagana. Einnig er ljóst að þar kemur fram mikill áhugi þingmanna á að efla starfsemi á þessu sviði. Ég tel að sjóðurinn verði betur í stakk búinn til að sinna mikilvægum verkefnum sínum ef þetta frv. verður að lögum.

Herra forseti. Hér hafa oft orðið talsverðar umræður um skipan þessara mála, ekki síst fornleifarannsókna. Það er málaflokkur sem menn hafa mjög skiptar skoðanir á þegar fylgst er með opinberum umræðum um þetta ágæta rannsóknasvið. Ég held að í þessu frv. sé málum þannig skipað að unnt eigi að vera að sinna öllum erindum stjórnsýslulega rétt og með þeim aðferðum sem eiga að tryggja sem best efnislega afgreiðslu mála.

En ekkert af þessum frv. er, herra forseti, af mér lagt fram með því fororði að engu megi í þeim breyta. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að nefndin sem fær þessi mál til meðferðar fari ítarlega yfir frumvörpin, kalli eftir umsögnum og áliti sem flestra til þess að menn leitist við að ná sem víðtækastri sátt um þennan málaflokk og gefi sér tóm til þess að kanna þau ákvæði sem við gerum hér tillögu um. Ef eitthvað má betur fara að lokinni þeirri yfirferð, er ég reiðubúinn til þess að taka öllum góðum ábendingum frá menntmn. ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að betur megi standa að einstökum útfærsluatriðum að því er þessa mikilvægu málaflokka varðar.

Ég legg höfuðáherslu á nauðsyn þess að nálgast viðfangsefnið eins og gert er í þessum fjórum frv., að menn hafi þá sýn sem frumvörpin gera ráð fyrir og að innan þeirra marka verði leitast við að ná sem víðtækastri samstöðu um þessa málaflokka á Alþingi sem þingið hefur æ meiri áhuga á og nauðsynlegt er að sinna af kostgæfni og alúð til þess að við gætum þess sem er mikilvægast úr okkar sögu og fellur undir þessa lagabálka.

Með þessum orðum, herra forseti, óska ég eftir því að frv. fari til hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.