Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:08:08 (2907)

2000-12-07 13:08:08# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:08]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér eru menn að ræða ákaflega mikilvægt mál. Hér eru menn að tala um að kljúfa eina af merkustu stofnunum íslenska ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands, í tvennt. Í dag tengjist u.þ.b. 60--65% af umfangi þeirrar stofnunar einmitt safninu. Ég skil vel þau rök sem hæstv. ráðherra hefur flutt fyrir þessu og ég ætla í þessari ræðu minni ekki að fara í neina efnislega umræðu. Málið varðar ekki einungis hans ráðuneyti og hann sem ráðherra. Það varðar annan fagráðherra. Það varðar hæstv. umhvrh. Ég tel ekki að þessi umræða geti farið fram nema hæstv. umhvrh. sé í salnum vegna þess að það er alveg ljóst og það þarf að fá fram viðhorf umhvrn. til þessa gernings og jafnframt til þess hvernig eigi þá að skipta verkum millum þessara tveggja stofnana og fá fram viðhorf hæstv. umhvrh. til þessa máls.

Herra forseti. Ég hef nokkrar spurningar sem ég þarf að varpa til hæstv. umhvrh. Ég tel að það sé ekki ósanngirni af minni hálfu að óska eftir því að hæstv. ráðherra verði við umræðuna og umræðunni verði þá eftir atvikum frestað þangað til hún getur orðið við þessari réttmætu bón minni.