Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 13:47:55 (2913)

2000-12-07 13:47:55# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hygg að framgöngu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í húsnæðismálum, með hæstv. félmrh. Pál Pétursson í broddi fylkingar, muni lengi minnst. Hennar verður minnst sem ríkisstjórnarinnar sem lagði niður félagslega húsnæðiskerfið á Íslandi. Afleiðingarnar hafa svo sannarlega ekki látið á sér standa. Aðstaða lágtekjufólks til húsnæðisöflunar hefur stórversnað. Eignalítið eða eignalaust lágtekjufólk á ekki minnstu möguleika á því í dag að komast í eigið húsnæði. Það er úti í hafsauga. Til þess þarf eignir upp á a.m.k. 1--2 millj., handbærar eignir, og upp undir meðallaun, til að það dæmi geti gengið upp, t.d. eins og fasteignaverð er á höfuðborgarsvæðinu. Á leigumarkaði hrannast biðlistarnir upp og húsaleigan rauk upp úr öllu valdi eins og spáð var. Staðreyndirnar blasa við tveimur árum eftir að þessi óhappaákvörðun var tekin.

Einna alvarlegast er þó það sem lýtur að framhaldinu. Það er nánast enginn hvati fyrir hendi lengur til að byggja leiguíbúðir eða önnur úrræði sem leysa úr vanda þeirra sem örðugt eiga með að kaupa húsnæði. Nú er ekki rætt um annað en markaðsvexti, markaðsvexti í því landi heimsins þar sem vextir eru einna hæstir.

Í raun er það svo, herra forseti, að í húsnæðismálum almenns launafólks og láglaunafólks hefur okkur verið kippt áratugi aftur í tímann. Aðstæður eru sambærilegar við það þegar baráttan hófst á fyrri hluta aldarinnar fyrir félagslegum úrræðum til að auðvelda láglaunafólki að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það er ömurlegt til þess að vita að mitt í öllu góðærinu skuli það gerast í málefnum þeirra sem síst mega við því að hagur þeirra sé skertur eins og raun ber vitni.

Ég tek undir það með fyrrv. félmrh. að þessi frammistaða er til skammar, herra forseti.