Ráðstafanir í húsnæðismálum

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 14:01:02 (2919)

2000-12-07 14:01:02# 126. lþ. 43.94 fundur 179#B ráðstafanir í húsnæðismálum# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Byggingarsjóður verkamanna var búinn að éta upp allar eignir Byggingarsjóðs ríkisins. Það voru 700 millj. sem eftir voru þegar búið var að reikna eignir Byggingarsjóðs ríkisins á móti skuldum Byggingarsjóðs verkamanna þannig að óhjákvæmilegt var að breyta því kerfi. Breytingin hefur tekist vel og ég er stoltur af henni. Mér þykir ágætt að mín sé minnst í sambandi við breytingar og lagfæringar á húsnæðismálum.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson lætur eins og þetta fólk sem er á biðlistunum sé allt á götunni. Sem betur fer er það ekki á götunni og þarf ekki að búa í tjöldum. Einhvers staðar er þetta fólk í gistingu. (Gripið fram í.) Sjálfsagt þarf það á því að halda og hefur löngun til að komast í betra húsnæði.

Heimildargrein kemur inn við 3. umr. fjárlaga þar sem heimild verður til að verja fé í stofnstyrki fyrir utan þær 50 millj. sem eru í fjárlagafrv.

Aðstaða lágtekjufólks hefur stórbatnað til þess að komast í eigið húsnæði og það eru 2.800 fjölskyldur sem hafa fengið loforð fyrir viðbótarláni síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa. (SJS: Lánskjörin hafa versnað. Hvernig hafa þau batnað?) Lánskjörin hafa ekki versnað vegna þess að samtímagreiddar vaxtabætur hafa komið á móti og skilin á þessum lánum eru bara býsna góð og skilin við Íbúðalánasjóð eru betri en þau hafa verið um langt skeið. (ÖJ: En er ráðherrann ánægður?) Nei, nei. Ég viðurkenni að þarna er um vanda að ræða og við verðum að vinna bug á honum. Ég er nýbúinn að skipa nefnd til að vinna áfram og hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem settar voru fram í margumræddri skýrslu.

Ég vil ekki biðja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að skammast sín, en hún ætti að fyrirverða sig fyrir þá útreikninga sem hún er að flagga hér í ræðustól.