Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 14:58:18 (2923)

2000-12-07 14:58:18# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Fyrr í dag lýsti ég meginviðhorfum mínum til þeirra frumvarpa sem hér liggja fyrir og það er einungis frv. til nýrra safnalaga sem tengist Náttúrugripasafni sem ég vil ræða hérna. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að þar sé verið að fara í ranga átt. Frv. felur í reynd í sér að verið er að brjóta upp Náttúrufræðistofnun eins og hún er til í dag. Samkvæmt ársskýrslu stofnunarinnar kemur í ljós að 50--60% af umfangi stofnunarinnar tengist Náttúrugripasafninu. Samkvæmt frv. sem hérna liggur fyrir á að kljúfa þetta í tvennt og það á að flytja Náttúrugripasafnið undir hæstv. menntmrh. Í reynd virkar það þannig að þjóðminjavörður verður æðsti yfirmaður Náttúrugripasafnsins. Það er auðvitað, herra forseti, algjör þverstæða í sjálfu sér.

Ég vil ekki lengja þessa umræðu, en mig langar að spyrja hæstv. umhvrh. sem mér sýnist hafa farið ákaflega halloka í þessu máli: Hvernig á að kljúfa þetta upp? Hvað á að fylgja Náttúrugripasafninu yfir til hæstv. menntmrh.? Á að flytja alla starfsmenn sem núna vinna við rannsóknir undir safninu? Á að taka hluta safngripanna eða á að taka þá alla? Nauðsynlegt er að þetta komi fram, herra forseti.

Síðan vil ég segja að alls staðar þar sem stundaðar eru alvörurannsóknir í líffræði og náttúrufræðum þá byggja þær á söfnum. Söfnunin og safnið er undirstaða slíkra rannsókna. Ég rifja það upp aftur sem ég sagði í umræðum við hæstv. menntmrh. fyrr á þessum degi að þegar ungir menn í túnjaðrinum á Bessastöðum voru að hugsa fyrir sér og láta sig dreyma um íslenskan háskóla byrjuðu þeir á því að leggja drög að því að safna náttúrugripum sem áttu að verða undirstaða hinnar nýju íslensku akademíu. Þeir byrjuðu á því að safna steinum og þeir byrjuðu á því að safna náttúrugripum. Þetta, herra forseti, var fyrsti vísirinn að Náttúrugripasafni Íslands. Það voru Jónas Hallgrímsson og félagar hans sem lögðu þessi drög, herra forseti.

[15:00]

Af hverju? Vegna þess að jafnvel þá gerðu menn sér grein fyrir því að undirstaða allra rannsókna á náttúru og lífríki landsins og sjávarins eru söfn af þessu tagi. Þess vegna verður að liggja fyrir hvernig menn hugsa sér að þetta verði. Hér er verið að stíga skref langt aftur í fortíðina, herra forseti.

Auðvitað er erlendis hægt að finna söfn sem eru hrein náttúrugripasöfn. Þar er aðstaðan allt önnur vegna þess að þar eru háskólar sem reka stór náttúrugripasöfn. Í dag er enginn háskóli á Íslandi sem rekur náttúrugripasafn. Til eru einhvers konar sýnasöfn við bæði læknadeild Háskóla Íslands og verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands. En það er Náttúrugripasafnið sem er hin þarfa undirstaða fyrir rannsóknirnar. Það sem við, hinir almennu borgarar landsins, þekkjum sem náttúrugripasafn er ekki nema lítið brot af safninu sjálfu. Safnið sjálft er miklu umfangsmeira en það sem við getum séð í þeim tveimur herbergjum sem hægt er að koma inn í ef vel viðrar --- eða illa --- uppi við Hlemm 3.

Herra forseti. Að því er hæstv. menntmrh. sagði skipulagði sérstök nefnd þessa vinnu og vann hana og ég spyr hæstv. menntmrh.: Vann þessi nefnd öll þau frumvörp sem hér eru undir? Ég spyr líka hæstv. umhvrh. hvort hún sé ánægð með þá útreið sem umhvrn. fær í þessu því að það er ekki bara að verið sé að taka það sem ætti að vera dýrasta perlan í safni umhvrn. frá því og færa undir hæstv. menntmrh. heldur sýnist mér að þetta sé unnið þannig að alls ekki er hægt að una við það.

Mig langar t.d., herra forseti, að taka þau ákvæði sem tengjast flutningi safngripa úr landi. Í 7. gr. frv. til safnalaga segir að heimilt sé að lána gripi eða verk úr söfnum til sýningar en þó eigi til útlanda nema með samþykki menntmrh. að fenginni umsögn safnaráðs og þjóðminjavarðar.

Herra forseti. Ætlar hæstv. umhvrh. að láta bjóða sér það að ef það á að lána eða flytja til útlanda íslenska náttúrugripi gefi þjóðminjavörður heimild eða veiti leyfi til þess? Þetta er ótvírætt samkvæmt þessari grein.

Herra forseti. Ég vísa líka til annars frv. sem við erum einnig að ræða, frv. til laga um flutning menningarverðmæta úr landi og skil menningarverðmæta til annarra landa. Þar segir, herra forseti, í 2. gr. að ekki megi flytja úr landi muni og gripi sem hér eru taldir nema formlegt leyfi þjóðminjavarðar komi til. Sjáum svo hvað stendur í 12. tölulið. Þar segir:

,,Dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök``.

Herra forseti. Hvernig gengur það upp að þjóðminjavörður, sem hefur hvorki hunds- né kattarvit á neinu sem tengist náttúrufræði, eigi að veita heimild til þess að flytja eitthvað sem tengist dýrafræði, grasafræði, bergfræði eða líffræði úr landi? Þetta er svo hróplegt ósamræmi og þetta er svo heimskulegt, herra forseti, að það tekur engu tali.

Ég spyr þess vegna hæstv. umhvrh.: Vissi hún ekkert um hvað þarna fór fram? Hvernig stendur á því að hún afsalar sér þessum mikilvæga þætti af sínu valdi til hæstv. menntmrh.?

Ég vek enn fremur eftirtekt á því, herra forseti, að í 7. gr. í sama frv. segir að sé um meiri háttar álitaefni að ræða eða ef það eigi að meta gildi menningarminja eigi þjóðminjavörður að hafa samráð við ýmsa sérfræðinga og þeir eru taldir upp. Það skal m.a. kalla til forstöðumann Listasafns Íslands. Ekki veit hann mikið um náttúrufræði, herra forseti. Það skal m.a. leita til stofnunar Árna Magnússonar. Hún veit tæplega mikið um náttúrufræði nema ef vera skyldi um kálfskinn sem handrit eru á skrifuð. Leita skal til Landsbókasafns Íslands -- Háskólabókasafns. Það er allt og sumt. Það er ekkert talað um það, herra forseti, það er ekkert skilyrt að ef flytja eigi úr landi náttúrugripi skuli leitað til einhverra sem hafa vit á því. Þetta er svo ótrúlega klúðurslegt, herra forseti, og sýnir vinnubrögð sem eru svo úr öllu lagi, úr takt við það sem venjulegt er að maður hlýtur eiginlega að spyrja hæstv. umhvrh.: Hefur hún engan áhuga á þessu máli? Getur verið að hæstv. umhvrh. hafi ekki fylgt þessu eftir?

Mér sýnist að hér sé um það að ræða að hæstv. menntmrh. sé að seilast mjög langt inn á valdsvið umhvrn. Hann er ekki bara að taka frá henni Náttúrugripasafnið, hið eina sem í er spunnið hér á landi, eitt af merkustu náttúrugripasöfnum á Norðurlöndum, heldur er hann líka að taka af henni valdið sem hún hefur hingað til haft til þess að vega það og meta hvort flytja eigi úr landi sjaldgæfa, fágæta náttúrugripi. Það er ekki einu sinni þannig, herra forseti, að nokkur maður úr ranni hæstv. umhvrh. hafi heimild til þess að hlutast til um það. Nei, það er ágætis fólk sem er menntað á sviði fornleifafræði og þjóðfræði, sagnfræði og myndlistar. Herra forseti, þetta er svo heimskulegt að ég hlýt að spyrja hæstv. umhvrh. hverju þetta sæti.