Þjóðminjalög

Fimmtudaginn 07. desember 2000, kl. 15:07:23 (2925)

2000-12-07 15:07:23# 126. lþ. 43.3 fundur 223. mál: #A þjóðminjalög# (heildarlög) frv., 224. mál: #A safnalög# (heildarlög) frv., 225. mál: #A húsafriðun# (heildarlög) frv., 226. mál: #A menningarverðmæti# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta svar hæstv. menntmrh. --- sem ég var reyndar ekki að spyrja heldur hæstv. umhvrh. --- sýnir í ákaflega skæru ljósi þau vinnubrögð sem hafa verið höfð uppi. Það er nefnilega ekki rétt hjá hæstv. menntmrh. að þetta séu einu breytingarnar. Það er þannig að í gildi eru lög, lög nr. 60 frá 1. júní árið 1992, þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Náttúrugripi má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni. Sama á við um örverur sem eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra.``

Þarna segir alveg fortakslaust, herra forseti, að náttúrugripi --- samkvæmt gildandi lögum --- megi ekki flytja úr landi nema hæstv. umhvrh. komi að því í gegnum stofnun sína.

Þegar búið er að taka Náttúrugripasafnið frá umhvrh., skilja það frá Náttúrufræðistofnun, hver er það þá, herra forseti? Það kemur fram í 2. gr. í frv. til laga um flutning menningarverðmæta. Þar segir að það þurfi formlegt leyfi þjóðminjavarðar, samanber lið 12, ef um er að ræða einhver dýrafræðileg, grasafræðileg, bergfræðileg eða líffræðileg söfn. Herra forseti. Hæstv. umhvrh. hlýtur að vera stoltur af starfi sínu þennan dag.