Tvöföldun Reykjanesbrautar

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 13:43:26 (3160)

2000-12-12 13:43:26# 126. lþ. 46.1 fundur 188#B tvöföldun Reykjanesbrautar# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Rétt er að minna á að tekin hefur verið ákvörðun um að tvöfalda Reykjanesbraut. Á vegum Vegagerðarinnar er nú unnið að undirbúningi þess mikilvæga verkefnis og rík áhersla lögð á að hraða þeirri vinnu. Vinnan gengur út á umhverfismat og annan undirbúning. Þegar sá undirbúningur er búinn, sem ég geri ráð fyrir að verði síðla næsta árs, verður fyrsti áfangi verksins boðinn út. Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja neitt ákveðið um niðurstöður af útboðum en vissulega er vilji minn til þess að skoða þegar búið er að bjóða út fyrsta áfanga verksins hvort hraða megi verkinu umfram það sem vegáætlun gerir ráð fyrir en ekkert er hægt að fullyrða um það á þessu stigi. Það verður að skoða þegar undirbúningi er lokið og við höfum fengið tilboð í fyrsta áfangann.

Auðvitað þurfum við að skoða á undirbúningstímanum hvort einhverjar leiðir séu færar en vegáætlun markar þessa línu og hún er mjög mikilvæg. Hún gerir ráð fyrir að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar á eins skömmum tíma og fært er með svo stórt og mikilvægt verkefni.