Fjárhagsvandi Vesturbyggðar

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:01:39 (3173)

2000-12-12 14:01:39# 126. lþ. 46.1 fundur 191#B fjárhagsvandi Vesturbyggðar# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hvað varðar tilvitnaða tillögu, sem kom inn í fjárlagafrv., þá kom hún ekki frá mér eða ráðuneyti mínu heldur kom hún frá fjárln. Það eina sem liggur fyrir í málinu er að sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa ákveðið að fallast á að gera Orkubú Vestfjarða að hlutafélagi. Síðan liggur ekki fyrir hvaða sveitarfélög muni óska eftir því að af þeim verði keypt. Ef áhugi kemur hjá sveitarfélögum á Vestfjörðum að leysa til sín hlut annarra sveitarfélaga tel ég sjálfsagt að líta á það ef þau eru tilbúin að greiða það sama verði og ríkið kynni að vera tilbúið að gera.

Það er því ástæða til að undirstrika að hugmyndin að þessum viðskiptum eða að nýta Orkubúið til að laga fjárhag sveitarfélaga á Vestfjörðum er komin frá sveitarfélögunum á Vestfjörðum sjálfum. Ekki er nein ásókn frá okkur í ráðuneytunum að kaupa þessa eign eða falast eftir henni. Hins vegar höfum við verið í viðræðum við sveitarfélögin um að kaupa eða gefið það til kynna að við værum tilbúin að kaupa ef þau kynnu að óska eftir því.