Staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 14:37:12 (3194)

2000-12-12 14:37:12# 126. lþ. 46.94 fundur 199#B staðan í viðræðum um sameiningu Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[14:37]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Það vekur athygli mína að hv. málshefjandi sem og aðrir fulltrúar stjórnarandstöðunnar víkja sér hjá því að nefna kjarna málsins. Staðreyndin er nefnilega sú að bankavextir á Íslandi eru óeðlilega háir. Ekki eru þeir aðeins þeir hæstu sem þekkjast á Norðurlöndum heldur með því hæsta sem þekkist innan ríkja OECD. Aðeins fjögur ríki innan OECD bera almennt hærri bankavexti en þekkist á Íslandi. Ég nefni Portúgal og Tyrkland sem dæmi um ríki sem verr eru sett hvað þetta varðar.

Hvaða áhrif skyldu hinir háu bankavextir svo hafa? Þeir skekkja m.a. samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og skapa þeim minna svigrúm til þess að sækja eðlilega fram. Þeir veita þeim minna svigrúm til þess að greiða hærri laun. Jafnframt, eins og hv. málshefjanda ætti að vera kunnugt, þá hafa þeir líka áhrif á daglegt líf almennings því að fátt kemur sér betur fyrir kjör almennings en lægri vextir.

Herra forseti. Bankakerfið á Íslandi er of dýrt. Það er kjarni málsins og þess vegna er það vilji ríkisstjórnarinnar að sameina þessa tvo ríkisbanka. Þetta er auðvitað viðkvæmt mál og vandmeðfarið. Að því þarf að vinna faglega og það hefur verið gert. Það er ekki óeðlilegt að vísa málinu til umsagnar hjá Samkeppnisstofnun til að athuga hvort samruninn standist samkeppnislög.

Þá hefur það og, herra forseti, komið fram að það er ágreiningur á milli bankaráða um eignaskiptingu í sameinuðum banka. Því veldur m.a. lakari afkoma Búnaðarbankans að því er virðist samkvæmt fréttum. Þess vegna er ekki óeðlilegt, herra forseti, að kalla fram afkomutölur þessara banka fyrir fyrstu 11 mánuðina til að koma málinu í faglegan farveg.

Það er, herra forseti, mikilvægt að horfa á þessi atriði, markmiðin með sameiningunni, vinna þetta faglega eins og gert hefur verið og umfram allt eyða óvissu.