Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 15:50:40 (3207)

2000-12-12 15:50:40# 126. lþ. 46.6 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Þetta mál er komið til 3. umr. og búið er að þrautræða að mínum dómi öll helstu efnisatriði þess. Sú brtt. sem hér var verið að útbýta kemur ekki á óvart í ljósi málflutnings hv. flutningsmanna í dag og við 2. umr. þessa máls.

Ég vil gjarnan að það komi fram vegna fyrirspurna frá þingmönnum til mín í dag að ég tel ekki að neitt í þessu frv. raski grundvelli kjarasamninga í landinu. Ég tel reyndar ekki að þetta mál í heild sinni geri það. Ég tel ekki, eins og ég hef margsagt í þessum sal, að hægt sé að gera ríkisstjórninni reikninginn fyrir því þegar sveitarfélögin í landinu ákveða að breyta útsvari sínu. Það var ekki gert þegar útsvarsbreyting varð hjá stærsta sveitarfélagi landsins í ársbyrjun 1999 og að mínum dómi er heldur ekki tilefni til þess nú. Ég tek því ekki undir þær ályktanir sem hér hefur verið lesið upp úr, þau sjónarmið sem hv. þingmenn hafa flutt þar sem tekið er undir slík sjónarmið, enda sjáum við að sjálfsögðu í hvert óefni er komið ef ríkið á á hverjum tíma að jafna út breytingar sem verða á gjaldtöku sveitarfélaganna.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lét þess getið áðan að fasteignamat væri að hækka á höfuðborgarsvæðinu um 14%. Það þýðir að eigendur fasteigna þurfa að borga hærri fasteignagjöld. Og það er ekki samkvæmt ákvörðun ríkisins. En það er væntanlega ákvörðun sveitarfélaganna að lækka ekki gjaldstofninn á móti sem þau hafa fullt vald til og vænti ég þess að það verði þá krafa stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar að sveitarfélögin nýti sér slíka möguleika til að koma í veg fyrir kjararýrnun hjá almenningi. Það verður að horfa á þessi mál í samhengi, hv. þingmenn.

Eins og ég sagði um daginn, jafnvel þó að öll sveitarfélög mundu hagnýta sér útsvarshækkunarmöguleika sína á næsta ári til fulls, þá er ég bara að tala um á næsta ári því ekki er hægt að spá fyrir um hvað gerist eftir það, þá sé ég ekki betur en að við séum að tala hér um breytingu á persónuafslætti, sem er þá jafnframt skattbreytingin, upp á 81 kr. á mánuði. Ef það er tilefni til þess að snúa við kjarasamningum þá má segja að þar hafi lítil þúfa velt þungu hlassi.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess, herra forseti, að endurtaka það sem ég hef sagt um þetta mál. Ég tel ekki að tilefni sé til að samþykkja þá brtt. sem fram er komin í þessu máli.