Matvæli

Þriðjudaginn 12. desember 2000, kl. 17:06:40 (3221)

2000-12-12 17:06:40# 126. lþ. 46.10 fundur 74. mál: #A matvæli# (eftirlit, gjaldskrá o.fl.) frv. 169/2000, Frsm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 126. lþ.

[17:06]

Frsm. umhvn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig er ég ekki ósammála hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og ég vil þakka henni ábendingarnar. Ég tek undir það að í þingnefndum megi skoða vel og jafnvel betur þann kostnað sem kemur til með að falla á fyrirtæki við breytingar á lögum. Ég tel að við mundum reyna að gera það í umhvn. þegar kemur til endurskoðunar á þessum lögum á næsta ári að ég geri ráð fyrir.

Það er náttúrlega kominn heilmikill eftirlitsiðnaður. Við vitum og sjáum alveg fyrir okkur að það er töluvert flókið að færa þetta undir kannski einn hatt því að við erum með margs konar lög um heilbrigðisfulltrúa, dýralækna, sóttvarnalög o.s.frv. og þetta heyrir undir marga mismunandi ráðherra. Auðvitað er best að einfalda þetta ef þess er nokkur kostur og sjálfsagt að skoða það í framhaldi af þessari umræðu og ég þakka hv. þm. fyrir hana.