Tryggingagjald

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 13:39:40 (3276)

2000-12-13 13:39:40# 126. lþ. 47.23 fundur 350. mál: #A tryggingagjald# (fæðingarorlof) frv. 156/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum er afleiðing af nýsettum lögum um fæðingarorlof sem er afskaplega mikill áfangi í átt til jafnréttis milli karla og kvenna. En ég vildi rétt aðeins koma inn á það að þessar undanþágur frá tryggingagjaldi eru ákveðinn stílbrjótur í þeirri hugsun að skattar séu altækir og skattstofninn sé klár. Í dag eru bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar tryggingagjaldi, sem er í raun bara bókhaldsatriði, því þetta fer út og inn úr ríkissjóði þar sem ríkissjóður stendur undir öllum bótum Tryggingastofnunar eða mestöllum. Sama er um að ræða hér að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður á fjárlögum og þetta mundi þýða út og inn. En ég vildi gjarnan beina því til hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta til skoðunar að hún kanni hvort ekki væri eðlilegra og rökréttara að hafa tryggingagjaldið án undanþágna þannig að þetta færi út og inn í þessum stofnunum, bæði Tryggingastofnun og Fæðingarorlofssjóði. Það sem mundi hugsanlega koma inn í það eru þá bætur sem lífeyrissjóðirnir greiða en þeir eru undanþegnir tryggingagjaldi í dag. Ég vildi beina því til hv. nefndar að hún skoði hvernig þetta komi út rökfræðilega.