Útskriftir fatlaðra af Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Kópavogi

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:15:29 (3298)

2000-12-13 15:15:29# 126. lþ. 48.2 fundur 289. mál: #A útskriftir fatlaðra af Landspítala - háskólasjúkrahúsi í Kópavogi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ekki veit ég hvaðan hv. fyrirspyrjanda kemur sú vitneskja að fullyrða að ég verði ekki félmrh. að fimm árum liðnum. Það getur vel verið að svo verði ekki, en það er ekkert útilokað, vil ég leyfa mér að fullyrða.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. er nú búin að greina frá því samkomulagi sem orðið er um það að í byrjun næsta árs tökum við í félmrn. við vistmönnum, þessum 18 eða 20 í blokkinni, og þeir öðlist þá réttindi samkvæmt lögunum um málefni fatlaðra. Framkvæmdanefndin sem bar á góma á fyrst og fremst að semja um peningahliðina á málinu. Ákvörðunin hefur verið tekin. Nefndin á fyrst og fremst að semja um það á hvern hátt fjármunir ganga á milli ráðuneytanna en félmrn. mun í byrjun næsta árs eða snemma á næsta ári taka að sér rekstur blokkarinnar og fela það svæðisskrifstofu Reykjaness að hafa umsjón með þeim rekstri. Fjárveiting færist þá væntanlega til svæðisskrifstofunnar frá heilbrrn. og andvirði blokkarinnar verður væntanlega notað til þess að kaupa eða byggja sambýli fyrir þá vistmenn sem þarna eru núna og ég er mjög bjartsýnn á að það takist að koma þeim fyrir innan tveggja ára.

Við höfum gert samkomulag við hússjóð Öryrkjabandalagsins og munum í næstu viku ganga frá fyrstu samningunum ef allt gengur eftir um byggingar og kaup Öryrkjabandalagsins og leigu okkar á þeim mannvirkjum til að setja þar upp sambýli. Ég vænti þess að þetta geti allt saman gengið eftir sem greiðlegast. Ég tel að hér sé verið að ná verulegum árangri í málefnum fatlaðra og er mjög ánægður yfir því.