Útflutningsskylda sauðfjárafurða

Miðvikudaginn 13. desember 2000, kl. 15:46:28 (3310)

2000-12-13 15:46:28# 126. lþ. 48.5 fundur 316. mál: #A útflutningsskylda sauðfjárafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Í búvörulögum eru nokkur býsna sérkennileg ákvæði sem stemma stigu við frelsi framleiðenda annars vegar og jafnvel söluaðila hins vegar. Merkilegust eru þó ákvæðin sem stemma stigu við frjálsræði framleiðendanna. Fyrirspurn sem ég ber fram á þskj. 380 til hæstv. landbrh. víkur að einu af þessum ákvæðum en ég vil gjarnan að haft sé í huga að ákvæðin eru fleiri. Ég hef áður sagt í þessum sal að þau koma mismunandi við framleiðendur og söluaðila. En fyrirspurnin er svohljóðandi:

,,1. Hver hefur verið útflutningsskylda sauðfjárafurða frá upphafi núgildandi búvörusamnings, sundurliðað eftir árum?

2. Hvaða áhrif hafa uppkaup ríkisins og breytt eftirspurn eða sala á innanlandsmarkaði haft á útflutningsskyldu milli ára?

3. Hafa útflutningsskyldar sauðfjárafurðir verið seldar á innanlandsmarkaði? Ef svo er, hve mikil hefur sú sala orðið, hvernig hefur sú breyting komið fram í ákvörðun um útflutningsskyldu næsta árs og hvernig hafa sauðfjárbændur fengið skil á verðmun?``