Hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 10:42:31 (3330)

2000-12-14 10:42:31# 126. lþ. 49.91 fundur 207#B hækkun afnotagjalda RÚV og forsendur fjárlaga# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[10:42]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hef áður lýst fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2001 sem hér hafa verið til umræðu undanfarnar vikur og mánuði sem spennandi reyfara þar sem ýmislegt væri gefið í skyn fremur en það stæði þar beinlínis.

Ýmislegt hefur síðan komið í ljós. Það er ekki nema vika síðan við samþykktum þessi fjárlög endanlega þegar í ljós kemur, sem ýmsum bauð í grun að þyrfti, að það þarf að hækka afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla því. Ég held að það sé nauðsynlegt og hafi legið fyrir lengi. Þess vegna verður að átelja það sleifarlag að ekki skyldi hægt að undirrita það plagg fyrr en viku eftir að fjárlög hafa endanlega verið samþykkt (Gripið fram í.) --- minna en viku. Ég held að það sé einstakt að hæstv. menntmrh. skuli ómerkja fjárlög íslenska ríkisins með því móti sem hér er gert. Hins vegar vil ég ítreka: Hækkuninni er ég ekki mótfallin. Ég held að hún sé nauðsynleg.