Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 14. desember 2000, kl. 14:27:22 (3390)

2000-12-14 14:27:22# 126. lþ. 49.14 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv. 175/2000, Frsm. 1. minni hluta SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Frsm. 1. minni hluta landbn. (Sigríður Jóhannesdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti ekki laust við það að hæstv. ráðherra, svo hugumstór og góður og gegn, væri að gera mér upp skoðanir í ræðustól og ég vildi mótmæla því. Hann var að tala um að ég vildi að einhverju leyti slaka á sóttvörnum. Það er aldeilis ekki. Ég hef alla tíð verið talsmaður ýtrustu sóttvarna í innflutningi. Það er ekki síst þess vegna sem ég tók upp málið hér og það sem hann talaði um að sé slúður, sem ég hafi farið með í ræðustól, er í umsögn Sambands dýraverndunarfélaga Íslands, sem ég las upp hér og er undirritað af þekktum lögmanni, Sigríði Ásgeirsdóttur, sem er formaður Sambands dýraverndunarfélaga Íslands. Það var ekki meira slúður frá mér en það.