Sameining Landsbanka og Búnaðarbanka

Föstudaginn 15. desember 2000, kl. 16:36:58 (3451)

2000-12-15 16:36:58# 126. lþ. 50.95 fundur 214#B sameining Landsbanka og Búnaðarbanka# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Málflutningur hv. stjórnarandstæðinga er alveg með ólíkindum. Hér er talað um ósigur ríkisstjórnar, klúður, þrýsting á samkeppnisráð, jafnvel talað um sigur Samfylkingarinnar í þessu máli o.s.frv. Merkimiðar á borð við þessa afhjúpa í rauninni þankagang og innræti og dæma sig sjálfir.

Hvað hefur gerst í þessu máli? Vegna meintrar fákeppni og tilhneigingar til fákeppni á peningamarkaði á Íslandi hafa komið fram óskir um að sameina ríkisbanka og undir það hafa í raun allir tekið þó að vísu sé erfitt að henda reiður á hver stefna stjórnarandstæðinga í þessu máli er á hverjum tíma. (Gripið fram í.) Hvernig hefur hæstv. viðskrh. brugðist við? Með því m.a. að koma hér á Alþingi og lýsa því yfir að málinu verði vísað til samkeppnisráðs og jafnframt að una úrskurði þess. Þetta er sami hæstv. viðskrh. og stuðlaði að því að í gegnum hv. Alþingi fóru nýlega lög til þess að styrkja Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð. Nú liggur úrskurður þess ráðs fyrir og sami hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að hún muni una þeim úrskurði eins og um var talað í upphafi.

Herra forseti. Þetta eru einmitt fagleg vinnubrögð og mun faglegri en þeir merkimiðar sem hv. stjórnarandstæðingar hafa notað í málatilbúnaði sínum. En eftir stendur eigi að síður að bankavextir hérlendis eru með því hæsta sem þekkist innan ríkja OECD og eftir stendur mikilvægi þess að finna leiðir til að draga úr þeim kostnaði þannig að vextir lækki til að auka samkeppni á þessum markaði fyrir almenning og neytendur.