Kjaradeila framhaldsskólakennara

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 13:45:43 (3490)

2000-12-16 13:45:43# 126. lþ. 52.95 fundur 225#B kjaradeila framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Verkfall framhaldsskólakennara hefur nú staðið á sjöttu viku. Alls er óvíst hvort samið verður fyrir jól og við gætum því miður jafnvel horft til þess að nýtt ár renni upp án þess að sátt náist í þessari erfiðu kjaradeilu sem nú þegar hefur raskað öllu námi framhaldsskólanema.

Framhaldsskólakennarar hafa í kröfum sínum litið til þeirra launa sem ríkið hefur samið um við Bandalag háskólamanna. Í þeim samanburði hallar verulega á framhaldsskólakennara sem dregist hafa aftur úr í launakjörum ríkisstarfsmanna með sambærilega menntun og ábyrgð í starfi. Í svona langvarandi deilu er hætt við að margir framhaldsskólakennarar hafi horfið til annarra starfa. Við hljótum að beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvort að hans mati sjái alls ekki til lands í lausn þessarar erfiðu deilu.

Ljóst er að samningar verða ávallt bil beggja að lokum. Hefur samninganefnd ríkisins lagt fram einhverjar tillögur nýlega til þess að koma hreyfingu á þetta erfiða mál?