Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:31:44 (3508)

2000-12-16 15:31:44# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er tekið til 2. umr., eftir umfjöllun efh.- og viðskn., frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Meginákvæði frumvarpsins snýr að því að fella úr gildi frestun á skattlagningu á söluhagnaði hjá einstaklingum og lækka skatthlutfallið á söluhagnaði yfir tiltekið hámark sem hefur verið í sama skatthlutfalli og tekjuskattur, niður í 10%. Það er ekki bara að stjórnarandstaðan hafi gagnrýnt hvernig að þessari breytingu er staðið heldur hefur einnig verið ágreiningur um málsmeðferðina að því er varðar lækkun á skatthlutfallinu á söluhagnaðinum milli stjórnarflokkanna.

Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort sá ágreiningur er leystur eða ekki vegna þess að ég sé ekki neina breytingartillögu frá meiri hlutanum sem komi til móts við það sjónarmið sem framsóknarmenn settu fram þegar þetta mál var lagt fram af hálfu hæstv. fjmrh. Formaður þingflokks framsóknarmanna gagnrýndi mjög, væntanlega fyrir hönd þingflokksins, að verið væri að lækka skatthlutfallið úr 38% í 10%. Við því er engu hreyft hér þegar málið kemur úr efh.- og viðskn. og það er raunverulega hert á vegna þess að gildistökuákvæðið, sem ég mun koma að síðar í mínu máli, á samkvæmt frv. að taka til söluhagnaðar sem hefur fallið til á þessu ári en upphafspunkturinn í því máli verður samkvæmt brtt. meiri hlutans frá 1. jan. á næsta ári. Hér er því um að ræða frestun um eitt ár miðað við það sem frv. gerir ráð fyrir með tilheyrandi tekjutapi fyrir ríkissjóð.

Það er sem sagt lagt til að skattlagning söluhagnaðar yfir tiltekin mörk, 3,2 millj. kr. hjá einstaklingum og 6,4 millj. kr. hjá hjónum, verði 10% skattur en ekki 38% skattur eins og áður. Áfram á að gilda heimild til frestunar á söluhagnaði hjá lögaðilum. Segja má að meginmunurinn á því frv. sem hæstv. fjmrh. stendur að og ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn, og því frv. sem flutt er af þingmönnum Samfylkingarinnar sé að við viljum að frestunarheimildin sem verið hefur á skattlagningu á söluhagnaði hjá lögaðilum verði einnig felld brott með sama hætti og gerast á hjá einstaklingum fyrir utan það að við viljum halda óbreyttu því skatthlutfalli sem verið hefur.

Ítrekað hefur komið fram hjá embætti ríkisskattstjóra að vegna þessarar heimildar í skattalögum sem lögfest var árið 1996 hafi einstaklingar nýtt sér að fresta um 20 milljörðum kr. á árunum 1998 og 1999. Hér er um mjög fámennan hóp að ræða eða 636 einstaklinga. Og það kemur fram hjá ríkisskattstjóra með ákveðnum fyrirvörum þó að ætla megi að ríki og sveitarfélög hafi tapað í skatttekjum allt að 8,5 milljörðum kr. á þessum tveimur árum vegna þessarar heimildar. Sá fyrirvari er þó gerður af hálfu embættisins að það verði að teljast nokkuð ólíklegt að sala hlutabréfa á þessum árum hefði orðið jafnmikil ef frestunarheimildin hefði ekki verið til staðar. Engu síður er ljóst að ríki og sveitarfélög hafa tapað verulegum skatttekjum vegna þessa lagaákvæðis. Ég held að það sé a.m.k. ekki minni fjárhæð en núna er verið að auka skattbyrðina um hjá einstaklingum.

Megingagnrýni okkar, herra forseti, er hvernig hér er staðið að málum, þ.e. að skilja eftir óbreytta heimild til frestunar fyrir lögaðila. Þó ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um það og ekki sé hægt að fá fram hjá ríkisskattstjóraembættinu eða öðrum aðilum neinar upplýsingar um hve háa fjárhæð er að ræða að því er varðar lögaðilana, þá tel ég að vafalaust sé ekki um minni fjárhæð að ræða sem frestað hefur verið að skattleggja hjá lögaðilum en einstaklingum.

Síðan gagnrýnum við það að ríkisstjórnin skuli lækka skatt á forríkum fjármagnseigendum, sem eru nú 636 að tölu eða voru á sl. tveim árum, úr 38% í 10% skatt á sama tíma og hún beitir sér fyrir almennri skattlagningu í landinu sem nemur um 2,5 milljörðum kr. og stefnir með því kjarasamningum í uppnám eins og við höfum margoft farið yfir. Í þriðja lagi hefur svo stjórnarmeirihlutinn við meðferð málsins í nefnd lagt til að fresta gildistöku ákvæðisins um að afnema frestun á skattlagningu hjá einstaklingum um eitt ár.

Skattrannsóknarstjóri segir í umsögn sinni að mismunandi skattlagning eftir uppruna tekna bjóði upp á ýmiss konar undanskot. Það er ástæða, herra forseti, að vitna til umsagnar skattrannsóknarstjóra, en hann segir:

,,Frá árinu 1996 hefur t.d. greinilega orðið vart við aukningu á fjölda einkahlutafélaga og um leið hefur einstaklingum sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur í skattalegum skilningi fækkað. Augljósir hagsmunir eru af því að láta atvinnureksturinn vera skattlagðan í skattprósentu hlutafélaga og leitast er við að ná sem mestum fjármunum út úr félaginu í formi arðs sem skattlagður er í 10% skattþrepi. Þá eru það einnig ríkir hagsmunir að skattlagningin fari fram í 10% en ekki hinni reglulegu skattprósentu einstaklinga og af þeim sökum er greinileg tilhneiging að haga löglegum ráðstöfunum þannig að til skattlagningar í 10% skatti komi. Ekki er ósennilegt að ríkissjóður hafi orðið af einhverjum tekjum vegna þessa.``

Herra forseti. Ég held að eitthvað sé nú til í þessum orðum skattrannsóknarstjóra. Fjölgað hefur verulega í hópi þeirra sem hafa stofnað til einkahlutafélags. Ekki er ég að segja að það sé gagngert í þessum tilgangi en þeim hefur fjölgað mjög mikið eða um 4.900, ef ég man rétt, frá 1996 að telja.

Við í minni hlutanum gagnrýnum mjög þessa frestun á gildistökuákvæðinu sem meiri hlutinn leggur fram brtt. um og sem við teljum að enn mun gefa sterkum fjármagnseigendum svigrúm til að sniðganga skatt vegna þessarar heimildar. Um nauðsyn þess að ákvæðið taki til sölu hlutabréfa á árinu 2000 hefur ríkisskattstjóri sett fram ákveðna skoðun. Þar kemur fram að samkvæmt frv. sé gert ráð fyrir að breyting gagnvart frestun á söluhagnaði komi til framkvæmda vegna sölu á hlutabréfum á árinu 2000. Ríkisskattstjóri segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Telur ríkisskattstjóri mikilvægt að svo verði, m.a. til að komist verði hjá ráðstöfunum sem ella er líklegt að gripið verði til í þeim tilgangi einum að nýta frestunarheimildina á meðan hún er til staðar. Afnám heimildar til ívilnunar gagnvart áhrifum skattskyldu sem þegar var fyrir hendi við sölu hluta bréfanna verður vart talin afturvirk skattlagning. Í þessu efni er einnig til þess að líta hversu takmarkað almennt gildi ívilnunarinnar er, þ.e. til hve fámenns og afmarkaðs hóps hún getur raunverulega tekið, sbr. framangreint.``

Ljóst er að ríkisskattstjóraembættið tekur ekki undir með meiri hlutanum um að fresta gildistöku á því að afnema þessa heimild til frestunar á skattlagningu á söluhagnaði og er það mjög athyglisvert. Minni hlutinn tekur hins vegar undir með ríkisskattstjóra um nauðsyn þess að gildistakan verði með þeim hætti að hún nái til söluhagnaðar vegna hlutabréfa á árinu 2000. Jafnframt mótmælum við því í minni hlutanum að hér sé um afturvirkt ákvæði að ræða eins og meiri hlutinn heldur fram. Miklu nær væri að líta svo á að þetta ákvæði hafi verið brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem ívilnunin nær til mjög fámenns hóps í þjóðfélaginu sem fær sérstaka meðferð í skattkerfinu sem fært hefur þessum hópi milljarða í skattfríar tekjur. Meiri hlutinn vill greinilega viðhalda þessu ákvæði sem lengst og leggur til að þetta verði fært fram og nái til ársins 2000 líka þannig að ákvæðið taki ekki gildi fyrr en á árinu 2001.

Við í minni hlutanum mótmælum því að ekki sé afnumin frestun á heimild til skattlagningar hjá lögaðilum og þeim heimiluð áfram þessi ívilnun. Auk þess er opnað fyrir það að þeir sem áður nýttu sér heimild til frestunar sem einstaklingar geti nú stofnað einkahlutafélag eða eignarhaldsfélag m.a. til að nýta heimildina sem áfram verður til staðar fyrir lögaðila. Meiri hlutinn ber því fulla ábyrgð á því að verið er að viðhalda áfram þessari skattasmugu sem er ósanngjörn með tilliti til jafnræðis sem á að ríkja í öflun tekna óháð uppruna þeirra, auk þess sem ríkissjóður verður af verulegum tekjum vegna þessa.

Minni hlutinn mun flytja breytingartillögu um að afnema þessa heimild hjá lögaðilum sem er í samræmi við frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar sem hefur einnig verið til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Jafnframt leggst minni hlutinn gegn því að lækka skattprósentuna á söluhagnað eins og meiri hlutinn leggur til og mun það koma fram í atkvæðagreiðslu um málið.

Minni hlutinn styður að sjálfsögðu afnám á heimild til skattlagningar á söluhagnaði einstaklinga en leggst raunverulega gegn báðum gildistökuákvæðunum sem eru sett fram í frv., með þeim rökum sem embætti ríkisskattstjóra hefur fært fram.

Herra forseti. Bæði er um að ræða söluhagnað sem aðilar hafa á umliðnum árum frestað og ekki er enn kominn til skattlagningar, að það færist í 10% skatt, sem er ívilnun út af fyrir sig og geta þeir auðvitað fagnað sem hafa nýtt sér þessa heimild um að fresta skattlagningunni vegna þess að nú býður ríkisstjórnin þeim að borga bara 10% skatt af þeim hagnaði sem þeir hafa frestað. Síðan á þessi frestun fyrir einstaklinga að gilda líka fyrir söluhagnað vegna hlutabréfa á þessu ári sem ríkisskattstjóri hefur fært rök fyrir að ekki sé skynsamlegt.

[15:45]

Herra forseti. Önnur atriði eru flest hver minni háttar, svo sem skýrari ákvæði um framkvæmd á kaupréttarákvæðum og kæruleiðir í skattkerfinu, sem og breyting á ákvörðun um hvenær álagning gjalda skuli fara fram og hvernig skilafrestir eru ákveðnir. Helstu breytingar á skattalögunum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru nokkrar sem við getum um hér í nál. og við gerum athugasemdir við örfáar þeirra:

Kveðið er skýrar á um kæruleiðir vegna ágreinings um fyrir fram greiddar barnabætur og vaxtabætur. Þessi breyting kemur fram í 11. gr. frumvarpsins en minni hlutinn styður ekki a-lið um 15% álag á mismun fyrir fram greiddra barnabóta og endanlegra barnabóta, reynist þær aðrar. Við tökum þar með undir sjónarmið sem fram kemur hjá skattanefnd Félags löggiltra endurskoðenda en þeir gerðu athugasemdir við það og segja orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ástæðan fyrir þessari skoðun okkar er að reglur um barnabætur eru flóknar og fólk á erfitt með að skilja þær. Af því leiðir að það hefur ekki forsendur til að andmæla ákvörðun skattstjóra um fyrirframgreiðslur þeirra.``

Við teljum alveg ástæðu til að taka undir það og styðjum það að þetta 15% álag verði ekki samþykkt. Síðan segir í nál. minni hlutans:

,,Sveigjanleiki vegna álagningar er aukinn í kjölfar aukinna skila á rafrænu formi. Heimilt verður skattstjóra að eigin frumkvæði eða að beiðni skattaðila að endurupptaka skattframtöl allt að sex ár aftur í tímann þegar skattaframkvæmd hefur verið breytt með dómi hjá yfirskattanefnd eða dómstólum. Vegna ákvæða í 15. gr. frv. leggur minni hlutinn áherslu á þær athugasemdir að þar sem heimilað verði að ,,leiðrétta`` álagningu opinberra gjalda allt að sex árum aftur í tímann með hliðsjón af niðurstöðum dómstóla um álitaefni varðandi framkvæmd laganna megi slík ,,leiðrétting`` aðeins vera gjaldandanum í hag. Útilokað er að hægt verði að nýta þetta lagaákvæði til hækkunar á sköttum í þjóðfélaginu mörg ár aftur í tímann vegna niðurstöðu dómstóla um álitaefni.``

Í þessu efni tökum við undir álit Lögmannafélags Íslands og vera má að hugsunin hafi verið með þessu ákvæði í frv. að það ætti aðeins að gilda þegar um væri að ræða ívilnandi niðurstöðu en ekki þegar um íþyngjandi niðurstöðu væri að ræða og það má vel vera að hæstv. ráðherra hafi hugsað sér þetta ákvæði í framkvæmd með þeim hætti en a.m.k. vildum við láta þessa áherslu okkar koma fram í nál.

Skattleysismörk barna og sjómannaafsláttur eiga að hækka í takt við hækkun á persónuafslætti í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga í vor. Í því sambandi minnum við í minni hlutanum á að raungildi skattleysismarka hefur raskast vegna áforma ríkisstjórnarinnar um almenna skattahækkun. Tillögur minni hlutans um að hækka skattleysismörkin voru felldar, en við viljum halda því til haga þegar verið er að breyta ákvæðum í skattleysismörkum í takt við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við gerð kjarasamninga að því er þessa tvo þætti varðar, þ.e. skattleysismörk barna og sjómannaafslátt.

Áætlað kaupverð hlutabréfa sem skráð eru í kauphöll miðist við meðalverð undangenginna tíu skráningardaga en ekki gangverð á kaupdegi til að milda hugsanlegar sveiflur á markaðsverði bréfanna. Það er eitt ákvæðið í þessu sem ég held að ekki séu efni til að gera neinar athugasemdir við.

Síðan eru tekin af öll tvímæli um það fyrir hve háa upphæð má gera kaupréttarsamninga árlega. Upphæðin sem gera má slíka samninga fyrir er 600 þús. kr. og verður ekki hægt að safna upp slíkum heimildum milli ára verði frv. að lögum. Þær tekjur eru skattlagðar með 10% fjármagnstekjuskatti og hafa ASÍ og BSRB m.a. gagnrýnt að tekjurnar séu ekki skattlagðar eins og aðrar launatekjur með 38,37% skatti. Ég held því að það sé mjög til bóta, eins og kemur fram í frv. hæstv. ráðherra, að tekin séu af öll tvímæli um framkvæmd á þessu ákvæði sem ég tel rétt og eðlilegt.

Loks var við meðferð málsins lögð fram af hálfu meiri hlutans tillaga um að framlengja svokallaðan hátekjuskatt. Ég held að ástæða sé til þess að gagnrýna þau vinnubrögð að sú breyting hafi ekki verið í frv. þegar það var lagt fram í þinginu því það var auðvitað vitað að framlengja þurfti þetta nema ríkisstjórnin hafi hugsað sér einhverja kerfisbreytingu á því sem ekki var.

Ástæða hefði verið til að skoða þessar tillögur nánar og meta tekjutengingaráhrif þeirra á einstaka hópa vegna þess að mjög mikil tekjutenging er í þessum 7% skatti og upplýsingarnar sem fram komu við meðferð málsins frá ráðuneyti hæstv. fjmrh. sýna að mikil breyting hefur orðið á hve fjölgað hefur í hópi þeirra sem greiða hátekjuskatt. Mig minnir að það séu núna um 12 þúsund einstaklingar sem greiði þennan skatt og hefur upphæðin sem skilað hefur sér í ríkissjóð hækkað mjög, var 554 millj. vegna þessa hátekjuskatts 1997, 941 millj. 1998, 1.200 millj. á árinu 1999, 1.670 millj. annaðhvort á þessu eða næsta ári, ég man ekki hvort árið það er. Við erum því að sjá þreföldun á innkomu í ríkissjóð á þessum skatti á þremur til fjórum árum. Þetta skiptist þannig að einstaklingar greiða, ef við tökum árið 1999 400 millj. en hjón og sambýlisfólk 751 millj. Þegar maður skoðar hvað þetta er viðkvæmt fyrir tekjutengingu þá kemur í ljós þegar ráðuneytið er spurt hvað ef þessi tekjumörk til einstaklinga yrðu á bilinu 3 til 4 millj., að hátekjuskatturinn kæmi ekki fyrr en við um 4 millj. en hann kemur núna á við 3,3 millj., og fyrir hjón með um 7--8 millj., þá þýðir það að hverjar 100 þús. kr. sem tekjumörkin yrðu hækkuð fyrir einstakling og tvöfalt fyrir hjón mundu lækka tekjur ríkissjóðs um 100 millj. að jafnaði sem þýðir að ef farið yrði með einstaklingana upp í 4 millj. þýddi það tekjutap fyrir ríkissjóð upp á 700 millj. kr. En það er ljóst að þetta mark er fremur lágt hjá einstaklingum, 3,3 millj. kr., og ég hygg að það sé mjög margt meðaltekjufólk, fólk sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og vinnur mikið, sem lendir einmitt í þessum skatti. Það hefði því verið ástæða til að okkar mati að leggja aðeins vinnu í það í nefndinni að skoða áhrifin af þessum skatti og tekjutengingaráhrifin af honum á einstaka hópa.

Herra forseti. Út af fyrir sig væri hægt að segja ýmislegt fleira um þetta mál en ég held ég láti hér staðar numið og hef lýst þeirri brtt. sem við flytjum og andstöðu okkar við einstök ákvæði í frv.