Tekjuskattur og eignarskattur

Laugardaginn 16. desember 2000, kl. 15:56:28 (3510)

2000-12-16 15:56:28# 126. lþ. 52.7 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv. 149/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að hv. þm. tók eftir ummælum skattrannsóknarstjóra. Þau eru eins og töluð út úr mínu hjarta. Þetta er maður sem á að hafa vit á málum. Hann segir að það séu augljósir hagsmunir af því að láta atvinnureksturinn vera skattlagðan í skattprósentu hlutafélags og leitast er við að ná sem mestum fjármunum út úr félögum í formi arðs sem skattlagður er í 10% skattþrepi.

Í svar við fyrirspurn sem ég var að fá frá hæstv. fjmrh. kemur fram að arðgreiðslur eigenda einkahlutafélaga hafa aukist um 53% milli ára, áranna 1998 og 1999, úr 800 millj. í 1,3 milljarða, og þannig má áætla að hlutur arðgreiðslunnar sem aðeins er greiddur af 10% skattur sé vaxandi hlutur í heildarlaunagreiðslum eigenda einkahlutafélaga. Hjá um 100 eigendum voru arðgreiðslur nálægt þrisvar sinnum hærri en launagreiðslur þeirra. Hæsta arðgreiðslan til eins aðila sem jafnframt fékk laun greidd frá sama félagi var 73 millj. Meðalarðgreiðslur til þeirra 13 aðila sem mest fengu á sl. ári í arð frá sínu einkahlutafélagi voru 35 millj. kr. til hvers þeirra en þeir þáðu að meðaltali tæpar 4 millj. í launagreiðslur.

Þetta má lesa út úr svari fjmrh. og ég held að þessar tölur tali bara fyrir sig.