Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 15  —  15. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 49/1999, um Orkusjóð.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson.



    Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að veita hitaveitum styrk til stækkunar á dreifikerfi í þeim tilfellum þegar notendur eru of fáir til þess að bera stofnkostnað, enda megi ætla að slík framkvæmd styrki atvinnulíf, þjónustu við ferðamenn og uppbyggingu sumarbústaðalanda til lengri tíma litið.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Frumvarpið miðar að því að Orkusjóði verði gert kleift að styrkja hitaveitur til þess að stækka dreifikerfi sín. Víða um landið háttar þannig til að hitaveitur geta með tiltölulega litlum tilkostnaði stækkað dreifikerfi sín en í mörgum tilfellum eru notendur of fáir til þess að bera stofnkostnað við veitu. Með því að gera Orkusjóði kleift að veita framlög til stofnkostnaðar má ætla að víða um land skapist möguleikar á uppbyggingu í atvinnulífi, svo sem þjónustu við ferðamenn og uppbyggingu sumarbústaðalanda.