Ferill 92. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 92  —  92. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samkeppnishæfa menntun og nýja stefnu í kjaramálum kennara.

Flm.: Ágúst Einarsson, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,
Sighvatur Björgvinsson, Einar Már Sigurðarson, Svanfríður Jónasdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að kjósa nefnd til að vinna að tillögum um menntamál og efla þannig menntun og skólastarf hérlendis til að standast alþjóðlegan samanburð með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:
     a.      auka fjármagn til menntamála til samræmis við nágrannalöndin, einkum norrænu löndin,
     b.      fjölga þeim sem ljúka framhaldsskólaprófi,
     c.      lækka útskriftaraldur úr framhaldsskólum um eitt til tvö ár,
     d.      gera fjölþjóðlegan samanburð á kjörum og vinnutíma kennara,
     e.      bæta kjör kennara samhliða bættu skólakerfi á alþjóðlegum mælikvarða,
     f.      verja álíka fjármagni til háskólastigsins og nágrannalöndin,
     g.      tengja öll heimili og skólastofur netinu og efla rafræn bókasöfn.
    Í nefndinni sitji fulltrúar stjórnmálaflokka og helstu samtaka á sviði skólamála, svo sem frá félögum kennara, nemenda og skólastjórnenda, fulltrúar einstakra skólastiga, helstu skóla, sveitarfélaga, bókasafna og samtaka foreldra, svo og fulltrúar samtaka á vinnumarkaði.
    Í tillögum nefndarinnar komi fram hvort og hversu mikið auka eigi fjárframlög til menntamála á næstu árum til að aðrar tillögur nefndarinnar nái fram að ganga.

Greinargerð.


1.     Inngangur.
    Flutningsmenn telja eitt brýnasta verkefni samtímans í íslenskum þjóðmálum að hefja stórsókn í menntamálum. Sú leið sem er farin með þessari þingsályktun er að Alþingi skipi nefnd sem vinni að tillögum í menntamálum sem hafa það að markmiði að bæta stöðu okkar í alþjóðlegum samanburði. Eins og sýnt er síðar fram á í greinargerðinni vantar mikið á í mörgum atriðum að við séum með sambærilega stöðu og aðrar þjóðir.
    Flutningsmenn telja það skynsamlega aðferðafræði að setja sem viðmið í menntamálum það sem best gerist erlendis og því er tillögunni ætlað að taka fyrst og fremst mið af samanburði við útlönd. Nefndina munu skipa fulltrúar stjórnmálaflokka og frá samtökum og stofnum sem þekkja vel til menntamála og þannig er leitað eftir þjóðarátaki á þessu sviði. Flutningsmenn telja að ná eigi þjóðarsátt um að efla menntakerfið og gera það samkeppnishæft við nágrannalöndin.
    Flutningsmenn sem eru allir í þingflokki Samfylkingarinnar byggja á stefnumótun Samfylkingarinnar frá stofnfundi hennar síðastliðið vor. Jafnaðarmenn telja að í menntun og menningu felist uppspretta framfara í efnahags-, atvinnu- og velferðarmálum á nýrri öld. Uppbygging þekkingarumhverfis er forsenda þess að Ísland skapi ungu fólki vænleg lífsskilyrði. Samfylkingin vill því stórauka fjárfestingu í menntun til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar á alþjóðamarkaði og bæta lífskjör og mannlíf á Íslandi. Hún vill hindra að stéttaskipting verði milli þeirra sem fá tækifæri til að afla sér menntunar og hinna sem ekki fá slíkt tækifæri. Þess vegna leggur Samfylkingin höfuðáherslu á að tryggja aðgang allra að þeirri þekkingu sem nú byltir fyrri atvinnuháttum. Flutningsmenn leggja áherslu á að bæta menntakerfið í þeim skilningi að byggt sé á því sem fyrir er og stofnanir og innviðir styrktir verulega frá því sem nú er.
    Samfylkingin vill aukið frumkvæði og sköpunargleði inn í skólana í stað miðstýringar, stöðlunar og samkeppnisnáms að hætti núverandi stjórnvalda. Það eru sameiginlegir hagsmunir hins opinbera, samtaka launafólks og atvinnufyrirtækja að veita fólki möguleika á símenntun og starfsmenntun. Flutningsmenn telja að efling starfsmenntunar í atvínnulífinu stuðli að bættum hag starfsfólks og fyrirtækja og sé ein meginleið þeirra sem ekki finna að öðru leyti úrlausn í almennu skólakerfi. Fólk í atvinnulifinu verður að eiga kost á símenntun, ekki hvað síst ófaglært starfsfólk, enda verður menntakerfið að ná til allra.
    Samfylkingin leggur mikla áherslu á menntun kennara því hún er lykill að breyttu menntakerfi, ekki hvað síst á sviði fjarkennslu. Samfylkingin vill treysta innviði upplýsingasamfélagsins. Flutningsnetin eru mikilvægir innviðir upplýsingasamfélagsins sem tryggja verður að þjóni almannahagsmunum; einstaklingum, menntastofnunum og atvinnulífinu til frambúðar.
    Menntamál eru hið nýja almannatryggingakerfi jafnaðarmanna. Í tillögugreininni er vakin athygli á fjölmörgum þáttum sem flutningsmenn telja að eigi að verða hluti af tillögum nefndarinnar.

2. Gagnaöflun nefndarinnar.
    Starf nefndarinnar krefst margvíslegrar gagnaöflunar og er bent á að byggja á svörum við eftirfarandi spurningum við mótun tillagnanna:
     1.      Hverjar eru ástæður þess að Íslendingar verja mun minna fjármagni til menntamála en margar nágrannaþjóðir og langtum minna en aðrar Norðurlandaþjóðir?
     2.      Hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar til að hækka hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi?
     3.      Hver er kostnaður á hvern nemanda á einstökum skólastigum í samanburði við önnur lönd?
     4.      Hverjar eru ástæður þess að meðalaldur nemenda sem ljúka framhaldsskólaprófi innan ríkja OECD er langhæstur á Íslandi og hvaða aðgerðir þarf til að nemendur ljúki framhaldsskólaprófi einu til tveimur árum fyrr en nú er?
     5.      Hverjar eru helstu leiðir til að efla háskólamenntun hérlendis?
     6.      Hvernig er hægt að auka hlut rannsókna og þróunar í íslensku hagkerfi?
     7.      Hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til að íslensk stjórnvöld vinni og skili sambærilegum gögnum til erlendra hagstofnana í sama mæli og aðrar þjóðir?
     8.      Hvernig er vinnutími og launakjör kennara á einstökum skólastigum í samanburði við erlenda starfsbræður og -systur og hversu algengt er að kennarar hérlendis stundi störf samhliða kennslu í samanburði við önnur lönd?
     9.      Hvernig er hægt að bæta kunnáttu íslenskra nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi þannig að þeir komi betur út í alþjóðlegum námssamanburði?
     10.      Hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til að gera Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni kleift að komast í hóp vel útbúinna bóksafna og vera í fremstu röð á sviði rafrænna bóka og tímarita?
     11.      Hvernig er hægt að stuðla að því að innan fárra ára verði allar skólastofur á Íslandi og öll heimili komin með nettengingu?
     12.      Hvernig er háttað umfangi kennslugagna á móðurmálinu á einstökum skólastigum í samanburði við önnur lönd og hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til auka námsefni á íslensku í skólakerfinu?

3.     Framlög Íslands til menntamála miðað við önnur lönd.
    Alþjóðlegur samanburður er sífellt að verða betri og meira lagt upp úr honum í þjóðmálaumræðu erlendis. Það er einkennandi hvað hér er skilað litlu af upplýsingum til alþjóðlegra stofnana eins og Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) en menntamálaráðuneyti, Hagstofa og Þjóðhagsstofnun eru þeir opinberu aðilar sem eru ábyrgir fyrir slíkri gagnasöfnun. Eitt af þeim atriðum sem nefndinni er ætlað að kanna er hvaða ástæður eru fyrir því að svo slælega sé að verki staðið og á hvaða hátt úrbætur verði gerðar.
    Helsti mælikvarði í alþjóðlegum samanburði á stöðu menntamála er hve miklum fjármunum er varið til þeirra sem hlutfall af landsframleiðslu. Landsframleiðslan hérlendis á þessu ári er áætluð um 680 milljarðar. Eitt prósentustig er því 6,8 milljarðar. Í samræmi við alþjóðlega staðla og vinnubrögð eru allar fjárhæðir sem eru sýndar eða vísað er til í samanburði í þessari þingsályktun í Bandaríkjadölum og á mælikvarða kaupmáttarvirðis (PPP) þannig að um sambærilega hluti er að ræða.
    Mynd 1 sýnir opinber útgjöld ríkja OECD til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu fyrir árið 1997. Upplýsingar þessar eru fengnar úr riti OECD, Education at a Glance – Indicators 2000, en OECD gaf það út á þessu ári. Þessar tölur eru því þær nýjustu í alþjóðlegum samanburði. Fleiri upplýsingar úr þessu riti, sem er það helsta í heiminum á þessu sviði, eru í þessari greinargerð.
    Eins og sést á myndinni vörðum við 5,1% af landsframleiðslunni til menntamála á viðmiðunarárinu. Við erum í 13. sæti af 28 ríkjum. Meðaltalið er 5,1% en aðrar Norðurlandaþjóðir eru langt fyrir ofan og þau raða sér í efstu sætin. Svíþjóð ver 6,8% af landsframleiðslunni til menntamála, Noregur 6,6%, Danmörk 6,5% og Finnland 6,3%.
    Það eru umtalsverðar fjárhæðir sem þarf til ef við viljum bæta okkur í þessum málum og eitt helsta viðfangsefni nefndarinnar verður að gera tillögur um hvernig það verði gert.

4.     Fjöldi þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi hérlendis.
    Eitt helsta vandamálið í íslensku menntakerfi er hve fáir hafa lokið framhaldsskólaprófi í samanburði við önnur lönd. Framhaldsskólastigið hefur lengi verið hornreka í íslensku skólakerfi. Það markast einkum annars vegar af lítilli áherslu á margvíslegt verknám, en slíkt skólastarf er dýrara en bóknámsbrautir, og hins vegar er fall og brotthvarf nemenda í framhaldsskólum mjög mikið.
    Í meira en áratug hefur það legið ljóst fyrir að allt að þriðjungur þeirra sem hefja nám í framhaldsskóla hverfur frá því án formlegra námsloka, en aðgerðir til að bæta úr þessu hafa verið fálmkenndar og borið afar lítinn árangur. Samtenging starfsmenntunar í atvinnulífi og skólakerfis er mikilvægasta leiðin til að gera þessum hópi kleift að ljúka prófi. Hún getur enn fremur náð til margra úr eldri kynslóð því reynslan sýnir að það skortir ekkert á vilja fullorðinna Íslendinga til að afla sér menntunar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 2 sýnir hlutfall af íbúum þjóða innan OECD á aldrinum 25 til 64 ára sem hafa lokið framhaldsskólaprófi.
    Eins og sést á mynd 2 hafa einungis 55% landsmanna í þessum aldursflokki lokið framhaldsskólaprófi og erum við í 21. sæti af 29 þjóðum OECD. Meðaltal allra þjóðanna er 61% og erum við langt fyrir neðan það. Meðaltalið fyrir aðrar Norðurlandaþjóðir er 76%. Þarna höfum við dregist verulega aftur úr og mun það hafa veruleg áhrif á lífskjör okkar í framtíðinni og rýra samkeppnisstöðu okkar í samfélagi þjóðanna ef þessu er ekki snúið við. Það liggur fyrir að verulegt vinnuafl vantar á næstu árum og áratugum og besta leiðin til að mæta þeirri þörf er með bættri menntun sem eykur framleiðni í hagkerfinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Sýnt hefur verið fram á að beint samband er milli hagvaxtar og fjölda þeirra sem sækja framhaldsskóla í einstökum löndum. Við getum því auðveldlega aukið hagvöxt og bætt lífskjör ef fleiri stunda námi í framhaldsskólum og ljúka því. Brýnt er að auka náms- og starfsfræðslu innan og utan skólakerfisins og vera með öfluga ráðgjöf handa öllum ungmennum til 18 ára aldurs. Flutningsmenn leggja því til að í tillögum nefndarinnar verði sérstaklega mótuð stefna í því hvernig auka á hækka hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi.

5.     Ný stefna í kjaramálum kennara.
    Flutningsmenn leggja til að aflað verði gagna um kostnað á hvern nemanda á einstökum skólastigum. Slíkri tölfræði er safnað af OECD en Ísland skilar ekki inn gögnum fyrir þennan þátt nema fyrir leikskólastigið. Útgjöld á hvern nemanda á leikskólastiginu er álíka og meðaltal OECD-ríkja. Reyndar er til eldri alþjóðlegur samanburður um kostnað á nemanda á grunnskólastiginu og þá vorum við mjög neðarlega eða í 16. sæti af 24 þjóðum.
    Eitt af því sem vekur sérstaka athygli í alþjóðlegum samanburði er hversu seint íslenskir nemendur ljúka framhaldsskólaprófi. Mynd 3 sýnir slíkan samanburð.
    Mynd 3 ætti að vekja okkur til umhugsunar. Þar erum við á toppnum en mjög vafasamt er að það sé okkur til framdráttar. Meðalaldur hér er 20 ár við lok framhaldsskóla en meðaltalið innan OECD er 18 ár. Þótt ekki sé rétt að alhæfa um kosti lágs útskriftaraldurs, enda oft um erfiðan samanburð að ræða og mismunandi skóla, bendir margt til þess að skynsamlegt sé að lækka útskriftaraldur úr framhaldsskóla til samræmis við það sem er algengt erlendis. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að lækka hann í 19 ár eða 18 ár. Það krefst uppstokkunar í framhaldsskólum og grunnskólum en slík uppstokkun er einmitt nauðsynleg að mati flutningsmanna.
    Uppstokkunin tengist einnig starfi og starfskjörum kennara og er mikilvægur liður í því að meta kennarastarfið betur til launa en nú er gert og tengist breytingum á námskrám og menntun kennara. Þannig sýndi könnun Félags grunnskólakennara á þessu ári að tæpur fjórðungur kennara í grunnskólum er í annarri launaðri vinnu á veturna samhliða skólastarfinu.
    Lækkun útskriftaraldurs úr framhaldsskólum sem snertir skipulag á grunnskóla- og framhaldsskólastiginu hefur í för með sér umtalsverðan sparnað sem m.a. er hægt að nýta til að bæta skólastarf og starfskjör kennarastéttarinnar.
    Ef launakjör kennara eru borin saman á alþjóðlegum vettvangi kemur í ljós að Íslendingar hafa ekki skilað inn gögnum í alþjóðlegan samanburð. Flutningsmenn hafa þó skoðað laun íslenskra grunnskólakennara í alþjóðlegu samhengi. Miðað við að heildarlaun grunnskólakennara eftir 15 ára starf séu 180.000 og þau borin saman við laun kennara annars staðar á PPP-mælikvarða kemur í ljós að íslenski kennarinn er í 14. sæti af 26. Lagt er til í tillögugreininni að ítarlegur samanburður verði gerður á launakjörum og vinnutíma kennara hérlendis og erlendis.
    Á næstunni fara fram kjaraviðræður opinberra aðila við samtök kennara. Flutningsmenn leggja til að í þeim viðræðum verði m.a. höfð til hliðsjónar sú stefnumótun sem kemur fram í þessari tillögu, þ.e. efla íslenska menntakerfið í samanburði við önnur lönd. Slík aðferðafræði felur m.a. í sér uppstokkun á náms- og kennslutíma og skipulagi skóla og hefur í för með sér bætt skólastarf sem samhliða ætti að launa á svipaðan hátt og er algengast í nágrannalöndunum. Ef skólakerfi okkar á að standast samanburð á alþjóðavísu verða starfsskilyrði kennara einnig að standast slíkar kröfu.
    Með þessum hætti er brotið blað í kjarabaráttu hérlendis þar sem í fyrsta lagi er gert átak til að bæta þá mikilvægu opinberu þjónustu sem skólstarfið er, í öðru lagi er sú endurbót tengd góðum árangri á heimsmælikvarða og í þriðja lagi taki launakjör starfsmanna mið af slíku. Jafnaðarmenn telja þetta farsæla leið til eflingar skólastarfs sem stuðli að bættum kjörum með endurskipulagningu og er í fullu samræmi við markmið jafnaðarmanna um stöðugleika í efnahagslífinu og ábyrga hagstjórn.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



6.     TIMSS-rannsóknin.
    Ýmis samanburður hefur verið gerður á undanförnum árum á námsgetu nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Árið 1995 var birt niðurstaða úr alþjóðlegum samanburði í náttúrufræði og stærðfræði, svokölluð TIMSS-rannsókn. Íslenskir nemendur komu ekki vel út úr þeim samanburði en mynd 4 sýnir niðurstöðuna fyrir 8. bekk í náttúrufræði og stærðfræði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í TIMSS-rannsókninni, sbr. mynd 4, lentum við í 26. sæti af 29 og erum töluvert fyrir neðan meðaltal. Meðaltal þjóðanna fyrir stærðfræði var 520 stig en okkar skor var 487 stig. Í náttúrufræði var meðaltal þjóðanna 527 stig en okkar skor 494 stig. Svipuð niðurstaða fékkst við samanburð í 4. bekk.
    Sambærileg könnun var gerð fyrir framhaldsskólstigið og var staða okkar þar betri en á grunnskólastiginu. Niðurstaðan sýnir þó ótvírætt að nemendur í þessum námsgreinum hérlendis standa sig ekki eins vel og nemendur í mörgum öðrum löndum. Þótt ekki eigi að ofmeta þessar niðurstöður, enda er slíkur samanburður ekki einfaldur, telja flutningsmenn þetta þó enn eina vísbendinguna um að mikilla endurbóta sé þörf í menntamálum Íslendinga.
7.     Mjög slök staða á háskólastiginu.
    Háskólaskýrslan frá árinu 1997 er ein fyrsta alvöruskýrslan um samanburð á skólum hér og erlendis. Hún var lögð fram á Alþingi að beiðni þingmanna jafnaðarmanna. Þar kom m.a. fram að við stöndum öðrum þjóðum langt að baki. Síðari rannsóknir hafa staðfest það en mynd 5 sýnir framlög einstakra þjóða til háskólastigisins sem hlutfall af landsframleiðslu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Framlög til háskólastigsins eru mjög lág hérlendis miðað við aðrar þjóðir. Við erum í 23. sæti af 28 þjóðum á viðmiðunarárinu og verjum við þá 0,7% af landsframleiðslunni til háskólastigsins en meðaltalið er 1%. Aðrar Norðurlandaþjóðir eru langt fyrir ofan okkur. Að mati flutningsmanna er forgangsverkefnið í uppstokkun menntamála að efla háskólastigið og gera það sem fyrst sambærilegt því og er í nágrannalöndunum.
    Í hinu nýja þekkingarsamfélagi og nýja hagkerfi ræður menntun mestu um hvernig lífskjör verða í framtíðinni. Þar verðum við að standa öðrum þjóðum vel á sporði ef ekki á að fara illa en slíkt gæti m.a. leitt til þess að ungt fólk kysi frekar að setjast að erlendis en á Íslandi. Mynd 6 sýnir fjölda íbúa á aldrinum 25 til 64 ára sem hefur lokið háskólaprófi hérlendis. Staða okkar er vel viðunandi í þeim samanburði en lítið má út af bregða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér erum við í 8. sæti af 27 þjóðum. Það er ljóst af þessu að Háskóli Íslands og aðrir skólar á háskólastigi skila mörgum til prófs fyrir litlar fjárveitingar en rannsóknartengt framhaldsnám er mun minna. Þetta veldur gæðarýrnun til lengri tima. Það er því mjög brýnt að fylgja eftir auknum áhuga á háskólanámi með því að gera þeim skólum sem bjóða slíkt nám hér vel kleift að mæta slíkri þörf auk þess að efla rannsóknarþáttinn, einkum innan Háskóla Íslands. Nefndin mun fjalla ítarlega um þetta og leggja fram tillögur um það hvernig best sé að efla háskólamenntun hérlendis.
    Mikilvægi háskólastigsins kemur m.a. fram í því að án öflugra rannsókna og þróunarvinnu mætum við ekki breyttum atvinnuháttum. Við erum mjög slök í rannsóknum og þróunarvinnu sem eiga að standa undir lífskjörum framtíðarinnar. Það vantar tæpan þriðjung að við náum meðaltali OECD-ríkja í þeim málaflokki. Þótt rannsóknir og þróunarvinna hafi aukist síðustu árin stöndum við enn langt að baki öðrum þjóðum.
    Þetta endurspeglast í öðrum könnunum. Í nýrri svissneskri samkeppnisskýrslu fór Ísland úr 18. í 24. sæti milli ára, m.a. vegna þess hversu slök við erum í rannsóknum og þróun. Hér vantar fyrst og fremst starfsemi fyrirtækjanna sjálfra en rannsóknir og þróun eru langtímaverkefni og lykillinn að árangri er gott skólakerfi. Í tillögugreininni er lagt til að nefndin leggi fram tillögur um hvernig sé hægt að auka hlut rannsókna og þróunar í íslensku hagkerfi.

8.     Áherslur jafnaðarmanna í menntamálum.
    Jafnaðarmenn telja að menntun og menning séu ekki einungis forsendur fyrir betri lífskjörum framtíðarinnar heldur séu þau lífsgæði í sjálfu sér, gefi lífinu innihald, takmark og fullnægingu. Jafnaðarmenn líta á það sem hlutverk sitt að móta stefnu á sviði menningar og menntunar sem svarar til breyttra aðstæðna í heiminum.
    Hinar öru tæknilegu, stjórnmálalegu, efnahagslegu og félagslegu breytingar undanfarinna ára þýða að samfélag okkar stendur frammi fyrir nýjum ákvörðunum um framtíðina. Þessar ákvarðanir varða einkum æskuna. Jafnaðarmenn vilja gera kynslóðasamning við æsku þessa lands um framtíðina. Menntun hennar er ekki einungis mikilvægasta fjárfestingin heldur er hún samfélagsleg skylda og forsenda þess að takist að leysa þau vandamál sem blasa við jarðarbúum á sviði umhverfismála, misskiptingar og fólksfjölgunar. Hinn nýi kynslóðasamningur við æskuna nær til menntunar, vinnu, umhverfis og félagslegs jafnréttis.
    Það er markmið jafnaðarmanna í Evrópu að skila álfunni til komandi kynslóða þannig að hún einkennist af menningu og nýrri tækni. Markmið okkar jafnaðarmanna hafa ekki breyst, þau eru bræðralag, jafnrétti, velmegun, friður, lýðræði, sjálfbærni og víðsýni gagnvart öðrum þjóðum. Við erum samfélag og tengjumst saman í frelsi, umburðarlyndi og samstöðu í opnu lýðræðislegu þjóðfélagi. Jafnaðarmenn telja að betri menntun og aukin samskipti auki líkur á friði í heiminum og meiri samstöðu milli þjóða og skapi þannig skilyrði fyrir réttlátari heimi. Engin þjóð getur skilið sig frá þeirri ábyrgð sem hún ber gagnvart samborgurum sínum þótt í öðrum löndum séu.
    Jafnrétti kvenna og karla í menntun, starfi og samfélagi er rauði þráðurinn í stefnu jafnaðarmanna í mennta- og menningarmálum. Menntun er samfelld frá leikskóla til háskóla og tengsl milli skólastiga þarf að styrkja. Menntun er ekki bundin við eina kynslóð heldur allar. Endurskoðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna verður að vera gerð í tengslum við önnur kerfi sem hafa áhrif á lífsafkomu ungs fólks, t.d. húsnæðis- og skattakerfi. Við erum langt á eftir öðrum Norðurlandaþjóðum í stuðningi við námsmenn, m.a. vegna þess að við höfum enga námsstyrki. Í tillögunni er lagt til að kanna hvort blandað kerfi lána og styrkja, eins og er víðast, sé ekki heppilegri leið.
    Eitt helsta markmið jafnaðarmanna er að tryggja að menntun Íslendinga sé með því besta sem gerist í heiminum. Það er grundvallaratriði að við tryggjum af opinberri hálfu góða menntun fyrir alla. Menntun undirbýr börn okkar að lifa hamingjusömu lífi, taka þátt í lýðræðislegu skipulagi okkar, njóta menningar og lista og samvista við aðra. Mennta- og menningarstefna jafnaðarmanna er ekki eingöngu fyrir suma heldur fyrir alla. Félagslegt réttlæti verður að ríkja í menntakerfinu. Það þýðir að ekki skal mismuna fólki eftir fjárhagslegri stöðu, kyni, uppruna né öðrum þáttum sem marka fjölbreytni einstaklinga í þjóðfélagi okkar.
    Með menntun fyrir alla er átt við að allir eigi sömu möguleika til sambærilegrar menntunar hvort sem um leikskóla eða háskóla er að ræða. Við viljum ekki samfélag þar sem menntun barna ræðst af efnahag foreldra. Jafnaðarmenn hafna skólagjöldum sem er mismunun einstaklinga í samfélaginu á sviði þar sem jafnræði er hornsteinn. Skólagjöld tryggja forgang hinna ríku að góðri kennslu, en aðrir sitja eftir. Slíkt kerfi útilokar marga frá menntun eins og reynslan sýnir víða erlendis og er aldrei ásættanlegt fyrir jafnaðarmenn. Menntun er verkefni opinberra aðila til að tryggja jafnræði. Hægri menn hérlendis og erlendis vilja nýta markaðslögmálin í menntakerfinu og fjárhagslega yfirburði sem tæki til að velja þá sem halda til mennta eða hafna þeim. Jafnaðarmenn berjast gegn þeirri stefnu.
    Menntun lýkur aldrei. Endurmenntun og símenntun skipta miklu meira máli nú en fyrir nokkrum árum og á að vera hluti skólaskyldu. Helmingur tækniþekkingar úreldist á hverjum tíu árum og helmingur tölvuþekkingar á hverjum tveimur árum. Á starfsferli sérhvers einstaklings eru fundin upp 80–90% af þeirri vísinda- og tækniþekkingu sem hann notar. Þessar staðreyndir krefjast þess að samfélagið allt sé skipulagt sem ein menntastofnun.

9.     Lokaorð.
    Við breytingu samfélagsins í þekkingar- og upplýsingasamfélag verða til nýjar kröfur. Ef ekki er brugðist fljótt við eru líkur á því að Íslendingar dragist enn frekar aftur úr nágrönnum sínum. Það er markmið í menntastefnu jafnaðarmanna að innan örfárra ára verði öll heimili með tölvur og nettengingu. Sérhver skólastofa á Íslandi skal hafa möguleika á nettengingu. Í tillögugreininni er lagt til að mótaðar verði tillögur til útfærslu þessara hugmynda.
    Jafnaðarmenn telja að menntastefna sé eitt mikilvægasta verkfærið í byggðastefnu framtíðarinnar. Fjarnám, tenging skólastarfs í dreifbýli við skóla í þéttbýli og tengsl skóla og atvinnulífs er forsenda fyrir því að möguleikar til menntunar séu sambærilegir um land allt. Aðgangur að menntastofnunum á að vera óháður búsetu og efnahag.
    Mikilvægur hluti af menntastefnu jafnaðarmanna er að gefa landsmönnum annað tækifæri á sviði menntunar. Um helmingur landsmanna lýkur ekki námi eftir grunnskóla og margir hafa hrökklast frá námi. Þennan hóp þyrstir í menntun en hann hefur nú einungis tækifæri til að ljúka framhaldsskólaprófi með námi í öldungadeildum. Þessu fólki þarf að veita betra tækifæri, m.a. með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaga og ríkisvalds. Sérhver einstaklingur á rétt á að koma aftur inn í skipulagt skólastarf ef hugur hans stendur til þess.
    Jafnaðarmenn vilja sátt milli opinberra aðila og kennarastéttarinnar, sátt sem tekur mið af því að kennarastarfið sé metið til launa eins og eðlilegt er, samráð sé virt og samvinna og samskipti skipulögð þannig að kennarar líti á opinbera aðila, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, sem samstarfsaðila við útfærslu nútímalegrar menntastefnu. Við þurfum vel menntaða kennara sem eru ánægðir með starfsskilyrði sín, laun og aðstöðu. Í þessari tillögu er lögð til ný stefna í þessum efnum.
    Einn veikasti þáttur í íslensku skólastarfi er skortur á námsefni og námsgögnum. Jafnaðarmenn telja það brýnt í nýrri menntastefnu að efla námsgagnagerð með auknum fjárframlögum, fleira starfsfólki og nýtingu nútímalegrar tækni þannig að íslenskir nemendur hafi sambærilegan aðgang að góðum námsgögnum eins og gerist best í öðrum löndum. Í tillögunni er lagt til að mótaðar verði tillögur til að bæta stöðuna á þessu sviði og gera m.a. Landsbóksafni Íslands – Háskólabókasafni kleift að komast í hóp vel útbúinna bókasafna og verða í fremstu röð á sviði rafrænna bóka og tímarita.
    Jafnaðarmenn telja að menntakerfið sé mikilvægasti þátturinn í að tryggja samkeppnishæfni landsins, einstaklinga og fyrirtækja. Samkeppni hefur aukist á alþjóðlegum mörkuðum og betri menntun verður sífellt mikilvægara tæki fyrir einstök fyrirtæki til að skapa sér samkeppnisforskot.
    Nýir möguleikar blasa við í menntamálum, hagnýting upplýsingasamfélagsins, aukin endurmenntun, fjarnám og aukin alþjóðavæðing í hinu nýja hagkerfi. Þessi tækifæri er ekki hægt að nýta nema til komi ný menntastefna og snúið sé af braut metnaðarleysisins sem einkennt hefur menntamál á Íslandi í tæpa tvo áratugi. Jafnaðarmenn eru reiðubúnir að leiða þá stefnubreytingu.