Ferill 165. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 167  —  165. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Ábyrgðargjald skv. 1. mgr. nemur 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr. Gjaldið rennur í ríkissjóð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í 6. gr. laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, segir að ábyrgðargjald nemi 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra erlendra skuldbindinga og 0,0375% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra innlendra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili. Í dómsmáli sem Lánasýsla ríkisins höfðaði á síðasta ári til innheimtu ríkisábyrgðagjalds var EFTA-dómstóllinn beðinn um ráðgefandi álit. Spurt var um það hvort það samræmdist samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að lántakandi sem nýtur ábyrgðar ríkissjóðs skuli greiða hærra ábyrgðargjald af lánum sem hann tekur hjá aðilum í öðrum aðildarríkjum samningsins en af lánum sem hann tekur hjá innlendum aðilum. Í áliti EFTA-dómstólsins frá 14. júlí 2000 kemur fram að ákvæði í landsrétti eins ríkis EES um að lántakandi, sem nýtur ríkisábyrgðar skuli greiða hærra ábyrgðargjald af lánum frá aðilum í öðrum EES-ríkjum en af lánum frá innlendum aðilum séu ósamrýmanleg ákvæðum EES- samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga.
    Með hliðsjón af niðurstöðu EFTA-dómstólsins um að framangreind ákvæði í 6. gr. gildandi laga séu andstæð ákvæðum samningsins og ekki í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands er lagt til að ábyrgðargjald vegna ríkisábyrgðar verði hið sama fyrir innlendar og erlendar skuldbindingar, eða 0,0625% á ársfjórðungi af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir.

    Frumvarp þetta miðar að því að laga álagningu ríkisábyrgðagjalds betur að reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Ekki er talið að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.