Ferill 200. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 210  —  200. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Sveitarstjórn er heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatnsins geta notið og skal við það miðað að gjaldið ásamt öðrum tekjum standi straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Stofn til álagningar vatnsgjalds á allar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
     b.      Í stað orðanna „hver verður líklegur álagningarstofn“ í 2. mgr. kemur: hvert verður líklegt fasteignamat.
     c.      Í stað orðanna „0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni“ í 4. mgr. kemur: 0,4 hundraðshlutum af fasteignamati.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram að tillögu nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði til að fjalla um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Er tilgangur þess að samræma þau ákvæði laga nr. 81/1991 er lúta að innheimtu vatnsgjalds að þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Í því ákvæði er horfið frá þeirri skipan mála að miða álagningarstofn fasteignaskatts við afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík, samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins. Í stað þess er gert ráð fyrir að framvegis verði við álagningu fasteignaskatts miðað við fasteignamat húsa og mannvirkja. Er gert ráð fyrir því í a-lið 1. gr. frumvarpsins að 1. mgr. 7. gr. laga nr. 81/1991 verði breytt á sama veg.
    Til að koma í veg fyrir tekjutap vatnsveitna utan höfuðborgarsvæðisins vegna verulegrar lækkunar álagningarstofns vatnsgjalds, er lagt til í c-lið 1. gr. frumvarpsins að hámarksálagning vatnsgjalds verði framvegis 0,4% af fasteignamati. Þar sem um er að ræða þjónustugjald, sem eingöngu er ætlað að standa straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu, á breytingin ekki að fela í sér auknar álögur á gjaldendur. Er í því sambandi bent á að langflest sveitarfélög nýta einungis að hluta álagningarheimild sína vegna vatnsgjalds.
    Eins og fram kemur hér að framan er í fyrsta lagi um að ræða breytingu sem gerð er til að samræma ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, að ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995. Breytingin er einnig í samræmi við ákvæði laga nr. 47/2000, um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 94/1976.
    Breytingunni sem lögð er til í c-lið 1. gr. er ætlað að vega á móti þeirri lækkun álagningarstofns vatnsgjalds sem lögð er til í a-lið greinarinnar. Nái lækkunin fram að ganga mun hún að óbreyttum lögum leiða til tekjutaps fyrir sveitarfélög utan Reykjavíkur sem nemur u.þ.b. 150 milljónum króna á ári. Þar sem um er að ræða þjónustugjöld en ekki skatt eru sveitarfélög bundin af því að innheimta ekki hærra vatnsgjald en sem svarar stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu. Í reynd þýðir það að í flestum sveitarfélögum er álagningarprósenta vatnsgjalds mun lægri en það hámark sem er tilgreint í núgildandi ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 81/1991. Engu að síður eru til sveitarfélög með dýrari vatnsveitur og þeirra vegna þykir óhjákvæmilegt að hækka álagningarprósentu nokkuð.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um
vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta byggir á tillögu nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði 2. júní 1999 til að endurskoða ákvæði laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Tilgangur frumvarpsins er að samræma ákvæði laga nr. 81/1991 er lúta að innheimtu vatnsgjalds þeirri breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem er flutt samhliða. Í því ákvæði er gert ráð fyrir að framvegis verði álagning fasteignaskatts miðuð við fasteignamat húsa og mannvirkja. Í frumvarpi þessu er því gert ráð fyrir að stofn til álagningar vatnsgjalds skuli vera fasteignamat. Frumvarpið hefur ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.