Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 229  —  67. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um nýjar ríkisstofnanir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða nýjar ríkisstofnanir hafa orðið til frá og með árinu 1995, sundurliðað eftir árum og ráðuneytum?
    Hér á eftir eru taldar þær stofnanir sem settar hafa verið á fót frá og með árinu 1995 og er svari þessu skipt eftir ráðuneytum sem stofnanirnar heyra undir. Rétt er að taka fram að allmargar hinna nýju stofnana hafa orðið til við sameiningu stofnana eða tilfærslu verkefna milli stofnana. Til frekari glöggvunar fór forsætisráðuneytið þess því á leit við önnur ráðuneyti að þau gerðu grein fyrir því hvaða stofnanir hefðu verið lagðar niður á sama tímabili, þ.e. frá árinu 1995.

Forsætisráðuneyti.
    Forsætisráðuneytið tók við eigandaforræði yfir Safnahúsinu við Hverfisgötu árið 1997, en húsið fékk nýtt hlutverk er rekstur Þjóðmenningarhúss hófst þar fyrr á yfirstandandi ári.
    Embætti húsameistara ríkisins var lagt niður frá og með 31. desember 1996.

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Embætti ríkislögreglustjóra var stofnað árið 1997.
    Dómstólaráð var stofnað árið 1998.
    Útlendingaeftirlit var flutt frá ríkislögreglustjóra og varð sérstök stofnun árið 1999.
    Tölvunefnd varð að Persónuvernd árið 2000.

Félagsmálaráðuneyti.
    Barnaverndarstofa tók til starfa á árinu 1995. Hún tók m.a. við verkefnum Unglingaheimilis ríkisins.
    Vinnumálastofnun var stofnuð á árinu 1997. Hún sér m.a. um verkefni sem áður voru unnin hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis og ábyrgðasjóði launa.
    Jafnréttisstofa tók til starfa í september 2000, en hún tók m.a. við verkefnum sem Skrifstofa jafnréttismála annaðist áður.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
    Árið 1995: Sjúkrahús Reykjavíkur.
    Árið 1996: Hjúkrunarheimilið Droplaugarstaðir, Hlein, heimili Reykjalundi.
    Árið 1997: Vistheimilið Bjarg.
    Á árinu 1998 voru sameinuð sjúkrahús og heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni og urðu til eftirfarandi stofnanir:

    Heilbrigðisstofnunin Akranesi,
    Heilbrigðisstofnunin Patreksfirði,
    Heilbrigðisstofnunin Ísafjarðarbæ,
    Heilbrigðisstofnunin Bolungarvík,
    Heilbrigðisstofnunin Hólmavík,
    Heilbrigðisstofnunin Hvammstanga,
    Heilbrigðisstofnunin Blönduósi,
    Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki,
    Heilbrigðisstofnunin Siglufirði,
    Heilbrigðisstofnunin Húsavík,
    Heilbrigðisstofnunin Egilsstöðum,
    Heilbrigðisstofnunin Seyðisfirði og
    Heilbrigðisstofnunin Neskaupstað.
    Á árinu 1999 héldu sameiningarnar áfram og urðu þá til Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilsugæslustöðin Rangárþingi.
    Á yfirstandandi ári runnu saman Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítali í Landspítala – háskólasjúkrahús. Einnig var Lyfjastofnun sett á fót.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
    Löggildingarstofa var stofnuð með lögum nr. 155/1996, um Löggildingarstofu. Löggildingarstofan og Rafmagnseftirlit ríkisins voru um leið lögð niður.
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins var stofnaður með lögum nr. 61/1997 og var ásamt Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sbr. lög nr. 60/1997, reistur á grunni Fiskveiðasjóðs Íslands, iðnlánasjóðs, útflutningslánasjóðs og iðnþróunarsjóðs.
    Fjármálaeftirlitið var sett á stofn, sbr. lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það kom í stað bankaeftirlits og vátryggingaeftirlits.
    Byggðastofnun fluttist frá forsætisráðuneyti, sbr. lög nr. 106/1999, um Byggðastofnun.
    Seðlabanki Íslands var með lögum nr. 103/1999 fluttur frá viðskiptaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins.
    Taka má fram að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum var breytt í Samábyrgðina hf. með lögum nr. 98/2000, um stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.

Landbúnaðarráðuneyti.
    Með lögum nr. 57/1999 var Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri stofnaður í stað Bændaskólans á Hvanneyri.
    Með lögum nr. 68/1997 var Lánasjóður landbúnaðarins stofnaður í stað Stofnlánadeildar landbúnaðarins.
    Með lögum nr. 24/1997 var Veiðimálastofnun stofnuð til að aðskilja framkvæmda- og rannsóknaverkefni frá embætti veiðimálastjóra sem sinnir áfram stjórnsýslu samkvæmt lax- og silungsveiðilögum sem Veiðimálastofnun hafði áður á hendi.

Menntamálaráðuneyti.
    Ein ríkisstofnun hefur verið sett á laggirnar, þ.e. Borgarholtsskóli sem telst stofnaður haustið 1996.
    Á umræddu tímabili hafa fjölmargar stofnanir hins vegar verið lagðar niður, t.d. með sameiningu stofnana (sbr. Kennaraháskóla), öðrum hefur verið breytt í sjálfseignarstofnanir (svo sem skólum er veittu kennslu á sviði lista og hússtjórnarfræðslu), að ógleymdri tilfærslu grunnskóla til sveitarfélaga.

Samgönguráðuneyti.
    Tvær nýjar ríkisstofnanir hafa orðið til frá 1. janúar 1995 sem heyra undir samgönguráðuneytið:
    Annars vegar er um að ræða Siglingastofnun Íslands, sem stofnuð var með lögum nr. 6/1996, og hins vegar Póst- og fjarskiptastofnun, sem stofnuð var með lögum nr. 147/1996. Siglingastofnun Íslands tók til starfa 1. október 1996 og voru við það sameinaðar þrjár stofnanir í eina, þ.e. Vitastofnun Íslands, Hafnamálastofnun ríkisins og Siglingamálastofnun ríkisins. Póst- og fjarskiptastofnun tók til starfa 1. apríl 1997 og á sama tíma var Fjarskiptaeftirlit ríkisins lagt niður.

Sjávarútvegsráðuneyti.
    Verðlagsstofa skiptaverðs var stofnuð samkvæmt lögum nr. 13/1998 og tók til starfa þann 1. júní 1998. Stofan hefur aðsetur á Akureyri.

Umhverfisráðuneyti.
    Á vegum umhverfisráðuneytisins hefur ein stofnun verið sett á laggirnar á umræddu tímabili en það er Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri sem var stofnuð árið 1998.

Utanríkisráðuneyti.
    Engar nýjar stofnanir hafa verið settar á fót sem heyra undir utanríkisráðuneyti. Þó skal bent á að ákveðið hefur verið að opna sendiráð í Tokyo og Ottawa á næsta ári auk sendiskrifstofu í Mósambik.
    Tvær stofnanir voru lagðar niður á þessu ári (2000), þ.e. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli með sameiningu þeirra og breytingu í hlutafélag, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf.

    Engar stofnanir voru settar á fót á vegum fjármálaráðuneytis og Hagstofu Íslands á umræddu tímabili.