Ferill 267. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 295  —  267. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tónminjasafn.

Flm.: Ólafur Örn Haraldsson.



    Alþingi ályktar að stofnað verði tónminjasafn.

Greinargerð.


    Tónminjasafn aflar, varðveitir og sýnir hvers kyns gömul og ný verðmæti sem tengjast tónlist á Íslandi, þar á meðal hljóðfæri, hljómtæki, hljóðupptökur, nótur, bækur, myndir, heimildir um tónlistarsögu og frásagnir af tónlistarflutningi, tónlistarmönnum, tónlistarviðburðum og hvers kyns gripum sem tengjast samningu og flutningi tónlistar.
    Með stofnun og rekstri tónminjasafns verður menningarverðmætum bjargað frá glötun og tónlistarsaga þjóðarinnar verður gædd lífi og gerð aðgengileg fyrir almenning. Jafnframt mun tónminjasafn draga að ferðamenn, kynna þeim ríkan þátt í lífi þjóðarinnar og auka fjölbreytni þess sem þeim býðst að skoða. Með vönduðum frágangi er mögulegt að búa til safn sem gleður bæði augu og eyru. Þar verður hægt að flétta saman hljóðupptökur, gömul og ný hljóðfæri, gripi sem tengjast hljómsveitum og tónlistarmönnum, myndir, kvikmyndir og frásagnir.
    Tónlistarlíf á Íslandi hefur orðið æ blómlegra á síðustu áratugum. Þeim sem stunda tónlistarnám og tónlistarflutning hefur fjölgað afar mikið og í raun hefur orðið bylting á þessu sviði á 20. öldinni, enda stóð tónlistarlíf á Íslandi í upphafi hennar töluvert að baki því sem var meðal annarra Evrópuþjóða. Jafnframt þessu er nú að koma fram vitneskja úr handritum okkar sem sýnir að tónlistin á sér ríkulegri sögu á Íslandi en áður var talið. Hins vegar er það ekki einungis saga tónlistarinnar og mikil ástundun sem vekur athygli heldur einnig að samning og flutningur tónlistar eru vaxandi atvinnuvegur og útflutningur hér á landi. Tónminjasafn þarf þannig að taka til allra þátta tónlistar og allra tegunda tónlistar.
    Margt bendir til þess að víða um land og hjá ótal aðilum liggi efniviður í tónminjasafn og enn fremur að vinda verði bráðan bug að söfnun og skráningu áður en það er orðið um seinan. Enn eru lifandi margir þeir sem muna og geta sagt frá þeim árum sem síðar verða talin hin viðburðaríkustu í tónlistarsögu þjóðarinnar, og enn má finna hljóðfæri, hljómtæki, gripi og búninga hljómsveita, nótur, útsetningar o.s.frv. sem líklegt er að fari forgörðum, jafnvel á næstu árum. Að sjálfsögðu hefur mörgu af því sem tengist tónlist verið safnað og úr því unnið, enda er það á starfssviði ýmissa stofnana. Aðrir aðilar hafa þó einnig stundað skipulega söfnun og vinnslu á verðmætum sem tengjast tónlist. Tónminjasafn á ekki að taka við hlutverki slíkra aðila eða taka fram fyrir hendur þeirra sem fyrir eru heldur eiga öflugt samstarf við þá.
    Enginn vafi er að mikill áhugi verður á stofnun og rekstri tónminjasafns, enda er áhugi og efniviður meðal þjóðarinnar nægur. Fjölmargir aðilar meðal stofnana, fyrirtækja, félaga, skóla, kóra, hljómsveita, leikfélaga, einstaklinga o.fl. munu vera tilbúnir að leggja slíku safni lið ef vel er á málum haldið.
    Mikilvægt er að undirbúa stofnun og rekstur tónminjasafns og eiga víðtækt samstarf við þá fjölmörgu sem stutt geta slíkt safn, og því er þessi tillaga flutt.