Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 453  —  343. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    4. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við setningu viðmiðunarreglna fyrir staðgreiðsluárið 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er fjallað um reiknað endurgjald. Skv. 4. mgr. þeirrar greinar ber ríkisskattstjóra árlega að setja viðmiðunarreglur til leiðbeiningar fyrir skattstjóra varðandi ákvörðun reiknaðs endurgjalds og reglu um framkvæmd greinarinnar að öðru leyti. Í ákvæðinu er sérstaklega kveðið á um að viðmiðunartekjur þeirra sem landbúnað stunda skuli miðaðar við vinnuþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða að frádregnum einum þriðja, þó að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni, svo sem þess hvort bændur nái heildartekjum grundvallarbúsins vegna þróunar afurðaverðs eða annarra atriða er máli skipta að mati ríkisskattstjóra. Sérregla þessi um bændur er úrelt þar sem verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða er ekki lengur til, a.m.k. ekki í því formi sem lagður var til grundvallar við setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í ljósi þessa er lagt til að 4. málsl. 6. gr. falli brott. Í því felst að ríkisskattstjóri mun setja viðmiðunarreglur vegna reiknaðs endurgjalds bænda með sama hætti og gildir um endurgjald annarra starfsstétta. Þannig verða sömu grunnsjónarmið látin gilda um allar starfsstéttir.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1987,
um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að sérregla 4. málsl. 4. mgr. 6. gr. laganna um viðmiðunartekjur þeirra sem stunda landbúnað verði felld niður. Þessi sérregla er úrelt þar eð verðlagsgrundvöllur landbúnaðarafurða er ekki lengur til í því formi sem lagður var til grundvallar við setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt frumvarpinu mun ríkisskattssjóri setja viðmiðunarreglur vegna reiknaðs endurgjalds bænda með sama hætti og gildir um aðrar starfsstéttir. Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það hafa áhrif á tekju ríkissjóðs en ekki verður séð að það hafi áhrif á gjöld ríkissjóðs.