Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 628  —  229. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Svanfríðar Jónasdóttur um kostnað við hafrannsóknarskip.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið hækkaði hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson í verði á meðan það var í smíðum í Chile?
     2.      Hvað dróst afhending skipsins mikið miðað við upphaflegt tilboð og hve háar dagsektir greiddi skipasmíðastöðin vegna þessa?
     3.      Hvaða vandkvæði hafa komið upp og hvaða lagfæringar hefur þurft að gera á skipinu eftir að það kom heim og hvað hafa þær kostað?
     4.      Hversu mikill er heildarkostnaður orðinn við skipið sjálft?
     5.      Eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar eða viðgerðir á skipinu og ef svo er, er þá til áætlun um kostnað við þau verk?
     6.      Hvernig var það tilboð sem Slippstöðin gerði í skipið?


    Viðbótarverk og viðbótarbúnaður vegna smíðar hafrannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar hjá ASMAR skipasmíðastöðinni í Chile kostuðu 37,9 millj. kr. (515.696 Bandaríkjadalir, gengi 16. apríl 2000: 73,58). Þar af voru 17,9 milljónir (243.092 Bandaríkjadalir) til kaupa á KajoDenki Sonar, en ákveðið var að skipasmíðastöðin keypti búnaðinn og kaupandi greiddi hann við afhendingu skipsins. Tafir urðu hins vegar til þess að kostnaður við eftirlit og heimsiglingu skipsins jókst um rúmar 30 millj. kr. Þar er um að ræða viðbótarlaunakostnað eftirlitsmanna, kostnað við uppihald og fargjöld.
    Samkvæmt upphaflegum samningi við ASMAR-skipasmíðastöðina var gert ráð fyrir að skipið yrði afhent 31. maí 1999. Þegar við undirritun samnings var ljóst að afhendingardagur rafbúnaðar frá ALSTOM í Frakklandi, sem kaupandi útvegaði, stæðist ekki. Í samkomulagi við ASMAR var síðar af þessum sökum gert ráð fyrir frestun á afhendingu til 30. september 1999. Skipið var afhent 16. apríl 2000. Dráttur miðað við upphaflegan samning var því tíu og hálfur mánuður en sex og hálfur samkvæmt samkomulagi því sem gert var vegna dráttar á afhendingu rafbúnaðar. Smíðatími skipsins var því 26,5 mánuðir miðað við upphaflegan samning. Dagsektir sem seljandi greiddi voru 95,4 millj. kr. (1.297.000 Bandaríkjadalir, gengi 73,58).
    Seljandi greiddi einnig 29,4 millj. kr. (400.000 Bandaríkjadalir, gengi 73,58) þar sem honum tókst ekki að uppfylla ákvæði samningsins um djúpristu skipsins og þyngd, og 15 millj. kr. (204.000 Bandaríkjadalir, gengi 73,58) vegna verka sem ekki stóðust kröfur í smíðalýsingu. Endanleg greiðsla til ASMAR var því 1.110,5 millj. kr. (15.314.696 Bandaríkjadalir, meðalgengi á greiðslum til ASMAR 72,51) en samningsverð var 16.700.000 Bandaríkjadalir eða 1.196 millj. króna (gengi 71,62 við opnun tilboða).
    Eftir heimkomu og reynslusiglingar undanfarna fimm mánuði hafa lagfæringar verið gerðar á eftirfarandi búnaði: Raflögnum, lögnum fyrir rafeindatæki, þ.m.t. viðvörunarkerfi, innréttingum, vindubúnaði, háþrýstivökvakerfi, loftræstikerfi og stálvirki, auk ýmissa minni lagfæringa. Lagfæringar á skipinu og vinna við það eftir heimkomu hafa kostað 40,5 millj. kr. Hinn 3. nóvember sl. fór skipið í slipp í nokkra daga út af bilun á fellikili. Sú viðgerð er talin kosta um 6 millj. kr. og mun ASMAR bera þann kostnað.
    Heildarkostnaður við skipið er nú um 1.700 millj. kr. Inni í þeirri upphæð eru öll veiðarfæri skipsins og rannsóknartæki. Kröfur hafa verið gerðar á ASMAR vegna viðgerða á ábyrgðartíma og nema þær nú um 20 millj. kr., en niðurstaða þar um liggur ekki fyrir. Til þess að mæta bilunum eða göllum sem upp koma innan árs frá afhendingu skipsins hefur ASMAR sett bankaábyrgð að upphæð 835.000 Bandaríkjadalir eða um 73 millj. kr.
    Helstu breytingar og fyrirsjáanlegar viðgerðir eru viðgerð á innréttingum og loftum, endurbætur á loftræstikerfum og endurbætur á frysti- og kælikerfi. Ætla má að kostnaður við þá vinnu verði á bilinu 10–15 millj. kr.
    Tilboð Slippstöðvarinnar á Akureyri hljóðaði upp á 1.596 millj. kr., en tilboð ASMAR-skipasmíðastöðvarinnar var eins og fyrr segir 1.196 millj. kr. á verðlagi í desember 1997 (gengi 71,62 Bandaríkjadalir). Smíðatími samkvæmt tilboði Slippstöðvarinnar var 18 mánuðir en 15 mánuðir í tilboði ASMAR. Báðir aðilar gerðu ráð fyrir 20% upphafsgreiðslu. Samkvæmt tilboði Slippstöðvarinnar áttu 80% að greiðast á smíðatíma samkvæmt framgangi verksins en tilboð ASMAR gerði ráð fyrir 80% við afhendingu skips. Eins og sjá má af meðfylgjandi sundurliðun má gera ráð fyrir að heildarkostnaður við smíði skipsins hefði að lágmarki verið á bilinu 2.050 til 2.100 millj. kr. ef tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri hefði verið tekið.
    Samanburður á heildarupphæð tilboða sem bárust í smíði skipsins fylgir hér á eftir. Upphæðir miðast við gengi 8. desember 1997.

Sundurliðun kostnaðar við byggingu hafrannsóknarskips 15. nóvember 2000
og samanburður við tilboð Slippstöðvarinnar.

ASMAR

Slippstöðin

Í þús. kr. Útboð Greiðslur Útboð
Skip samkvæmt útboði
1.197.390 * 1.151.355 **/*** 1.596.000 * 1.615.523 **
Viðbætur utan tilboðs:
Rafbúnaður
247.689 247.689
Hönnunarkostnaður
19.455 19.455
Útboðs- og samningskostnaður
3.594 3.594
Siglingastofnun
2.724 2.724
Fiskleitar og magnmælingartæki
15.376 15.376
Rannsóknatæki
19.408 19.408
Multibeam
57.284 57.284
Tölvubúnaður
10.671 10.671
Viðhaldskerfi
502 502
Varaaflgjafi
3.219 3.219
Tölvukerfi
8.592 8.592
Viðbót við vinnslulínu
5.663 5.663
Annar tækjabúnaður
2.315 2.315
Annar búnaður
2.895 2.895
Varahlutir vegna véla
1.042 1.042
Veiðarfæri, togvírar, toghlerar
31.544 31.544
Viðbætur samtals
431.973 431.973
Eftirlitskostnaður
42.763 18.000 ****
Ferða- og uppihaldskostnaður
46.900 5.000 ****
Laun áhafnar í Chile og við heimsiglingu
12.113
Annar kostnaður við heimsiglingu
13.061
Samtals
1.698.165 2.070.496
* Á gengi útboðsdags USD=71,62.
** Meðalgengi greiðslna til ASMAR USD =72,51.
*** Greiðslur til ASMAR 1.1105 millj. kr. og lagfæringar sem voru unnar eftir heimkomu 40,5 millj. kr.
**** Áætlun.

Samanburður tilboða í nýtt hafrannsóknarskip, 8. desember 1997.

Tilboðsgjafi Viðmiðunargjaldmiðill Heildarverð Heildarverð í ísl. kr.
Slippstöðin
USD 22.280.000 1.597.476.000
Mjellem & Karlsen
NOK 165.000.000 1.639.935.000
Leroux and Lotz
ISK 1.703.000.000 1.703.000.000
Mjellem & Karlsen
NOK 175.000.000 1.739.325.000
Flekkefjord
NOK 180.000.000 1.789.020.000
Kværne Kleven
NOK 190.000.000 1.888.410.000
J.M. Martinace
USD 31.200.000 2.237.040.000
Varðeldur
USD 12.730.000 912.741.000
China Shipbuilding
USD 15.300.000 1.097.010.000
Ching Fu Shipbuilding
USD 15.333.000 1.099.376.100
Liaoning Machinery
USD 16.132.000 1.156.664.400
ASMAR
USD 16.700.000 1.197.390.000
Vulcano
ESP 2.730.000.000 1.306.305.000
Fitjar
NOK 143.995.000 1.431.166.305
Huelva
ESP 2.980.000.000 1.425.930.000