Ferill 362. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 709  —  362. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Birgissonar um sporhunda hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði.

     1.      Hvernig hefur ríkisvaldið nýtt sér sporhunda sem hjálparsveit skáta í Hafnarfirði hefur þjálfað til leitar að fólki?

    Eftirfarandi upplýsingar eru fengnar hjá hjálparsveit skáta í Hafnarfirði.

1996 1997 1998 1999 2000
Fjöldi beiðna Beiðni afturkölluð áður en leit hófst Fjöldi beiðna Beiðni afturkölluð áður en leit hófst Fjöldi beiðna Beiðni afturkölluð áður en leit hófst Fjöldi beiðna Beiðni afturkölluð áður en leit hófst Fjöldi beiðna Beiðni afturkölluð áður en leit hófst
Lögreglan í Hafnarfirði 8 5 3 2 2 1 8 2 4 1
Lögreglan í Reykjavík 5 3 10 1 3 6 2 4 1
Lögreglan í Kópavogi 2 3 2 1 3
Lögreglan í Keflavík 1 2 6
Lögreglan á Selfossi 1 1
Lögreglan á Vopnafirði 1
Lögreglan á Patreksfirði 1
Sýslumaðurinn á Hólmavík 1
Rannsóknarlögregla ríkisins 1 1
Samtals 17 8 19 6 7 1 16 5 18 1

     2.      Hvernig hefur greiðslum ríkisvaldsins til hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði verið háttað á árunum 1996–2000, sundurgreint eftir árum, og hvernig verður þeim háttað árið 2001?

    Á umræddu tímabili hefur dómsmálaráðuneytið greitt til hjálparsveitarinnar eftirfarandi fjárhæðir:

1997
1.000.000 kr.
1998
3.000.000 kr.
2000
600.000 kr.

    Hvað varðar greiðslur árið 2001 vísast til svars við 3. lið.

     3.      Er eða hefur verið í gildi samningur milli dómsmálaráðuneytisins og hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði um að halda sporhundana? Ef svo er ekki, stendur þá til að gera samning og þá hvenær?


    Hinn 8. janúar 1998 var gerður samningur milli dómsmálaráðuneytis og hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði um rekstur sporhunda til leitar og löggæslustarfa. Skv. 2. gr. samningsins skyldi ráðuneytið greiða hjálparsveitinni 2 millj. kr. fyrir rekstur sporhunda árið 1998. Í 3. gr. sagði að samningurinn gilti frá 1. janúar 1998 til 31. desember og lyki þá án uppsagnar. Hjálparsveitin óskaði ekki eftir að nýr samningur yrði gerður þegar honum lauk. Eftir það var því ekki í gildi neitt samkomulag um rekstrarstyrk vegna sporhunda til handa hjálparsveitinni og var ekki gert ráð fyrir slíkum styrk í fjárlögum árin 1999 og 2000. Hjálparsveitin óskaði hins vegar eftir styrk í lok september 1999. Í framhaldi af því veitti ráðuneytið hjálparsveitinni 600.000 kr. styrk. Þá óskaði ráðuneytið eftir þátttöku sjávarútvegsráðherra í rekstrarstyrknum. Hann samþykkti að veita hjálparsveitinni 1 millj. kr. Styrkur hjálparsveitarinnar var samtals 1,6 millj. kr.
    Í júní 2000 fól ráðuneytið embætti ríkislögreglustjóra að hrinda í framkvæmd tillögum vinnuhóps sem ætlað var að gera tillögur um hvernig haga skyldi leit og löggæslu með sporhundum. Var embættinu falið að hefja undirbúning þess að koma á því fyrirkomulagi sem lagt er til í skýrslu vinnuhópsins og útfæra það nánar í samráði við lögreglustjóra og hjálparsveitir, m.a. að gera kostnaðaráætlun. Stefnt er að því að lögregluhundar verði í hverjum landshluta og að þjálfun þeirra miðist við að þeir verði fjölhæfir og nýtist bæði til fíkniefnaleitar og sporleitar. Fyrir liggur að sumir fíkniefnaleitarhundar lögreglu hafa jafnframt hlotið þjálfun við sporleit og er hægt að nýta þá í því skyni þegar á þarf að halda. Gert er ráð fyrir að hundi verði bætt við á Austurlandi, eða það svæði verði að öðru leyti þjónustað. Ekki liggur fyrir frekari útfærsla framtíðarfyrirkomulags, en ráðuneytið hefur lagt áherslu á það við ríkislögreglustjóra að undirbúningnum verði hraðað svo að lag komist á þessi mál sem fyrst.
    Farið var fram á framlag í fjárlögum 2001 til leitar og löggæslu með sporhundum sem mundi renna til hjálparsveitarinnar eða yrði notað til að koma á framtíðarfyrirkomulagi leitar og löggæslu með sporhundum. Í fjárlögum 2001 er gert ráð fyrir 2 millj. kr. vegna þessa undir liðnum ýmis löggæslumál. Stefnt er að því að semja á nýjan leik við hjálparsveit skáta í Hafnarfirði um framlög til rekstrar sporhunda þar til endanlegt fyrirkomulag liggur fyrir. Er stefnt að því að styrkja hjálparsveitina um 2 millj. kr. á þessu ári.