Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 843  —  541. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef 2/ 3 tekna þess hjóna sem ellilífeyris nýtur nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef 2/ 3 tekna annars hvors hjónanna nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 2. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.
     c.      2. málsl. 7. mgr. orðast svo: Ef 2/ 3 tekna annars hvors hjóna nema lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári skal, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl., aldrei greiða því lægri tekjutryggingu en nemur því sem á vantar að 2/ 3 tekna þess nái þeirri fjárhæð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þeir ellilífeyrisþegar, sem 2., 3. og 7. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993, með síðari breytingum, hafa átt við tímabilið 1. janúar 2001 til 31. mars 2001 skulu eiga rétt á greiðslum á tekjutryggingu ellilífeyris sem reiknast á þann hátt sem greinir í 1. gr. laga þessara. Frá tekjutryggingu reiknaðri með þessum hætti skulu dragast þær greiðslur tekjutryggingar sem viðkomandi ellilífeyrisþegi hefur þegar fengið. Greiðslurnar skulu bera 5,5% ársvexti frá þeim degi er lífeyrisþeginn fyrst gat átt rétt á að fá greiðslu samkvæmt ákvæðum laga nr. 117/1993 um það efni. Vextir skulu greiðast þó að ekki hafi legið fyrir umsókn um tekjutryggingu frá viðkomandi lífeyrisþega.

II.


    Tryggingastofnun ríkisins skal hafa frumkvæði að greiðslum samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í þeim tilvikum þar sem hún hefur í höndum umsóknir frá lífeyrisþegum og upplýsingar sem duga til að reikna út fjárhæðirnar sem greiða skal. Liggi fyrir umsóknir án nægilegra upplýsinga skal Tryggingastofnun ríkisins beina áskorun til viðkomandi lífeyrisþega um að bæta þar úr innan hæfilegs frests sem stofnunin ákveður. Miðað skal við að allar greiðslur sem stofnunin getur sjálf reiknað án atbeina lífeyrisþega hafi átt sér stað fyrir 1. maí 2001.

III.


    Þeir ellilífeyrisþegar sem telja sig eiga rétt á tekjutryggingu skv. 1. gr. laga þessara, en hafa ekki sótt um fyrir umrætt tímabil, geta sótt um tekjutryggingu sér til handa og skulu þeir þá fá úrlausn í samræmi við reglur þessa bráðabirgðaákvæðis að því tilskildu að sótt sé um fyrir 1. júlí 2001. Eftir þann dag gilda ákvæði 48. gr. laga nr. 117/1993 um allar nýjar umsóknir um lífeyrisgreiðslur.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993.
    Hinn 19. desember 2000 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í málinu nr. 125/2000: Tryggingastofnun ríkisins gegn Öryrkjabandalagi Íslands og gagnsök.
    Hinn 22. desember 2000 ákvað ríkisstjórnin að skipa sérstakan starfshóp til að greina með sem nákvæmustum hætti hvaða leiðir væru færar til að bregðast við dómi Hæstaréttar og semja drög að frumvarpi til laga um breyting á lögum um almannatryggingar sem stefnt skyldi að því að lögfesta svo fljótt sem verða mætti. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til forsætisráðherra 7. janúar 2001. Frumvarp til laga um breyting á lögum um almannatryggingar sem byggt var á tillögu starfshópsins var lögfest hinn 24. janúar 2001 sem lög nr. 3/2001.
    Frumvarp það sem hér er lagt fram kveður á um að ellilífeyrisþegum verði tryggð sömu réttindi og örorkulífeyrisþegum voru tryggð með lögum nr. 3/2001, en eins og fram kom í greinargerð og fylgiskjölum með frumvarpi að þeim lögum var ekki litið svo á að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 125/2000 ætti beint við um ellilífeyrisþega. Þrátt fyrir það telur ríkisstjórnin að til framtíðar eigi sömu efnisrök við um réttindi ellilífeyrisþega og öryrkja að þessu leyti. Einnig hafa fulltrúar Landssambands eldri borgara og Félags eldri borgara í Reykjavík lýst þeim sjónarmiðum sínum á fundum með samráðsnefnd félaganna og ríkisstjórnarinnar að þeir telji eðlilegt að sama efnisregla gildi um ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega. Að því er varðar liðinn tíma er lagt til að greitt verði í samræmi við reglur frumvarpsins frá 1. janúar sl.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði inn í lög um almannatryggingar sérreglu sem ætlað er að tryggja að ellilífeyrisþegi hafi sjálfur að minnsta kosti ákveðnar lágmarkstekjur án tillits til tekna maka. Í samræmi við þau sjónarmið sem lágu að baki lögum nr. 3/2001 er lagt til að sú tekjutrygging verði 300.000 kr. á ári, eða 25.000 kr. á mánuði og mundi hún þá tryggja að ellilífeyrisþegi sem á maka sem ekki fær lífeyri hafi að lágmarki 43.424 kr. á mánuði að ellilífeyri meðtöldum, í stað 18.424 kr. samkvæmt gildandi reglum, en þegar um er að ræða ellilífeyrisþega sem nýtur hjónalífeyris er samsvarandi fjárhæð 31.582 kr. í stað 16.582 kr. samkvæmt gildandi reglum. Í frumvarpinu er lagt til að 2/ 3 hlutar tekna ellilífeyrisþegans skuli hafa áhrif á sérregluna. Þannig nýtur ellilífeyrisþegi sem á maka sem ekki fær lífeyri þessarar sérreglu þegar eigin tekjur hans eru allt að 450.000 kr. á ári, en þá eru heildartekjur hans, að ellilífeyri meðtöldum, að lágmarki 671.088 kr. án tillits til tekna maka, en heildartekjur ellilífeyrisþega sem nýtur hjónalífeyris eru þá að lágmarki 648.984 kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lagt til að við 2. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður með sérreglu sem tryggi ákveðinn lágmarksrétt til handa ellilífeyrisþega sem er í hjúskap og maki hans er ekki ellilífeyrisþegi. Í reglunni felst að samanlögð eigin tekjuöflun ellilífeyrisþega og tekjutrygging hans geti aldrei þrátt fyrir sameiginlegt frítekjumark hjóna numið lægri fjárhæð en 300.000 kr. á ári eða 25.000 kr. á mánuði. Af þessu leiðir að enginn ellilífeyrisþegi fær vegna tekna maka lægri lífeyri en sem nemur 43.424 kr. á mánuði þegar lágmark tekjutryggingar að viðbættum eigin tekjum hefur verið lagt við ellilífeyri skv. 11. gr. laganna. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að 2/ 3 tekna ellilífeyrisþegans hafi áhrif á fjárhæð sérreglunnar. Þannig mun sérreglan verða til þess að auka tekjur ellilífeyrisþega sem er með allt að 450.000 kr. í árstekjur í tilvikum þar sem tekjutrygging hans er skert samkvæmt gildandi reglum vegna tekna maka hans.
    Í b- og c-lið greinarinnar er lagt til að sömu breytingar verði gerðar á 3. og 7. mgr. 17. gr., en þau ákvæði fjalla einnig um tekjutryggingu til ellilífeyrisþega í hjúskap.

Um 2. gr.


    Til að unnt sé að undirbúa gildistöku laganna er lagt til að þau öðlist gildi 1. apríl 2001.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í ákvæðinu er lagt til að regla skv. 1. gr. frumvarpsins gildi um greiðslur allt frá 1. janúar 2001 og að á þær fjárhæðir skuli greiða 5,5% ársvexti. Er það í samræmi við lög nr. 3/2001 sem fyrr hefur verið getið.

Um ákvæði til bráðabirgða II og III.


    Ákvæði þessi eru efnislega samhljóða bráðabirgðaákvæðum III og IV í lögum nr. 3/2001 og kveða á um skyldu Tryggingastofnunar ríkisins til að hafa frumkvæði að því að greiða ellilífeyrisþegum samkvæmt bráðabirgðaákvæði I og rétt ellilífeyrisþega, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki sótt um tekjutryggingu, til að leggja inn umsókn og fá hana meðhöndlaða í samræmi við reglur frumvarpsins.



Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um almannatryggingar,
nr. 117 20. desember 1993, með síðari breytingum.

    Áætlað er að kostnaðarauki af frumvarpinu nemi um 140 m.kr. árlega. Er sú áætlun samkvæmt útreikningum sem Þjóðhagsstofnun hefur gert, en stofnunin áætlar að ákvæðið nái til um 1.100–1.200 ellilífeyrisþega. Til viðbótar gæti einhver fjöldi ellilífeyrisþega sem ekki nýtur tekjutryggingar átt rétt á greiðslu verði frumvarpið að lögum.
Fylgiskjal II.


Þjóðhagsstofnun:

Dæmi um breytingu tekjutryggingar ellilífeyrisþega í hjúskap.
Miðað við 25 þús. kr. tryggingu á mánuði og skerðingu um 2/3.

(7. mars 2001.)



Tekjutrygging
Breyting tekjutryggingar
Tekjur, þús. kr. á mánuði kr. á mánuði Krónur % af heimilis-
Lífeyrisþegi Maki Samtals Í dag Verður á mánuði tekjum
0 100 100 29.321 29.321 0 0,0%
0 150 150 18.071 25.000 6.929 4,6%
0 200 200 6.821 25.000 18.179 9,1%
0 250 250 0 25.000 25.000 10,0%
0 400 400 0 25.000 25.000 6,3%

Tekjutrygging
Breyting tekjutryggingar
Tekjur, þús. kr. á mánuði kr. á mánuði Krónur % af heimilis-
Lífeyrisþegi Maki Samtals Í dag Verður á mánuði tekjum
0 150 150 18.071 25.000 6.929 4,6%
5 150 155 16.946 21.667 4.721 3,0%
10 150 160 15.821 18.333 2.512 1,6%
15 150 165 14.696 15.000 304 0,2%
20 150 170 13.571 13.571 0 0,0%
25 150 175 12.446 12.446 0 0,0%
30 150 180 11.321 11.321 0 0,0%

Tekjutrygging
Breyting tekjutryggingar
Tekjur, þús. kr. á mánuði kr. á mánuði Krónur % af heimilis-
Lífeyrisþegi Maki Samtals Í dag Verður á mánuði tekjum
0 200 200 6.821 25.000 18.179 9,1%
5 200 205 5.696 21.667 15.971 7,8%
10 200 210 4.571 18.333 13.762 6,6%
15 200 215 3.446 15.000 11.554 5,4%
20 200 220 2.321 11.667 9.346 4,2%
25 200 225 1.196 8.333 7.137 3,2%
30 200 230 71 5.000 4.929 2,1%

Tekjutrygging
Breyting tekjutryggingar
Tekjur, þús. kr. á mánuði kr. á mánuði Krónur % af heimilis-
Lífeyrisþegi Maki Samtals Í dag Verður á mánuði tekjum
0 250 250 0 25.000 25.000 10,0%
5 250 255 0 21.667 21.667 8,5%
10 250 260 0 18.333 18.333 7,1%
15 250 265 0 15.000 15.000 5,7%
20 250 270 0 11.667 11.667 4,3%
25 250 275 0 8.333 8.333 3,0%
30 250 280 0 5.000 5.000 1,8%
35 250 285 0 1.667 1.667 0,6%
40 250 290 0 0 0 0,0%

Tekjutrygging
Breyting tekjutryggingar
Tekjur, þús. kr. á mánuði kr. á mánuði Krónur % af heimilis-
Lífeyrisþegi Maki Samtals Í dag Verður á mánuði tekjum
0 400 400 0 25.000 25.000 6,3%
5 400 405 0 21.667 21.667 5,3%
10 400 410 0 18.333 18.333 4,5%
15 400 415 0 15.000 15.000 3,6%
20 400 420 0 11.667 11.667 2,8%
25 400 425 0 8.333 8.333 2,0%
30 400 430 0 5.000 5.000 1,2%
35 400 435 0 1.667 1.667 0,4%
40 400 440 0 0 0 0,0%