Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 912, 126. löggjafarþing 581. mál: frestun á verkfalli fiskimanna.
Lög nr. 8 19. mars 2001.

Lög um frestun á verkfalli fiskimanna.


1. gr.

     Verkfalli því er samtök fiskimanna hófu gegn félögum og samtökum útvegsmanna, um og undir miðnætti aðfaranótt 16. mars sl., er frestað til kl. 24.00 hinn 1. apríl nk. frá og með gildistöku laga þessara. Sama gildir um verkbann það er félög og samtök útvegsmanna settu á fiskimenn frá og með miðnætti aðfaranótt 16. mars sl.

2. gr.

     Á meðan frestun verkfalls og verkbanns skv. 1. gr. stendur yfir skulu allir síðastgildandi kjarasamningar þeirra aðila sem lög þessi taka til gilda þeirra í milli, nema þeir semji um annað.

3. gr.

     Vinnustöðvanir þær sem lög þessi taka til, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, eru óheimilar.

4. gr.

     Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 2001.