Ferill 254. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 918  —  254. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um lækningatæki.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnheiði Haraldsdóttur, Guðríði Þorsteinsdóttur og Vilborgu Hauksdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti. Jafnframt bárust umsagnir um málið frá héraðslækni Norðurlands, Austurbakka hf., Samtökum verslunarinnar, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Geislavörnum ríkisins, Tryggingastofnun ríkisins, Heilbrigðistæknifélagi Íslands, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Staðlaráði Íslands, Flögu hf., Neytendasamtökunum, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Löggildingarstofu, Landssamtökum hjartasjúklinga, héraðslækninum í Reykjavík, Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, landlæknisembættinu og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er verið að setja sérlög um lækningatæki og er þeim ætlað að tryggja öryggi sjúklinga og annarra notenda lækningatækja. Einnig er verið að hrinda í framkvæmd tilgreindum tilskipunum Evrópusambandsins ásamt samningum við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nefndin leggur til fáeinar orðalagsbreytingar á frumvarpinu en jafnframt eru lagðar til eftirfarandi efnisbreytingar. Lagt er til að heimild í 1. mgr. 10. gr. til að fela öðrum aðilum hluta eftirlits með lækningatækjum verði í höndum landlæknis en ekki ráðherra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Samkvæmt frumvarpinu er eftirlitið á ábyrgð landlæknis og því er eðlilegt að ákvörðunarvald um hvort fela skuli öðrum aðilum hluta þess sé einnig hjá honum. Þá er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um endurskoðun laganna innan fimm ára frá gildistöku þeirra. Þetta er í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur, þar sem segir að eftirlitsreglur skuli hafa takmarkaðan gildistíma eða endurskoðunarákvæði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir, Jón Kristjánsson og Ásta Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 22. mars 2001.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Tómas Ingi Olrich.



Bryndís Hlöðversdóttir.


Þuríður Backman.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Prentað upp.