Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 950  —  597. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að taka gjald til að standa straum af rekstrarkostnaði fyrir rannsóknir og ráðgjöf sem falla undir 4. gr., greiningu vegna inn- og útflutnings á dýrum og plöntum sem heyra undir samning um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á hveraörverum samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, leyfisveitingar vegna útflutnings á náttúruminjum og fyrir greiningar á náttúrusýnum. Ráðherra getur að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands sett gjaldskrá vegna þeirrar starfsemi sem að framan er talin.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Náttúrufræðistofnun Íslands er heimilt að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum, náttúrugripum og sambærilegum gjöfum frá einstaklingum eða öðrum.

2. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa er starfa á vegum sveitarfélaga og skal um hverja stofu gera samning milli ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu. Náttúrustofur og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa með sér samvinnu samkvæmt nánari ákvörðun þeirra hverju sinni.

3. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Eitt eða fleiri sveitarfélög geta átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofu er hjá þeim sveitarfélögum sem gert hafa samning um rekstur hennar. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við upphæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri upphæð sem er allt að jafnhá þeirri upphæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu. Framlag ríkissjóðs er háð því að fyrir liggi samningur um rekstur náttúrustofu, sbr. 9. gr. Í samningi skal meðal annars kveðið á um aðsetur og starfssvæði náttúrustofu, launakjör forstöðumanns og fjárskuldbindingar sveitarfélaga vegna reksturs hennar, sem skulu miðast við 30% af framlagi ríkisins.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Helstu hlutverk náttúrustofu eru:
              a.      að safna gögnum, varðveita heimildir um náttúrufar og stunda vísindalegar náttúrurannsóknir, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar,
              b.      að stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd og veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga,
              c.      að veita náttúruverndarnefndum á starfssvæði stofunnar upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar samkvæmt ákvörðun stjórnar náttúrustofu hverju sinni,
              d.      að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun gegn greiðslu á verksviði stofunnar að beiðni sveitarfélaga, ríkis eða stofnana þeirra, einstaklinga, fyrirtækja eða annarra aðila,
              e.      að annast almennt eftirlit með náttúru landsins, sbr. 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, einkum í þeim landshluta þar sem náttúrustofan starfar. Náttúruvernd ríkisins skal gera samning um slíkt eftirlit við náttúrustofur sem staðfestur er af ráðherra.
     b.      Við bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
                  Náttúrustofur skulu fyrir lok apríl ár hvert skila skýrslu til ráðherra um starfsemi sína næstliðið ár ásamt ársreikningi.

5. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn náttúrustofu skipa þrír menn. Sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofu tilnefna menn í stjórn og skal einn þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

6. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórn náttúrustofu getur sett gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf á verksviði stofunnar, sbr. d-lið 11. gr.

7. gr.

    Orðin „með ríkisaðild“ í 16. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ráðherra skal fyrir 1. ágúst 2001 gera samning, sbr. 9. gr., við sveitarfélög sem standa að þeim náttúrustofum sem eru starfandi við gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem skipuð var af umhverfisráðherra með bréfi dagsettu 9. júní 2000. Í nefndinni áttu sæti: Sigríður Auður Arnardóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður, Jón Kristjánsson, alþingismaður og stjórnarmaður í náttúrustofu Austurlands, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Ragna Ívarsdóttir, formaður stjórnar náttúrustofu Vesturlands, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Starfsmaður nefndarinnar var Hersir Gíslason, deildarsérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að nefndin hafi það hlutverk að gera tillögur um framtíðarstöðu og hlutverk náttúrustofa í kjördæmum, sbr. lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Nefndin skyldi hafa hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi náttúrustofa og hafa það að leiðarljósi að starfsemi þeirra styrki sveitarstjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála. Var nefndinni falið að huga sérstaklega að tengslum náttúruverndarnefnda sveitarfélaga og starfsemi náttúrustofa í því sambandi. Þá var nefndinni ætlað að huga að verðandi breytingu á kjördæmaskipan landsins sem kemur til framkvæmda þegar næst verður kosið til Alþingis. Við samningu frumvarpsins fékk nefndin á fundi sína forstöðumenn þeirra fimm náttúrustofa sem starfandi voru á þeim tíma. Síðastliðið haust var sett á fót náttúrustofa Reykjaness og eru því nú starfræktar sex náttúrustofur á landinu öllu. Þeir forstöðumenn sem nefndin ræddi við eru Guðrún Jónsdóttir, forstöðumaður náttúrustofu Austurlands, Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður náttúrustofu Norðurlands vestra, Ármann Höskuldsson, forstöðumaður náttúrustofu Suðurlands, Þorleifur Eiríksson, forstöðumaður náttúrustofu Vestfjarða, og Jón Baldur Sigurðsson, forstöðumaður náttúrustofu Vesturlands. Nefndin lagði fyrir framangreinda forstöðumenn spurningalista þar sem óskað var eftir skriflegum svörum um ýmis grundvallaratriði er varða starfsemi náttúrustofa. Nefndin fékk jafnframt á fund sinn Árna Bragason, forstjóra Náttúruverndar ríkisins. Með bréfum dagsettum 17. október 2000 sendi nefndin drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur til umsagnar stjórna þeirra sex náttúrustofa sem taldar voru upp hér að framan auk þeirra sveitarfélaga sem að náttúrustofum standa. Jafnframt voru Náttúruvernd ríkisins send drögin til umsagnar. Nefndin gerði nokkrar breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af þeim athugasemdum sem gerðar voru.
    Full samstaða var í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi þessu. Gerð var ein breyting á frumvarpinu eftir að nefndin skilaði tillögum sínum að lagafrumvarpi til ráðherra: b-lið var bætt við 1. gr. Hér verður gerð grein fyrir þeim breytingum sem felast í frumvarpinu:
    Lagt er til að gjaldtökuheimild Náttúrufræðistofnunar Íslands verði skýrari og stofnuninni veitt heimild til að taka gjald fyrir tilgreinda þjónustu og verkefni sem óskað er eftir af henni. Einnig er lagt til að náttúrustofum verði veitt heimild til að taka gjald fyrir þau verkefni sem talin eru upp í 6. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að starfræksla náttúrustofa sé alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem að þeim standa en með stuðningi ríkisins. Framlag ríkisins skal miðast við laun forstöðumanns náttúrustofu og að auki skal koma til jafnhátt framlag til reksturs stofunnar. Á fjárlagaárinu 2001 er fast framlag ríkissjóðs til hverrar náttúrustofu 5,2 millj. kr. Heildarframlag ríkissjóðs á fjárlagaárinu 2001 til náttúrustofa nemur 39,7 millj. kr. en náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík og náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað fengu tímabundið viðbótarframlag. Fast framlag ríkissjóðs til náttúrustofa skiptist þannig á fjárlagaárinu 2001 að 3,6 millj. kr. voru vegna launa forstöðumanns en 1,6 millj. kr. vegna stofnkostnaðar. Lagt er til að framlag ríkissjóðs sé háð því skilyrði að sveitarfélögin leggi að lágmarki fram fjárhæð sem nemur 30% af framlagi ríkisins, jafnframt að fyrir liggi samningur milli umhverfisráðherra og þeirra sveitarfélaga sem starfrækja náttúrustofu um viðkomandi náttúrustofu. Eins og rakið er hér að framan eru náttúrustofurnar nú sex talsins, þ.e. náttúrustofa Reykjaness sem starfandi er í Sandgerði en Sandgerðisbær og Grindavíkurkaupstaður standa að henni, Fjarðabyggð rekur náttúrustofu Austurlands sem hefur aðsetur í Neskaupstað, Vestmannaeyjabær rekur náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum, náttúrustofa Vesturlands er í Stykkishólmi og stendur Stykkishólmsbær að baki henni, náttúrustofa Vestfjarða hefur aðsetur í Bolungarvík en Súðavíkurhreppur, Ísafjarðarbær og Bolungarvíkurkaupstaður reka hana og að lokum er náttúrustofa Norðurlands vestra rekin af Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi. Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að gerðir verði nýir samningar um þessar stofur, sbr. ákvæði til bráðabirgða.
    Þá er gert ráð fyrir að verkefni náttúrustofa verði aukin og þau skilgreind með skýrari hætti. Að lokum er lagt til að gerð verði breyting á skipan stjórnar þannig að formaður stjórnar verði skipaður af þeim sveitarfélögum sem standa að stofunni í stað umhverfisráðherra áður. Fulltrúar í stjórn koma því eingöngu frá sveitarfélögunum sjálfum en ekki er gert ráð fyrir að ríkið eigi fulltrúa í stjórn náttúrustofa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Hér er mælt fyrir um gjaldtökuheimild til handa Náttúrufræðistofnun Íslands vegna þeirra verkefna sem talin eru upp í greininni. Með ákvæðinu er kveðið á um það með skýrum hætti fyrir hvaða verkefni og þjónustu Náttúrufræðistofnun Íslands hefur heimild til að taka gjald. Gjöld þau sem hér um ræðir eru svokölluð þjónustugjöld er taka mið af kostnaði við framkvæmd einstakra verkefna og mega gjöldin ekki vera hærri en sem nemur þeim kostnaði. Með lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, var Náttúrufræðistofnun Íslands falið eftirlitshlutverk í tengslum við rannsóknir og nýtingu á hveraörverum. Ekki er að finna gjaldtökuheimild í lögunum í tengslum við þessi verkefni og er hér bætt úr því. Með lögum nr. 85/2000, um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, var staðfest aðild Íslands að CITES-samningnum og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands ráðgjafarhlutverki að gegna vegna samningsins gagnvart ýmsum aðilum. Þegar um er að ræða gjaldtöku Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna verkefna þar sem stofnunin er í samkeppnisrekstri er almennt litið svo á að þar sé um að ræða verkefni sem ekki er heimilt að kveða á um gjaldtöku fyrir í lögum.
    Lagt er til að stofnunin hafi heimild til að veita viðtöku fjárframlögum, vísindastyrkjum, vísindalegum eintökum, náttúrugripum og sambærilegum gjöfum frá einstaklingum eða öðrum. Breytingin sem hér er lögð til er gerð til að gæta samræmis við það sem gildir um aðrar stofnanir sem heyra undir ráðuneytið en Náttúrufræðistofnun Íslands. Sambærilegt ákvæði og 2. mgr. 5. gr. er ekki að finna í löggjöf þeirri sem gildir um þær stofnanir.

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um að heimilt sé að leyfa starfrækslu allt að átta náttúrustofa sem starfa á vegum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að gerðir verði samningar milli þeirra sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu og ráðherra um rekstur náttúrustofu og er í 3. gr. kveðið nánar á um efni samningsins. Náttúrustofur og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa með sér samvinnu eins og er í gildandi lögum, sbr. 3. og 6. gr. laganna. Lagt er til að tekin sé ákvörðun hverju sinni um það hvernig samvinnu þessari skuli háttað.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. laganna að staðsetning náttúrustofa verði ekki bundin sérstaklega við kjördæmaskipan. Með lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, var gerð breyting á kjördæmaskipan landsins sem kemur til framkvæmdar á árinu 2003 og fækkar þá kjördæmum úr átta í sex. Ekki þykir rétt að binda í lög staðsetningu náttúrustofa við tiltekið landsvæði en æskilegast væri að náttúrustofur dreifðust jafnt um land allt þannig að öll sveitarfélög hefðu greiðan aðgang að einhverri náttúrustofu. Lagt er til að stofurnar verði ekki fleiri en átta talsins. Þar sem stofurnar eru nú sex er gert ráð fyrir að ráðherra hafi heimild til að leyfa starfrækslu tveggja nýrra náttúrustofa. Miðað við núverandi dreifingu náttúrustofa væri æskilegt að nýjar stofur yrðu á Norðausturlandi og Suðausturlandi.

Um 3. gr.

    Í greininni er lagt til að starfsemi náttúrustofu verði alfarið á ábyrgð þeirra sveitarfélaga sem standa að henni en með stuðningi ríkisins. Þannig er rekstur og eignarhald stofanna á ábyrgð sveitarfélaganna. Eitt eða fleiri sveitarfélög geta starfrækt náttúrustofu en aðrir aðilar hafa ekki heimild til þess. Þegar náttúrustofa er sett á fót skal gerður samningur milli viðkomandi sveitarfélaga sem standa að náttúrustofu og ráðherra og skal ríkissjóður leggja fram ákveðið framlag til náttúrustofunnar sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni. Framlag ríkissjóðs skal miðast við laun forstöðumanns í fullu starfi eins og er í gildandi lögum að viðbættri allt að jafnhárri upphæð til reksturs náttúrustofu eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Framlag ríkissjóðs er háð því að sveitarfélög sem reka viðkomandi stofu leggi til stofunnar 30% af framlagi ríkisins. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu veitir ríkissjóður 5,2 millj. kr. til hverrar stofu á fjárlagaárinu 2001. Hér er lögð til hækkun á framlagi ríkissjóðs til hverrar stofu vegna hins nýja verkefnis náttúrustofa að styrkja starf náttúruverndarnefnda, sbr. c-lið 4. gr., og til að styrkja starfsemi náttúrustofa þannig að þær geti betur sinnt því hlutverki sem þeim hefur verið falið.
    Í samningi ráðherra og þeirra sveitarfélaga sem standa að viðkomandi stofu skal m.a. kveðið á um staðsetningu náttúrustofu og á hvaða svæði henni er einkum ætlað að starfa. Jafnframt skal kveðið á um í samningi um framangreinda fjárhagsskuldbindingu sveitarfélaga. Gert er því ráð fyrir að stofurnar hafi skyldubundnu hlutverki að gegna gagnvart þeim sveitarfélögum sem standa að stofunni.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um verkefni náttúrustofa og eru þau talin upp í fimm liðum. Hlutverk náttúrustofu samkvæmt a-lið er nær óbreytt frá því sem segir í a-lið 1. mgr. 11. gr. gildandi laga. Náttúrustofum er einkum ætlað að sinna staðbundnum rannsóknum en nauðsynlegt getur þó verið í einhverjum tilvikum að rannsóknir sem þær stunda nái út fyrir það landsvæði sem viðkomandi náttúrustofa þjónar. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur það hlutverk samkvæmt lögum nr. 60/1992 að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands. Þannig sinnir stofnunin rannsóknum á landinu öllu en líta má á rannsóknir náttúrustofa sem framhald af þeirri starfsemi.
    Í b-lið er mælt fyrir um að náttúrustofur skuli stuðla að æskilegri landnýtingu og náttúruvernd auk þess sem þeim ber að veita fræðslu um umhverfismál og náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga. Sú fræðsla yrði ýmist veitt almenningi, svo sem í skólum, eða einkaaðilum. Þetta hlutverk náttúrustofa er það sama og þær hafa nú, sbr. b- og c-lið 11. gr. laganna.
    Lagt er til í c-lið að náttúrustofa veiti náttúruverndarnefndum á starfssvæði sínu upplýsingar og ráðgjöf á verksviði stofunnar. Hér er um nýmæli að ræða þar sem náttúrustofur hafa ekki haft þetta verkefni áður. Þar sem verkefni þessi geta verið umfangsmikil og tímafrek er lagt til að stjórn náttúrustofu taki ákvörðun um það hverju sinni hvaða verkefni náttúrustofa skuli taka að sér svo að stofurnar geti sinnt því hlutverki sem þeim er falið. Þar sem starfssvæði náttúrustofu kemur fram í samningi og náttúrustofur starfa fyrir þær náttúruverndarnefndir sem eru á viðkomandi svæði er gert ráð fyrir að nefndirnar verði tilgreindar í samningi. Þannig er skýrt fyrir hvaða náttúruverndarnefndir stofurnar starfa. Náttúruverndarnefndir starfa á vegum sveitarfélaga eða héraðsnefnda og eru þær sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál, sbr. 11. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Náttúruverndarnefndir hafa það hlutverk að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir sem gætu haft áhrif á náttúruna og gera tillögur um úrbætur m.a. til sveitarstjórna. Hlutverk náttúrustofa fellur vel að þessu hlutverki náttúruverndarnefnda og gætu því náttúrustofur styrkt starfsemi náttúruverndarnefnda með þeirri sérfræðiþekkingu sem þær búa yfir. Dæmi um verkefni sem náttúrustofur gætu veitt náttúruverndarnefndum er ráðgjöf vegna lögbundins umsagnarhlutverks náttúruverndarnefnda, sbr. 33. gr. og 2. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999. Nái frumvarp þetta fram að ganga mun starfsemi náttúrustofa því styrkja sveitarstjórnarstigið í framkvæmd náttúruverndarmála.
    Í d-lið er náttúrustofum veitt heimild til að veita ráðgjöf, sinna rannsóknum og sjá um vöktun á verksviði sínu að beiðni ýmissa aðila. Um slíkt þarf að gera samning þar sem m.a. yrði kveðið á um gjaldtöku á grundvelli gjaldskrár náttúrustofa. Dæmi um verkefni sem hægt væri að fela náttúrustofum eru rannsóknir og vöktun að beiðni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Slík verkefni væru í beinu framhaldi af verkefnum náttúrustofa samkvæmt a-lið. Vöktun er hluti af starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands og fer vel á því að slík verkefni séu unnin af náttúrustofum vegna nálægðar við verkefnið og þekkingar á viðkomandi svæði.
    Þá er lagt til það nýmæli í e-lið að náttúrustofur annist almennt eftirlit með náttúru landsins, einkum í þeim landshluta sem náttúrustofa þjónar, en dæmi um slíkt eftirlit er umsjón með friðlöndum. Ákvæðið tekur mið af 7. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, en þar segir að Náttúruvernd ríkisins sé heimilt að fela náttúrustofum almennt eftirlit með náttúru landsins og ber að gera um það samning sem ráðherra staðfestir.
    Lagt er til að náttúrustofur skili fyrir lok apríl ár hvert skýrslu um starfsemi sína til ráðherra. Ákvæðið er nýmæli en rétt þykir að náttúrustofur geri árlega grein fyrir starfsemi náttúrustofu vegna líðandi árs þannig að yfirlit fáist um þau störf sem unnin eru á vegum náttúrustofa.

Um 5. gr.

    Greinin kveður á um skipun stjórnar náttúrustofa. Sú breyting er lögð til á 12. gr. laganna að ekki er gert ráð fyrir að ráðherra skipi í stjórn stofnunarinnar heldur skuli það sveitarfélag eða sveitarfélög sem starfrækja náttúrustofu skipa samtals þrjá menn í stjórn náttúrustofa. Stjórn náttúrustofa verður því alfarið á ábyrgð framangreindra aðila.

Um 6. gr.

    Hér er mælt fyrir um heimild til stjórnar náttúrustofu að setja gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf sem óskað er eftir af henni, sbr. d-lið 4. gr. Ekki er gerð krafa um að ráðherra staðfesti þær gjaldskrár sem náttúrustofur gefa út enda starfa náttúrustofur á ábyrgð sveitarfélaganna.

Um 7. gr.

    Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru til samræmis við breytingar skv. 2. gr. og 5. gr. að sveitarfélög eitt eða fleiri beri ábyrgð á rekstri og starfsemi náttúrustofa og að ráðherra skipi ekki lengur í stjórn náttúrustofa.

Um 8. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Ef frumvarp þetta verður að lögum ber ráðherra að gera samning við þau sveitarfélög sem standa að þeim sex náttúrustofum sem nú starfa, enda er framlag ríkissjóðs háð því að fyrir liggi slíkur samningur.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er einkum sá að skýra nánar gjaldtökuheimildir Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofa ásamt því að auka og skilgreina nánar hlutverk náttúrustofa. Í samræmi við það fjallar frumvarpið aðallega um þrennt, í fyrsta lagi um gjaldtökuheimildir Náttúrufræðistofnunar, í öðru lagi um fjármögnun rekstrar náttúrustofa og í þriðja lagi um hlutverk og gjaldtökuheimildir náttúrustofa.
    1. Gildandi lög heimila Náttúrufræðistofnun að vinna rannsóknir gegn greiðslu en mæla ekki fyrir um ákvörðun gjalds fyrir þá vinnu. Á þessu er tekið í 1. gr. frumvarpsins og gjaldtökuheimildir stofnunarinnar þar skýrðar og skilgreindar. Ekki er reiknað með að gjöld stofnunarinnar umfram tekjur breytist að ráði þessa vegna.
    2. Í gildandi lögum er kveðið á um að framlag ríkissjóðs til náttúrustofu takmarkist við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga og bóka- og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum. Í 3. gr. frumvarpsins er framlag ríkissjóðs skilgreint upp á nýtt, þannig: „Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu er ákveðið í fjárlögum hverju sinni og miðast við upphæð sem nemur launum forstöðumanns í fullu starfi að viðbættri upphæð sem er allt að jafnhá þeirri upphæð og rennur hún til reksturs náttúrustofu.“ Í fjárlögum 2001 er fast framlag ríkissjóðs til hverrar náttúrustofu 5,2 m.kr. Sú fjárhæð er þannig til komin að 3,6 m.kr. eru vegna launa forstöðumanns en 1,6 m.kr. vegna stofnkostnaðar. Því má gera ráð fyrir að fast framlag ríkissjóðs vegna hverrar náttúrustofu hækki úr 5,2 m.kr. í 7,2 m.kr., eða um 2,0 m.kr. fyrir hverja stofu, og er þá miðað við óbreytta launaviðmiðun forstöðumanna. Kostnaðaraukning ríkissjóðs miðað við þær sex náttúrustofur sem starfandi eru í dag yrði því 12,0 m.kr. á ári.
    3. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður beri annan kostnað af starfrækslu náttúrustofa en þann sem hér hefur verið gerð grein fyrir, enda yrði eignarhald og rekstur stofanna alfarið á verksviði sveitarfélaga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að kostnaðarauki ríkissjóðs verði 12,0 m.kr. á ári, miðað við núverandi sex náttúrustofur, en 16,0 m.kr. á ári miðað við átta stofur.