Ferill 616. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 987  —  616. mál.




Frumvarp til laga



um erfðaefnisskrá lögreglu.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.


    Ríkislögreglustjóri skal halda rafræna skrá með upplýsingum um erfðaefni einstaklinga og nefnist hún erfðaefnisskrá lögreglu. Tilgangur skrárinnar er að lögregla geti nýtt hana við rannsókn sakamála og til að bera kennsl á ákveðna menn.
    Ríkislögreglustjóri annast skráningu í erfðaefnisskrána og ber ábyrgð á skránni. Hann skal gæta þess að uppfyllt séu ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra um öryggismat, öryggisráðstafanir og innra eftirlit.

2. gr.

    Erfðaefnisskrá skiptist í:
     a.      kennslaskrá, með upplýsingum um erfðagerð einstaklinga sem um getur í 4. gr., og
     b.      sporaskrá, með upplýsingum um erfðaefni sem fundist hafa á brotavettvangi, eða á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti, án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa.

3. gr.

    Í erfðaefnisskrá skal eingöngu færa upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang og erfðagerð einstaklings ásamt vísun til dóms eða málsnúmers óupplýsts sakamáls.
    Þegar erfðaefnisupplýsingar hafa verið unnar úr fyrirliggjandi lífsýni skal eyða sýninu eða fela vörslu þess lífsýnasafni með starfsleyfi samkvæmt lögum um lífsýnasöfn.

4. gr.

    Í kennslaskrá má skrá upplýsingar um erfðagerð þeirra sem:
     a.      hlotið hafa refsidóm fyrir brot á ákvæðum X. kafla, XI. kafla, 108. gr., 164.–166. gr., 170.–171. gr., 194.–196. gr., 1. og 2. mgr. 200. gr., 201.–202. gr., 211. gr., 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 220. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga. Sama gildir um dóm fyrir tilraun og hlutdeild í þeim brotum;
     b.      sýknaðir hafa verið af ákæru um brot gegn þeim lagaákvæðum sem getið er í a-lið, þar með talin tilraunar- og hlutdeildarbrot, vegna skorts á sakhæfi, eða dæmdir hafa verið til að sæta öryggisráðstöfunum skv. VII. kafla almennra hegningarlaga fyrir sömu brot;
     c.      tilgreindir eru í a- og b-lið og afplána refsidóm uppkveðinn fyrir gildistöku laga þessara, sæta öryggisráðstöfunum eða hefur verið veitt reynslulausn og reynslutími er ekki liðinn.
    Ekki má færa í kennslaskrá upplýsingar um önnur tilvik en greinir í 1. mgr. nema það hafi sérstaka þýðingu fyrir notagildi skrárinnar.

5. gr.

    Hafi lífsýni ekki verið tekið úr einstaklingi áður en fullnaðardómur gengur er heimilt að gera það innan sex mánaða frá uppkvaðningu dóms.
    Töku blóðsýnis annast læknir, hjúkrunarfræðingur eða meinatæknir. Dómfellda er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg vegna töku lífsýnis.

6. gr.

    Þegar upplýsingar um einstakling hafa verið skráðar á grundvelli 4. gr. ber ríkislögreglustjóra að tilkynna honum skriflega um skráninguna.

7. gr.

    Upplýsingar sem skráðar hafa verið í kennslaskrá skal afmá:
     a.      eigi síðar en tveimur árum eftir andlát hins skráða,
     b.      þegar hinn skráði hefur verið sýknaður eftir endurupptöku máls,
     c.      þegar ljóst er að þær eru rangar eða hafa verið skráðar án tilskilinnar heimildar.
    Upplýsingar sem skráðar hafa verið í sporaskrá skal afmá:
     a.      þegar kennsl hafa verið borin á þann sem upplýsingarnar stafa frá,
     b.      við fyrningu brots sem um er að ræða.

8. gr.

    Eftirtöldum yfirvöldum má veita aðgang að upplýsingum úr skránni:
     a.      lögreglustjórum, ríkissaksóknara, dómsmálaráðuneytinu,
     b.      erlendum dómstólum og erlendum dómsmálayfirvöldum þegar upplýsingar á að nota við rannsókn eða meðferð sakamáls, enda verði það talið samrýmanlegt íslensku réttarskipulagi,
     c.      rannsóknarstofu sem annast greiningu erfðaefnis samkvæmt þjónustusamningi við dómsmálaráðuneytið, að því marki sem nauðsynlegt er vegna rannsóknar eða meðferðar sakamáls.
    Öðrum en þeim sem getur í 1. mgr. er ekki heimilt að veita aðgang að skránni, sbr. þó 2. mgr. 9. gr.

9. gr.

    Persónuvernd skal hafa eftirlit með því að skráning og meðferð skráðra upplýsinga sé í samræmi við lög þessi og reglur sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Persónuvernd skal einnig hafa eftirlit með því að öryggi skrárinnar sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að henni eða geti haft áhrif á skráningu í hana.
    Persónuvernd hefur aðgang að skráðum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum gögnum til að sinna eftirliti með erfðaefnisskrá.
    Nú gerir Persónuvernd athugasemdir við starfrækslu skrárinnar og skal hún þá koma þeim og tillögum um úrbætur á framfæri við ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið. Að öðru leyti fer um heimildir Persónuverndar samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

10. gr.

    Dómsmálaráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laganna, þar á meðal um færslur í skrána, aðgang að henni og eftirlit.

11. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.
Inngangur.

    Hinn 29. janúar 1999 skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að vinna að undirbúningi reglna um DNA-rannsóknir, nánar tiltekið um sýnatöku, skrásetningu sýna og vörslu þeirra, í þágu rannsóknar sakamála. Formaður nefndarinnar var Ragnheiður Harðardóttir saksóknari, en aðrir nefndarmenn voru Bjarni J. Bogason aðstoðaryfirlögregluþjónn, Gunnlaugur Geirsson prófessor, Haraldur Briem yfirlæknir, Kolbeinn Árnason, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, og Þórir Oddsson vararíkislögreglustjóri. Arnar Þór Jónsson, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu, tók sæti Kolbeins Árnasonar í nefndinni en hann hvarf til annarra starfa. Nefndin kannaði framkvæmd og reglusetningu á þessu sviði á Norðurlöndum og í Bretlandi, auk þess sem hún leitaði upplýsinga hjá fagaðilum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Noregi. Í störfum sínum hafði nefndin hliðsjón af þessum reglum, auk tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins um DNA-rannsóknir í þágu opinberra mála nr. R(92)1 [Recommendation No. R(92)1 of the Committee of Ministers to Member States on the Use of Analysis of Deoxyribonucleic Acid (DNA) within the Framework of the Criminal Justice System].
    Nefndin skilaði skýrslu sinni til dómsmálaráðherra 30. mars 2000 og byggist frumvarp þetta að meginstefnu á tillögum hennar, auk þess sem hliðsjón hefur verið höfð af dönskum lögum um þetta efni.

II.
Tilgangur og markmið.

    Með frumvarpinu er stefnt að því að koma á fót sérstakri lögregluskrá um upplýsingar um erfðaefni í þeim tilgangi að auðvelda lögreglu rannsókn alvarlegra sakamála, svo sem manndráps, nauðgunar, líkamsárásar og misnotkunar gegn börnum, en í slíkum málum skilja brotamenn oft eftir sig líffræðileg spor sem innihalda erfðaefni, tæk til rannsókna.
    Kostir slíkrar skrár eru margvíslegir. Ber þar fyrst að nefna að með aðgengilegum upplýsingum aukast möguleikar rannsóknaraðila til samanburðarrannsókna. Bera má sýni sem finnst á brotavettvangi saman við skrásettar upplýsingar og getur það leitt til þess að maður sem sakfelldur hefur verið fyrir tiltekið brot verður fyrr tengdur nýju broti, eða fyrr hreinsaður af grun um brotið. Mikilvægi slíkra samanburðarrannsókna er ekki síst fólgið í því að hreinsa saklausa menn af grun um afbrot. Þá ber að nefna að með samanburðarrannsóknum sem þessum kann að komast upp um eldra brot, áður óupplýst, við samanburð sýnis af þeim brotavettvangi og sýnis frá manni sem tekið er í þágu rannsóknar nýs brots. Sömuleiðis hefur verið nefnt að aðgangur að skrá um erfðaefni geri lögreglu kleift að bera saman sýni af fleiri en einum brotavettvangi og fá þannig upplýsingar um að brotin séu framin af einum og sama manni, þótt kennsl hafi enn ekki verið borin á hann. Þrátt fyrir að brotamaðurinn sé ókunnur geta slíkar upplýsingar haft mikilvæga þýðingu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins. Að lokum ber að nefna að skráning upplýsinga um erfðaefni getur haft sérstök varnaðaráhrif. Brotamaður sem veit að upplýsingar um erfðaefni hans eru skráðar kann að halda sig frá afbrotum sem hann hefði annars framið, af ótta við að upp um hann komist.

III.
Um DNA-kennslagreiningu.

    Deoxyribonucleinsýra (DNA) er efnasamband í frumukjörnum, tengt við eggjahvítu og skipað í raðir sem eru í eðli sínu mjög flóknar og tilbrigðaríkar að gerð. Í gerð þeirra felst mótið að myndgerð líkama manna og dýra og hefur það því verið nefnt „erfðaefnið“. Á sama hátt og hver og einn er sérstakur að útliti er erfðaefni í hverjum og einum sérstakt, með þeirri einu undantekningu þegar eineggja tvíburar eiga í hlut.
    Með nútímatækni hefur reynst kleift að myndgreina efnið á þann hátt að nýta sér hina sérstöku byggingu hjá hverjum og einum og sjá þannig sérkenni manns. Kallast það „DNA- prófíll“ eða „DNA-snið“. Þessi tæknivísindi, ásamt nútímaerfðafræði, eru undirstaða þess að beita DNA-rannsóknaraðferðinni í þágu réttvísinnar. Kemur þar fyrst og fremst til það sem nefna má kennslagreiningu með DNA-rannsóknaraðferðum. Í þeim tilvikum sem rannsókn á brotavettvangi leiðir í ljós að sá er brotið framdi hefur skilið eftir sig lífsýni sem hefur að geyma erfðaefni hans, má taka það til rannsókna. Vegna nákvæmni rannsóknaraðferðanna má nú greina með þessum hætti lífsýni, svo sem fingraför, munnvatn, saur, blóð, sæði og hár.

IV.
Gildandi lagaheimildir til töku lífsýna.

    Kennslagreining á erfðaefni verður ekki framkvæmd nema fyrir liggi lífsýni úr einstaklingi. Með lífsýni í þessum lögum er átt við blóð, sæði, munnvatn, húð- og vefjahluta, hár, þvag, skaf undan nöglum og bletti eða flekki af lífrænum toga. Um heimildir lögreglu til töku sýna til notkunar við kennslagreiningu erfðaefnis eru ákvæði í 92. og 93. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, sem fjalla um leit og líkamsrannsókn. Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. má leita á sakborningi ef nauðsynlegt þykir til að taka af honum gögn eða muni sem hald skal leggja á. Leiki grunur á að maður feli innvortis muni eða efni sem hald skal leggja á er heimilt að framkvæma leit að fengnu áliti læknis. Þá má taka blóð- og þvagsýni úr sakborningi og framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn í þágu rannsóknar sem gerð verður á honum að meinalausu. Enn fremur má taka af honum fingraför og myndir í þágu rannsóknar. Í 2. mgr. segir að leita megi á öðrum en sakborningi ef ástæða er til að ætla að hann hafi á sér gögn eða muni sem hald skuli leggja á. Í 93. gr. segir svo að leit og rannsókn skv. 92. gr. skuli ákveðin í úrskurði dómara nema sá sem í hlut eigi samþykki hana en rannsóknara er þó rétt að leita án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum.
    Samkvæmt 92. gr. laga um meðferð opinberra mála er heimilt að taka sýni úr sakborningi og einskorðast sú heimild við sakborning. Á það ber þó að líta að tíðkast hefur hér á landi að taka sýni úr öðrum en sakborningi ef ótvírætt samþykki hefur legið fyrir og má í því sambandi nefna í dæmaskyni Hrd. 1991:264. Liggi samþykki á hinn bóginn ekki fyrir verður viðkomandi ekki þvingaður til að láta í té lífsýni á grundvelli dómsúrskurðar. Lagafrumvarp þetta haggar á engan hátt við þessari réttarstöðu annarra en sakborninga.

V.
Grundvöllur skráningar.

    Gert er ráð fyrir að skrá sú sem lagt er til að sett verði á fót hafi að geyma tvenns konar upplýsingar. Þessar upplýsingar eru annars vegar um erfðaefni einstaklinga sem hafa hlotið dóm fyrir tiltekin afbrot eða tilgreindar aðrar ástæður eiga við um og hins vegar um erfðaefni sem fengin eru úr lífsýnum á brotavettvangi án þess að vitað sé frá hverjum þau stafa. Fyrrnefndi hluti skrárinnar kallast kennslaskrá, af þeirri ástæðu að þar er að finna upplýsingar um erfðaefni sem kennsl hafa verið borin á og vitað er frá hverjum stafa. Síðarnefndi hluti skrárinnar kallast sporaskrá því hann inniheldur upplýsingar um þau líffræðilegu spor sem skilin hafa verið eftir á brotavettvangi án þess að vitað sé hverjum þau tilheyra.
    Lagt er til að í kennslaskrá verði heimilt að skrá upplýsingar um erfðagerð einstaklinga sem sakfelldir hafa verið fyrir brot eða tilraun til brots gegn nánar tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga. Einnig er lagt til að heimilt verði að skrá upplýsingar um þá sem sýknaðir hafa verið af brotum gegn nefndum ákvæðum vegna skorts á sakhæfi og þá sem hafa verið dæmdir til að sæta öryggisráðstöfun samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga.
    Við ákvörðun um það hvaða ákvæði almennra hegningarlaga gætu orðið grundvöllur skráningar er horft til tilgangs skrárinnar sem er að vera hjálpartæki lögreglu við að upplýsa alvarleg brot í þeim tilvikum sem brotamenn skilja eftir sig líffræðileg ummerki. Þeir brotaflokkar sem þannig er ástatt um eru helst manndráp, líkamsmeiðingar og kynferðisbrot. Þá er einnig talið rétt að landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess auk nokkurra almannahættubrota verði einnig skráð vegna alvarleika slíkra brota.
    Eingöngu er heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni manna sem hafa verið fundnir sekir um brot með dómi eða dæmdir ósakhæfir. Samkvæmt dönsku lögunum um skráningu erfðaefnis er heimilt að skrá upplýsingar um erfðaefni manna sem hafa verið grunaðir um afbrot en verið sýknaðir fyrir dómi. Í breskum rétti er heimilt að færa í sambærilega skrá upplýsingar um þá sem eru grunaðir, en sönnunarreglur eru þó með því sniði að ef máli lýkur með sýknudómi eða niðurfellingu máls er óheimilt að vitna til upplýsinga fenginna við rannsókn þess máls við sönnunarfærslu í máli sem síðar kann að verða höfðað á hendur viðkomandi. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er heimilt að skrá grunaða menn sem ekki hafa komist undir manna hendur.
    Í frumvarpinu þykir ekki ráðlegt að ganga jafnlangt og tíðkast í nefndum ríkjum. Því er lagt til að eingöngu verði heimilt að skrá upplýsingar um þá einstaklinga sem sakfelldir hafa verið með dómi eða verið sýknaðir vegna sakhæfisskorts.

VI.
Um persónuvernd.

    Vegna þess eðlis erfðaefnis að geyma mótið að myndgerð líkama manna dylst engum að hér er um að ræða upplýsingar sem eru mjög persónulegar og viðkvæmar. Samkvæmt tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(97)5 frá 13. febrúar 1997 um verndun heilsufarsupplýsinga teljast sýni, sem innihalda mannsfrumur eða hluta úr þeim með kjarnasýrum og notuð eru til rannsókna á erfðaefni, til sérstaklega viðkvæmra persónuupplýsinga.
    Í frumvarpi þessu eru gerðar strangar kröfur til skráningar og varðveislu upplýsinga um erfðaefni. Einnig er gert ráð fyrir að aðgangur að þessum upplýsingum verði mjög takmarkaður. Persónuvernd er falið að hafa eftirlit með því að skráning og meðferð skráðra upplýsinga sé í samræmi við gildandi lög og einnig að hafa eftirlit með því að óviðkomandi fái ekki aðgang að skránni eða geti haft áhrif á skráningu í hana. Að öðru leyti gilda lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, um skráningu og meðferð upplýsinga um erfðaefni samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að komið verði á fót sérstakri rafrænni lögregluskrá sem inniheldur upplýsingar um erfðaefni ákveðinna einstaklinga. Skráin er eingöngu ætluð til nota lögreglu við rannsókn sakamála, þó með þeim þröngu undantekningum sem getur í 8. gr. Notkun skrárinnar felst í því að erfðaupplýsingar úr lífsýnum eru bornar saman við þær upplýsingar sem eru í skránni. Komi í ljós svörun við þær upplýsingar sem fyrir eru í kennslaskrá hafa kennsl verið borin á þann sem sýnið stafar frá. Komi hins vegar fram svörun við upplýsingar sem skráðar eru í sporaskrá eru líkindi fyrir að sami einstaklingur hafi orðið uppvís að því að hafa framið annað brot.
    Ríkislögreglustjóra er ætlað að halda skrána og annast skráningu í hana. Hann ber jafnframt ábyrgð á skránni í samræmi við 11. og 12. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000.

Um 2. gr.

    Erfðaefnisskránni er ætlað að vera skipt í tvo hluta, kennslaskrá og sporaskrá. Í kennslaskrá verði skráðar upplýsingar um erfðagerð manna sem sakfelldir hafa verið fyrir brot á þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem getið er í 4. gr. frumvarpsins eða verið sýknaðir vegna sakhæfisskorts. Í sporaskrá verði skráðar upplýsingar um erfðaefni sem finnst á brotavettvangi og á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti, án þess að vitað sé frá hverjum erfðaefnið stafar. Ekki er í þeim tilfellum gerð krafa um vissan alvarleika brots til að heimila skráningu erfðaefnisupplýsinga og eru því mun rýmri heimildir til skráningar í sporaskrá en kennslaskrá. Þó er gert ráð fyrir að erfðaefnisupplýsingar verði að jafnaði ekki skráðar í sporaskrá nema grunur leiki á um að brotið hafi verið gegn þeim ákvæðum sem getið er í 4. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. eru tæmandi taldar þær upplýsingar sem skráðar verða í erfðaefnisskrá lögreglu. Í kennslaskrá verður heimilt að skrá nafn, kennitölu, heimilisfang og erfðagerð dómfellds einstaklings ásamt tilvísun til dómsins. Í sporaskrá verða skráðar erfðaefnisupplýsingar sem unnar hafa verið úr lífsýnum sem finnast á brotavettvangi eða á mönnum eða munum sem ætlað er að tengist broti.
    Samkvæmt 2. mgr. skal, þegar erfðaefnisupplýsingar hafa verið unnar úr lífsýni, eyða lífsýninu eða fela vörslu þess lífsýnasafni með starfsleyfi samkvæmt lögum um lífsýnasöfn, nr. 110/2000.

Um 4. gr.

    Hér er fjallað um hvaða upplýsingar er heimilt að skrá í kennslaskrá.
    Samkvæmt a-lið er heimilt að skrá upplýsingar um erfðagerð þeirra sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn eftirfarandi köflum og ákvæðum almennra hegningarlaga: X. kafla um landráð, XI. kafla um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, 108. gr. um ofbeldisbrot, nauðung eða hótun gegn vitnum, 164.–166. gr. og 170.–171. gr., sem öll eru almannahættubrot, 194.–196. gr., 1. og 2. mgr. 200. gr., 201.–202. gr., sem öll eru kynferðisbrot, 211. gr. um manndráp, 2. mgr. 218. gr. um stórfellt líkamstjón, 1. mgr. 220. gr. um að veita ekki aðstoð í nauð og 252. gr. um rán. Þá er einnig heimilt að skrá upplýsingar um þá sem gerast sekir um tilraun eða hlutdeild í áðurgreindum brotum. Tekið skal fram að brot framin af gáleysi geta aldrei verið grundvöllur skráningar.
    Samkvæmt b-lið er heimilt að skrá upplýsingar um erfðagerð þeirra sem hafa verið sýknaðir af ákæru um þau brot sem greinir í a-lið vegna sakhæfisskorts eða hafa verið dæmdir til að sæta öryggisráðstöfun.
    Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að skrá upplýsingar um þá sem afplána dóm kveðinn upp fyrir gildistöku laga þessara, sæta öryggisráðstöfunum eða hefur verið veitt reynslulausn og reynslutími ekki liðinn.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að aðrar upplýsingar en greinir í 1. mgr. verði ekki skráðar nema þær hafi sérstaka þýðingu fyrir notagildi skrárinnar. Þetta felur í sér þrönga undantekningarheimild sem ekki verður notuð nema brýn ástæða sé til. Hér er fyrst og fremst um að ræða brot sem eru alvarlegs eðlis og þung refsing liggur við. Sem dæmi um slík brot mætti nefna þjófnaðarbrot sem væri sérstaklega stórfellt vegna aðferðarinnar sem höfð var við þjófnaðinn eða sérstaklega vítaverð brot gegn þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem hafa í för með sér almannahættu en er ekki getið í 4. gr. Ákvörðun um slíka skráningu er kæranleg á sama hátt og önnur skráning á grundvelli laganna eftir almennum reglum stjórnsýsluréttarins.
    

Um 5. gr.

    Í ákvæðinu er að finna heimild til að taka lífsýni úr einstaklingi eftir að endanlegur dómur gengur ef það hefur ekki verið gert fyrir þann tíma. Taka sýnis skal fara fram innan sex mánaða frá uppkvaðningu fullnaðardóms. Miðað er við að taka blóðsýnis fari fram af lækni, hjúkrunarfræðingi eða meinatækni en lögreglu er heimilt að annast töku munnvatnssýnis. Dómfellda er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við töku lífsýnis.

Um 6. gr.

    Hér er sú skylda lögð á ríkislögreglustjóra að tilkynna skráðum einstaklingi um skráninguna. Almennar reglur stjórnsýsluréttarins gilda um slíka tilkynningu og um rétt til að kæra slíka ákvörðun til æðra stjórnvalds.

Um 7. gr.

    Grein þessi fjallar um það hvenær upplýsingar verða máðar úr skránni. Mismunandi reglur gilda hér um sporaskrá og kennslaskrá.
    Upplýsingar skulu máðar úr kennslaskrá eigi síðar en tveimur árum eftir andlát hins skráða. Þegar hinn skráði hefur verið sýknaður eftir endurupptöku máls ber að afmá skráðar upplýsingar vegna fyrri dóms að sýknudómi gengnum. Ekki er í ákvæðinu talað um tímafrest í þessu sambandi en miða skal við að upplýsingarnar verði afmáðar eins fljótt og kostur er eftir uppkvaðningu sýknudóms. Þá skal einnig afmá upplýsingar úr kennslaskrá þegar ljóst er að skráðar upplýsingar eru rangar eða hafa verið færðar í skrána án tilskilinnar heimildar. Eðlilegt er að sá sem skráir upplýsingar sem svo er ástatt um geti að eigin frumkvæði máð þær úr skránni.
    Úr sporaskrá skal afmá upplýsingar þegar kennsl hafa verið borin á þann sem upplýsingarnar stafa frá. Þetta leiðir af eðli máls þar sem upplýsingarnar eiga ekki heima í sporaskrá þegar kennsl hafa verið borin á þær. Þá skal einnig afmá skráðar upplýsingar við fyrningu brots. Eðlilegt er að upplýsingar verði máðar úr sporaskrá við þær aðstæður þar sem þær hafa ekki þýðingu fyrir rannsókn og meðferð máls eftir þann tíma.

Um 8. gr.

    Ríkislögreglustjóri annast skráningu upplýsinga og hefur aðgang að skránni, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegt er þó, þegar tillit er tekið til tilgangs og hagnýts gildis skrárinnar, að tiltekin stjórnvöld, svo og erlend yfirvöld, hafi aðgang að upplýsingum úr henni. Gert er ráð fyrir að slíkur aðgangur verði veittur eftir beiðni til ríkislögreglustjóra.
    Í a-lið er lögreglustjórum, ríkissaksóknara og dómsmálaráðuneytinu veittur aðgangur að skránni. Aðgangur lögreglu yrði einkum í tengslum við rannsókn sakamáls og aðgangur ríkissaksóknara vegna saksóknar máls. Aðgangur dómsmálaráðuneytisins að upplýsingum úr skránni væri einkum nauðsynlegur þegar það fengi kærumál vegna óréttmætrar skráningar til meðferðar.
    Í b-lið er erlendum dómstólum og dómsmálayfirvöldum heimilaður aðgangur að upplýsingum úr skránni. Við mat á því hvort fallast beri á slíka beiðni verður að líta til þess hvort um er að ræða réttarsamvinnu við viðkomandi ríki og hvort slík upplýsingagjöf samrýmist hagsmunum landsins og sé ekki andstæð íslensku réttarskipulagi.
    Í c-lið er rannsóknarstofu þeirri sem annast greiningu erfðaefnis veitt heimild til aðgangs að upplýsingum úr skránni. Slíkur aðgangur takmarkast við rannsókn eða meðferð sakamáls.
    Í 2. mgr. er áréttað að í greininni sé tæmandi talið hverjum megi heimila aðgang að skránni.
    

Um 9. gr.

    Í greininni er lagt til að Persónuvernd skuli annast eftirlit með skránni. Í því eftirliti felst að gæta þess að skráning og meðferð upplýsinga sé í samræmi við það sem mælt er fyrir um í frumvarpinu. Í þeim efnum koma einnig til álita reglur laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, og meginreglur laga um friðhelgi einkalífs. Þá er jafnframt lagt til að Persónuvernd hafi eftirlit með því að öryggi skrárinnar sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að henni eða geti haft áhrif á skráningu upplýsinga í hana. Þetta eftirlit er til viðbótar innra eftirliti ríkislögreglustjóra sem hann fer með sem ábyrgðaraðili kerfisins samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í 10. gr. er svo gert ráð fyrir að nánari ákvæði verði í reglugerð um eftirlit Persónuverndar með skránni.
    Það eftirlit sem lagt er til að Persónuvernd hafi með höndum er almennt. Í því felst ekki heimild til að hnekkja ákvörðunum ríkislögreglustjóra um skráningu eða gefa honum bein fyrirmæli heldur eingöngu að koma á framfæri athugasemdum og eftir atvikum tillögum til úrbóta.
    

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að nánari ákvæði um framkvæmd laganna verði sett í reglugerð. Í ákvæðinu er sérstaklega gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um færslur í skrána, aðgang að henni og eftirlit.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um erfðaefnisskrá lögreglu.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að á vegum ríkislögreglustjóra verði komið á fót skrám með upplýsingum um erfðaefni einstaklinga. Annars vegar verði um að ræða svokallaða kennslaskrá um erfðaefni manna sem hlotið hafa dóm fyrir brot gegn tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga eða hafa verið sýknaðir á grundvelli sakhæfisskorts. Hins vegar verði um að ræða svokallaða sporaskrá um DNA-upplýsingar úr lífsýnum sem fundist hafa á vettvangi afbrota eða á brotaþola. Reiknað er með því að sýnataka aukist við það að skráningin verði færð í skipulegt horf. Hér á landi hafa árlega verið tekin á rannsóknarstigi mála um 10 sýni af þeim toga sem færð yrðu í kennslaskrá. Miðað við undanfarin ár má áætla að tekin verði lífsýni úr um 50 sakfelldum mönnum til viðbótar að meðaltali á ári og að viðbótarkostnaður við það gæti þá numið um 1,5 m.kr. þar sem greiddar eru um 30 þús. kr. til Rannsóknastofu Háskóla Íslands fyrir hvert sýni. Erfiðara er að áætla umfang skráningar í sporaskrá þar sem slík sýni geta verið af margvíslegum toga. Þó er gert ráð fyrir að einungis verði um að ræða skráningu í þeim tilvikum þegar grunur leikur á því að brotið hafi verið gegn þeim ákvæðum hegningarlaga sem eru grundvöllur skráningar í kennslaskrá. Undanfarin ár hafa um 10 lífsýni af þessum toga verið send árlega í DNA-greiningu en talið er að með tilkomu skrárinnar kunni slíkum greiningum að fjölga um u.þ.b. 40 á ári. Árlegur viðbótarkostnaður gæti þá numið um 3,2 m.kr. þar sem meðalkostnaður við þessi sýni er um 80 þús. kr. Í fjárlögum færist sá kostnaður á lið fyrir opinberan málskostnað hjá dómsmálaráðuneytinu. Íslenskum stjórnvöldum stendur til boða að fá sérstakan gagnagrunn fyrir erfðaefnisskrárnar endurgjaldslaust á grundvelli samkomulags við bandarísku alríkislögregluna (FBI). Gert er ráð fyrir að stofnkostnaður hjá embætti ríkislögreglustjóra vegna kaupa á vélbúnaði fyrir gagnagrunninn og uppsetningar á honum gæti numið um 0,7 m.kr. Samtals er því áætlað að útgjöld ríkissjóðs aukist um 5,4 m.kr. verði frumvarpið að lögum.