Ferill 626. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1001  —  626. mál.




Frumvarp til laga



um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



1. gr.

    Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps er heimilt að selja ábúendum kristfjárjarðirnar Arnheiðarstaði og Droplaugarstaði í Fljótsdalshreppi.
    Verð jarðanna, mannvirkja og ræktunar á þeim fer eftir því sem um semst, en ella skal það ákveðið af dómkvöddum matsmönnum.
    Andvirði jarðanna skal varið til félagslegra framkvæmda í hreppnum. Ráðstöfun söluandvirðis skal háð samþykki félagsmálaráðuneytisins og vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra. Tilurð þeirra er sú að þær voru gefnar í því skyni að fátæklingar í viðkomandi hreppi mættu njóta afgjalds eftir þær um aldur og ævi. Upphaflega voru þessar jarðir í umsjá kirkjunnar en frá því á 19. öld hafa kirkjuleg yfirvöld almennt haft lítil afskipti af þeim. Hefur umsýsla kristfjárjarða frá þeim tíma almennt verið í höndum viðkomandi sveitarstjórna og hefur afgjald þeirra a.m.k. stundum runnið í sveitarsjóð. Þetta á meðal annars við um jörðina Arnheiðarstaði sem hefur verið talin kristfjárjörð svo langt aftur sem skriflegar heimildir ná, en gjafabréf jarðarinnar er löngu týnt. Jörðin Droplaugarstaðir er byggð út úr Arnheiðarstöðum árið 1943 eða 1944.
    Afla verður sérstakrar lagaheimildar til sölu kristfjárjarða þar sem þær eru eigin eign. Hefur Alþingi ávallt sett það skilyrði að söluandvirði verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafarinnar. Varðandi þær tvær kristfjárjarðir sem frumvarp þetta varðar var slík lagaheimild veitt með lögum nr. 20/1953 þar sem hreppsnefnd Fljótsdalshrepps var heimilað að selja kristfjárjarðir hreppsins. Heimildin var tímabundin, gilti einungis til ársloka 1954, og neytti hreppsnefnd eingöngu heimildar til að selja jörðina Geitagerði innan tímafrestsins. Því verður að afla heimildar Alþingis að nýju vegna þeirra jarða sem frumvarp þetta varðar.
    Hvað varðar ráðstöfun jarðanna er lagt til í frumvarpinu að heimild verði einungis veitt til þess að selja ábúendum jarðirnar. Á báðum jörðum eiga ábúendur nánast allar byggingar og stærstan hluta ræktaðs lands. Á Arnheiðarstöðum er stundaður sauðfjárbúskapur en á Droplaugarstöðum eru uppi hugmyndir um uppbyggingu á sviði ferðaþjónustu. Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu og er það lagt fram að beiðni hreppsnefndar Fljótsdalshrepps. Telur hreppsnefnd það þjóna best hagsmunum íbúa hreppsins að búskap verði haldið áfram á jörðunum og að það verði best tryggt með því að selja ábúendum jarðirnar.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um sölu kristfjárjarðanna
Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi.

    Með frumvarpi þessu er óskað eftir að hreppsnefnd Fljótsdalshrepps fái heimild til að selja kristfjárjarðirnar Arnheiðarstaði og Droplaugarstaði í Fljótsdalshreppi ábúendum þeirra. Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra og hefur umsýsla þeirra verið um langt skeið í höndum viðkomandi sveitarstjórna. Alþingi hefur ávallt sett það skilyrði fyrir sölu kristfjárjarða að söluandvirði þeirra verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafa. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að söluandvirði jarðanna skuli vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa og verði ráðstafað með samþykki félagsmálaráðuneytis til félagslegra framkvæmda í hreppnum. Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.