Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1011  —  634. mál.




Frumvarp til laga



um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um fólksflutninga á landi í atvinnuskyni með bifreiðum sem skráðar eru fyrir níu farþega eða fleiri, sbr. þó 8. og 10. gr., og vöruflutninga og efnisflutninga á landi í atvinnuskyni með ökutækjum, hvort sem um eitt ökutæki eða samtengd ökutæki er að ræða. Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæðum þessara laga fyrir tiltekna vöruflutninga og fyrir ákveðnar tegundir ökutækja eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.

2. gr.
Yfirstjórn.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga og almenningssamgangna samkvæmt lögum þessum. Vegagerðin fer með framkvæmd laga þessara og stjórnvaldsreglna settra samkvæmt þeim.

II. KAFLI
Orðskýringar.
3. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     a.      Almennt rekstrarleyfi: Leyfi skv. 4. gr. sem allir sem stunda fólksflutninga, vöruflutninga og/eða efnisflutninga gegn gjaldi þurfa að hafa.
     b.      Sérleyfi: Leyfi sem veitt er til reglubundinna fólksflutninga og er aðgangur annarra takmarkaður á sérleyfisleið.
     c.      Einkaleyfi: Sérleyfi sveitarfélags til reglubundinna fólksflutninga innan lögsagnarumdæmis þess.
     d.      Reglubundnir fólksflutningar: Fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrir fram birtri áætlun þar sem farþegar eru teknir upp og settir af á leiðinni. Þjónustan er öllum opin, þ.e. almenningssamgöngur.
     e.      Sérstakir reglubundnir fólksflutningar: Reglubundnir flutningar á ákveðnum hópi farþega og aðrir farþegar eru útilokaðir.
     f.      Óreglubundnir fólksflutningar: Aðrir fólksflutningar en þeir sem tilgreindir eru í d- og e-lið. Með óreglubundnum flutningum er að jafnaði átt við flutning á hópi fólks sem orðið hefur til fyrir frumkvæði viðskiptavinar eða leyfishafans sjálfs. Slíkar ferðir geta verið farnar með reglulegu millibili án þess að teljast reglubundnir flutningar.
     g.      Fólksflutningar í atvinnuskyni: Flutningur fólks gegn gjaldi, þar sem farþeginn er ekki tengdur rekstri fyrirtækisins sem sér um flutninginn.
     h.      Fólksflutningar í eigin þágu: Flutningur fólks, þar sem ekki er innheimt gjald fyrir. Sem dæmi má nefna flutning starfsfólks til og frá vinnustað eða á milli vinnustaða ef fólksflutningabifreiðin er í eigu vinnuveitanda og ökumaður er starfsmaður hans. Flutningur sjúklinga og vistmanna heilbrigðisstofnana, enda sé bifreiðin í eigu stofnunarinnar og ökumaður starfsmaður hennar.
     i.      Vöruflutningar og efnisflutningar í atvinnuskyni: Flutningur á vöru eða efni gegn gjaldi, þar sem rekstraraðili bifreiðar er hvorki eigandi, leigjandi, seljandi né kaupandi vörunnar/efnisins sem flutt er eða varan/efnið á annan hátt beint tengd starfsemi hans. Með efnisflutningi er átt við flutning á jarðefnum, svo sem möl eða sandi.
     j.      Vöruflutningar og efnisflutningar í eigin þágu: Flutningur vöru/efnis sem er í eigu skráðs eiganda eða umráðamanns ökutækis sem flutt er með eða flutningur á vörum/efni sem hann hefur á leigu eða að láni, hefur í útleigu eða til láns eða hefur í vörslum sínum í því skyni að kaupa, selja, framleiða, umbreyta eða til viðgerðar eða í öðrum sambærilegum tilgangi. Ef um fyrirtæki er að ræða telst flutningur því aðeins í eigin þágu að flutningurinn sé lítill hluti af starfsemi viðkomandi fyrirtækis og ökumaður sé starfsmaður þess.

III. KAFLI
Leyfisveitingar.
4. gr.
Almennt rekstrarleyfi.

    Almennt rekstrarleyfi Vegagerðarinnar þarf til að stunda fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum þessum. Leyfið skal gilda í fimm ár og vera óframseljanlegt. Vegagerðinni er heimilt að gera mismunandi kröfur til útgáfu mismunandi leyfa eftir því sem eðli starfseminnar gefur tilefni til.
    Ekkert leyfi þarf til flutnings í eigin þágu. Samgönguráðherra getur með reglugerð sett nánari skilyrði um veitingu leyfa.


5. gr.
Skilyrði leyfis.

    Þeir einir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum geta öðlast rekstrarleyfi skv. 4. gr. laga þessara:
     1.      Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
     2.      Fullnægja skilyrðum um starfshæfni eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.
     3.      Hafa ekki verið dæmdir til refsivistar eða framið alvarleg eða ítrekuð brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum.
    Skilyrðum skv. 1. mgr. verður leyfishafi einnig að fullnægja á leyfistímanum.

6. gr.
Sérleyfi.

    Hlutverk reglubundinna fólksflutninga er að sjá almenningi fyrir samgöngum með fólksflutningabifreiðum. Vegagerðin hefur umsjón með skipulagi almenningssamgangna með bifreiðum.
    Vegagerðin getur takmarkað fjölda aðila í reglubundnum fólksflutningum á einstökum leiðum með því að veita sérleyfi á þeim leiðum. Öðrum en sérleyfishafa er óheimilt að stunda reglubundna fólksflutninga á sérleyfisleið. Við veitingu sérleyfis skal gerður sérstakur þjónustusamningur þar sem þau skilyrði koma fram sem Vegagerðin setur, svo sem um ferðatíðni, ferðaleiðir, viðkomustaði, leyfilegar bifreiðar, umhverfisstuðla, gildistíma, uppsögn og greiðslu. Nánari útfærsla á þjónustusamningi skal tilgreind í reglugerð. Takist ekki slíkur samningur á milli aðila skal Vegagerðin efna til útboðs, eftir atvikum í samstarfi við aðra aðila sem stunda fólksflutninga, svo sem skólaakstur. Vegagerðin getur, séu fyrir því veigamikil rök, efnt til útboðs án undangenginnar tilraunar til þjónustusamnings fyrir 1. ágúst 2005.
    Óheimilt er að framselja sérleyfi nema með samþykki Vegagerðarinnar.
    Sérleyfishafa er, með samþykki Vegagerðarinnar, heimilt að nota bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega við akstur á sérleyfisleið.
    Vegagerðin getur sagt upp samningnum á leyfistímanum vegna skipulagsbreytinga innan ákveðinna svæða sem viðkomandi sveitarfélög standa sameiginlega að. Slíkur uppsagnarfrestur skal ekki vera skemmri en tvö ár. Segi sérleyfishafi upp samningnum eða brjóti gegn ákvæðum 14. gr. á leyfistímanum skal Vegagerðin efna til útboðs.

7. gr.
Einkaleyfi.

    Vegagerðin getur veitt sveitarfélögum eða byggðasamlögum einkaleyfi til að skipuleggja og sjá um almenningssamgöngur með bifreiðum innan sveitarfélags. Einkaleyfishafi getur falið öðrum tímabundið að annast reglubundna fólksflutninga samkvæmt einkaleyfi.
    Öðrum en einkaleyfishafa er óheimilt nema með samþykki hans að flytja um einkaleyfissvæðið aðra farþega en þá sem teknir eru upp utan þess og þá sem teknir eru upp innan svæðisins til flutnings út fyrir það. Vegagerðinni er heimilt að binda einkaleyfi þeim skilyrðum er þurfa þykir. Vegagerðin getur sagt upp einkaleyfi vegna skipulagsbreytinga á almenningssamgöngum.
    Þeir aðilar sem stunda reglubundna flutninga samkvæmt einkaleyfi skulu í einu og öllu uppfylla skilyrði þessara laga, þar á meðal að hafa almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. og fullnægja gæða- og tæknikröfum Vegagerðarinnar.

8. gr.
Sérstakir reglubundnir fólksflutningar.

    Þrátt fyrir ákvæði 6. og 7. gr. er öðrum en sérleyfishafa heimilt að stunda sérstaka reglubundna flutninga, enda hafi viðkomandi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. Til sérstakra reglubundinna flutninga teljast flutningar starfsfólks til og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda séu þeir ekki stundaðir í eigin þágu, sbr. skilgreiningu í h-lið 3. gr., og akstur skólanemenda. Flutningsaðili þarf að uppfylla skilyrði laganna og þær gæða- og tæknikröfur sem Vegagerðin setur.

9. gr.
Almenn ákvæði um leyfishafa.

    Leyfi samkvæmt lögum þessum má veita einstaklingum, hlutafélögum, einkahlutafélögum eða sameignarfélögum, enda uppfylli leyfishafinn skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. Ef leyfishafinn er einstaklingur skal hann jafnframt uppfylla 2. og 3. tölul. 5. gr.
    Ef leyfishafinn er félag skal starfa hjá því forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum. Hann skal uppfylla skilyrði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 5. gr.
    Heimilt er að kæra ákvarðanir Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum til samgönguráðuneytis.

10. gr.
Akstur sérútbúinna bifreiða.

    Vegagerðin skal veita leyfi til reksturs sérútbúinna bifreiða, t.d. til fjallaferða, enda þótt slíkar bifreiðar rúmi færri farþega en níu. Skilyrði slíks leyfis er að það sé notað í tengslum við þjónustu við ferðamenn og að umsækjandi hafi almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr.

11. gr.
Fólks-, vöru- og efnisflutningar innan
Evrópska efnahagssvæðisins.

    Þeir sem hafa almennt leyfi skv. 4. gr. geta sótt um leyfi til Vegagerðarinnar til að stunda fólks-, vöru- og efnisflutninga á milli ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða innan lands í þeim ríkjum. Vegagerðin veitir slík leyfi á grundvelli reglna sem um slík leyfi gilda. Sama gildir um leyfi sem veitt eru á grundvelli samninga við lönd utan Evrópska efnahagssvæðisins.

IV. KAFLI
Rekstrarleyfi og gjöld.

12. gr.
Gæða- og tæknikröfur.

    Bifreið, sem notuð er til fólksflutninga samkvæmt lögum þessum, skal uppfylla gæða- og tæknikröfur Vegagerðarinnar og hana má eingöngu nota til slíkra flutninga meðan leyfið gildir, sbr. þó 10. gr. Þó er heimilt að flytja frakt í þar til gerðu rými, enda uppfylli bifreiðin að öðru leyti skilyrði fólksflutningabifreiðar.
    Framangreindar kröfur Vegagerðarinnar skulu staðfestar af ráðherra.
    Vegagerðinni er heimilt að takmarka notkun strætisvagna utan þéttbýlis, sbr. skilgreiningu í reglugerð nr. 411/1993, um gerð og búnað ökutækja.
    Vegagerðinni er heimilt að gera sérkröfur til bifreiða sem notaðar eru til flutnings skólabarna.

13. gr.
Eftirlit og leyfisgjöld.

    Greiða skal fyrir útgáfu leyfa.
    Fyrir rekstrarleyfi skv. 4. gr. skal greiða eftirfarandi árlegt gjald:
     1.      Fyrir sendibíla 5.000 kr.
     2.      Fyrir önnur rekstrarleyfi 10.000 kr.
    Fyrir sérleyfi og einkaleyfi skal greiða 20.000 kr. á ári.
    Fyrir sérútbúnar bifreiðar skv. 10. gr. skal greiða 4.000 kr. á ári.
    Halda skal tekjum og gjöldum vegna framangreindra leyfa aðskildum í bókhaldi.
    Framangreind gjöld skulu renna til Vegagerðarinnar og standa undir eftirliti og leyfisveitingum samkvæmt lögum þessum. Vegagerðinni er heimilt að fela þriðja aðila þetta eftirlit.

14. gr.
Rekstrarstöðvun.

    Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt lögum þessum án þess að hafa til þess tilskilin leyfi er Vegagerðinni heimilt að stöðva starfsemina og bifreiðar þegar í stað þar til leyfi hefur verið fengið.

15. gr.
Refsingar. Svipting leyfis.

    Brot gegn lögum þessum og reglugerðum er settar kunna að verða samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála. Sektir allt að 100.000 krónum fyrir brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem ráðherra setur. Þar skal tilgreint hvaða tegunda brota hún tekur til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.
    Við alvarleg eða ítrekuð brot er Vegagerðinni heimilt að svipta viðkomandi leyfum er honum hafa verið veitt samkvæmt lögum þessum. Slík svipting tekur gildi þegar í stað og gildir þar til úrlausn hefur fengist í málinu skv. 1. mgr.
    Sama gildir um skilyrði leyfis eins og þau eru tilgreind í leyfisbréfi.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Reglugerð.

    Samgönguráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um einstök ákvæði í lögum þessum.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum vegna skuldbindinga er leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir um skipulag á vöruflutningum með ökutækjum vegna skuldbindinga er leiðir af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

17. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi taka gildi 1. september 2001. Jafnframt falla brott lög um vöruflutninga á landi, nr. 47/1994, með síðari breytingum, lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, nr. 13/1999, og lög um samsetta flutninga o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, nr. 33/1995.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Leyfi til fólksflutninga með hópferðabifreiðum, sem gefin hafa verið út samkvæmt eldri lögum, halda gildi sínu samkvæmt lögum þessum þar til gildistími þeirra er útrunninn eða leyfið fellur niður skv. 15. gr. laganna.
    Handhafar sérleyfa samkvæmt eldri lögum skulu að jafnaði sitja fyrir um endurúthlutun sérleyfa á viðkomandi sérleyfisleið fram til ársins 2005. Endurúthlutuð leyfi skulu ekki gilda lengur en til 1. ágúst 2005 og skal þá efnt til útboðs á öllum sérleyfum.
    Þeir sem stunda vöruflutninga með ökutækjum skv. 1. gr. gegn gjaldi við gildistöku laga þessara skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér leyfis Vegagerðarinnar samkvæmt lögum þessum eigi síðar en 31. desember 2001.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta var samið í samgönguráðuneytinu. Við samningu þess var haft samráð við þá hagsmunaaðila sem frumvarpið varðar.
    Gildandi lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum eru nr. 13/1999 og lög um vöruflutninga á landi eru nr. 47/1994. Í ljósi reglna sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu eða eru væntanlegar á því svæði og rúmast innan gildissviðs EES-samningsins telur ráðuneytið ástæðu til þess að endurskoða þessi tvenn lög í heild og fella saman í einn lagabálk. Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi þessarar greinar, m.a. hefur vöruflutningaakstur og akstur með ferðamenn aukist verulega. Aftur á móti hefur afkoma fyrirtækja í sérleyfisakstri farið versnandi og farþegum fækkað.
    Meginbreyting laganna felst í því að almennar kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 13/1999 gilda nú einnig um vöruflutninga og efnisflutninga. Þó skal tekið fram hér í upphafi að lögin taka ekki til flutnings á hættulegum efnum og að um hann gildir reglugerð nr. 984/2000, sem sett er með stoð í 2. mgr. 50. gr., 1. mgr. 60. gr. og 73. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Þá er einnig gert ráð fyrir í frumvarpinu að starfræksla sendibíla sem áður hefur átt undir lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995, falli undir þetta frumvarp. Við það fellur stöðvarskylda leigubifreiðalaga út og í staðinn kemur atvinnuleyfakerfi sem setur ramma utan um atvinnureksturinn.
    Í gildandi lögum um fólksflutninga var mörkuð sú stefna að setja rammalöggjöf um atvinnustarfsemina sem byggist á útgáfu almennra leyfa. Ábyrgð stjórnenda fyrirtækja á þessum sviðum var gerð skýrari og krafist tiltekinna skilyrða um fjárhagsstöðu, starfshæfni og gott mannorð. Þessi ákvæði standa óbreytt í þessu frumvarpi og taka nú einnig til stjórnenda vöruflutninga- og efnisflutningafyrirtækja.
    Önnur meginbreyting laganna snýr að fólksflutningunum. Nú er skýlaus heimild Vegagerðarinnar fyrir því að gera svokallaða þjónustusamninga við sérleyfishafa. Jafnframt er gert ráð fyrir að núverandi sérleyfisfyrirkomulag haldist að mestu óbreytt fram til 1. ágúst 2005. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að öll sérleyfi verði boðin út.
    Í áliti umboðsmanns barna um skólaakstur frá 23. nóvember 1998 er lögð áhersla á að til þess að tryggja ákveðna samræmingu í skólaakstri á vegum sveitarfélaga sé nauðsynlegt að settar verði lágmarksreglur um tilhögun skólaaksturs. Þetta álit umboðsmanns barna hefur verið haft til hliðsjónar við samningu frumvarpsins. Álitsgerðin var í fyrstu send menntamálaráðherra sem fer með yfirstjórn grunnskólamála í landinu en hann lýsti þeirri skoðun sinni að eðlilegra væri að skapa forsendur fyrir almennar reglur um skólaakstur á vettvangi laga um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, nr. 13/1999, en á vettvangi grunnskólalaga.
    Það nýmæli er í lögum þessum að Vegagerðinni er heimilt að gera sérkröfu til bifreiða sem notaðar eru til flutnings skólabarna.
    Í áliti samkeppnisráðs frá 23. apríl 1998 er fjallað um erindi Félags hópferðaleyfishafa um mismunun í starfsskilyrðum hópferðaleyfishafa og sérleyfishafa. Samkeppnisráð beindi tilmælum til samgönguráðherra í fjórum liðum. Í frumvarpi þessu er tekið á öllum þeim atriðum sem fram komu í álitinu.
    Í fyrsta lagi leggur samkeppnisráð til að þeirri mismunun í reglum sem lúta að starfssviði hópferðaleyfishafa miðað við sérleyfishafa verði eytt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðir verði skýrir þjónustusamningar við sérleyfishafa þar sem m.a. komi fram sú skylda að reka hina styrktu starfsemi aðskilda frá annarri starfsemi, þannig að ekki sé hætta á að styrkurinn greiði niður aðra starfsemi sérleyfishafa.
    Í öðru lagi beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til samgönguráðherra að gerð verði könnun á rekstrarlegri afkomu sérleyfishafa á einstökum leiðum. Ráðuneytið kynnti fyrir nokkru skýrslu um úttekt og tillögur til úrbóta á fólksflutningum á landsbyggðinni og jafnframt gerði Vegagerðin könnun á rekstrarlegri afkomu sérleyfishafa að beiðni ráðuneytisins.
    Í þriðja lagi beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til samgönguráðherra að ráðherra beiti sér fyrir því að sérleyfi til fólksflutninga með langferðabifreiðum verði felld úr gildi þar sem rekstur stendur undir kostnaði þegar ríkisstyrkur í formi endurgreiðslu á þungaskatti hefur verið frátalinn. Í frumvarpi þessu er ekki lagt til að sérleyfi falli úr gildi þótt rekstur standi undir kostnaði enda þjóni það ekki hagsmunum almenningssamgangna á landinu.
    Í fjórða lagi beinir samkeppnisráð þeim tilmælum til samgönguráðherra að þær leiðir sem sannanlega þurfa að njóta opinberra fjárframlaga verði boðnar út og höfð verði hliðsjón af reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92 frá 23. júlí 1992, um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérleyfi verði almennt boðin út eftir 1. ágúst 2005, en þar sem sérstök skilyrði eru fyrir hendi sé heimilt að bjóða sérleyfi út fyrr. Með þessu er komið til móts við framangreind tilmæli samkeppnisyfirvalda en þó með nauðsynlegum aðlögunartíma að mati samgönguráðuneytisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er gildissvið laganna útvíkkað þannig að það nær einnig til vöruflutninga og efnisflutninga á landi, en áður voru ákvæði um vöruflutninga á landi í lögum nr. 47/1994 en engin ákvæði um efnisflutninga. Hagkvæmt þótti að sameina reglur um flutninga fólks, vöru og efnis á landi í einn lagabálk. Höfð var hliðsjón af sambærilegri lagasetningu á Norðurlöndum og skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins á þessu sviði.
    Gildissvið laganna nær eingöngu til þeirra flutninga á landi sem framkvæmdir eru í atvinnuskyni.

Um 2. gr.

    Með þessu ákvæði eru tekin af öll tvímæli um hver fari með stjórn þessa málaflokks. Þá er gert ráð fyrir að Vegagerðin fari með framkvæmd laga þessara.

Um 3. gr.

    Grein þessi skilgreinir þau hugtök sem notuð eru í lögunum. Hér eru í raun felldar í eina grein allar þær orðskýringar sem fyrir eru í gildandi lögum. Þá er bætt við skilgreiningum um efnis- og vöruflutninga.

Um 4. gr.

    Grein þessi er nánast óbreytt frá 3. gr. núgildandi laga um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 5. gr.

    Þetta ákvæði er efnislega óbreytt frá 10. gr. laga nr. 13/1999. Þó tekur þetta ákvæði laganna einnig til vöru- og efnisflutninga í atvinnuskyni og eru þessi skilyrði í samræmi við reglur Evrópusambandsins.

Um 6. gr.

    Grein þessi fjallar um hlutverk reglubundinna flutninga og sérleyfi. Tilgreint er það skilyrði við veitingu sérleyfa að gerður verði þjónustusamningur við sérleyfishafann. Takist slíkur samningur ekki skal efna til útboðs. Hér er þó lögfest heimild Vegagerðarinnar til þess að efna strax til útboðs án þess að þurfa að fara samningsleiðina fyrst og veita sérleyfi í kjölfarið á því. Til þess að heimila útboð strax þurfa að liggja fyrir veigamikil fjárhagsleg og efnisleg rök. Helstu skilyrði þjónustusamnings skulu tilgreind í reglugerð sem sett er af samgönguráðherra. Það er gert til þess að tryggja skýrar leikreglur á milli samningsaðila. Í grein þessari felst heimild Vegagerðarinnar til þess að tilgreina ferðatíðni. Í vissum tilfellum getur undir þetta ákvæði fallið samningur um pöntunarþjónustu en ekki reglulegar ferðir, þar sem fámenni er mikið.
    Í ákvæðinu er tiltekið að Vegagerðin geti boðið út sérleyfi í samvinnu við aðila sem stunda aðra reglubundna fólksflutninga eins og til dæmis akstur skólabarna enda sé það hagkvæmt og almenningssamgöngum til framdráttar. Um getur verið að ræða leiðir í fámennum héruðum sem ekki yrði annars þjónað.
    Með ákvæði um útboð er komið til móts við tilmæli samkeppnisráðs, sem að framan voru rakin, og þær tillögur sem nú liggja fyrir hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í þessum málaflokki. Jafnframt er þetta í samræmi við útboðsstefnu ríkisstjórnarinnar. Gengið er út frá því að öll sérleyfi verði boðin út eftir 1. ágúst 2005. Staða atvinnugreinarinnar er slík að það þjónar ekki hagsmunum almenningssamgangna á Íslandi að breyta sérleyfisfyrirkomulaginu í einni svipan. Fyrirtækin þurfa nauðsynlega langan aðlögunartíma til þess að vera viðbúin þeirri breytingu sem útboðsfyrirkomulagið hefur í för með sér, sérstaklega þar sem flest þeirra hafa stundað sérleyfisakstur svo áratugum skiptir.
    Þá er það nýmæli að sérleyfishafa er, með samþykki Vegagerðarinnar, heimilt að nota bifreiðar sem skráðar eru fyrir færri en níu farþega á fámennari leiðum.
    Fellt er út ákvæði um umsagnarumleitan Vegagerðarinnar við veitingu sérleyfa.
    Að öðru leyti er ákvæðið efnislega samhljóða eldra ákvæði laga nr. 13/1999 um þetta efni.

Um 7. gr.

    Ákvæðið er að mestu óbreytt frá 5. gr. laga nr. 13/1999. Þó er tiltekið að ákvæði um almennt rekstrarleyfi 4. gr. gildi einnig um einkaleyfishafa.

Um 8. gr.

    Grein þessi er efnislega samhljóða 6. gr. laga nr. 13/1999 um sama efni. Þó er undirstrikað það skilyrði aksturs í atvinnuskyni að viðkomandi þurfi almennt leyfi skv. 4. gr. og að uppfylla þurfi tækni- og gæðakröfur Vegagerðarinnar. Þessi ítrekun er m.a. sett hér inn vegna álits umboðsmanns barna um kröfur sem gera verður til bílstjóra og ökutækja sem notuð eru í skólaakstri barna.

Um 9. gr.

    Þetta er almennt ákvæði um leyfishafa og er óbreytt frá lögum 13/1999. Þó er kæruheimild sem er í 3. gr. gildandi laga sett hér sem almennt ákvæði.

Um 10. gr.

    Ákvæði þetta er að mestu óbreytt frá 9. gr. gildandi laga um skipulag á fólksflutningum og þarfnast ekki skýringa. Ekki var talin þörf á að gildistími leyfa samkvæmt ákvæðinu væri tiltekinn sérstaklega.

Um 11. gr.

    Þetta ákvæði er nýmæli. Í lögum nr. 33/1995, um samsetta flutninga o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, er fjallað um flutninga um Evrópska efnahagssvæðið. Tilgangur þeirra laga var að fullnægja þeim skuldbindingum sem leiðir af ákvæðum um flutningastarfsemi í 6. kafla III. hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og XIII. viðauka við samninginn. Nú hafa efnisatriði framangreindra laga verið felld inn í þessi lög og falla þau úr gildi. Við það að fá réttindi til flutninga samkvæmt þessu frumvarpi öðlast réttindahafar sömu réttindi í öllum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylltu skilyrði 4. gr. laganna. Vegagerðin veitir leyfi samkvæmt ákvæðinu.

Um 12. gr.

    Hér er um efnislega samhljóða ákvæði og 12. gr. gildandi laga nr. 13/1999. Þó er hér nýmæli í 2. mgr. um heimild Vegagerðarinnar til að takmarka notkun strætisvagna utan þéttbýlis. Öryggissjónarmið búa fyrst og fremst þar að baki.

Um 13. gr.

    Ákvæði þetta fjallar um gjaldtökuheimild Vegagerðarinnar sem er ætlað að standa straum af kostnaði sem hlýst af námskeiðahaldi, útgáfu leyfa og eftirliti samkvæmt lögunum. Með frumvarpi þessu er afmörkuð upphæð þess gjalds sem er ætlað að standa straum af fyrrgreindum kostnaðarliðum. Upphæð gjaldsins tekur mið af þeim kostnaði sem hlýst af veittri þjónustu Vegagerðarinnar. Að fenginni reynslu af framkvæmd núgildandi laga, nr. 13/1999, er þekktur kostnaður af umsýslu Vegagerðarinnar vegna verkefna sem tengjast fólksflutningabifreiðum. Með hliðsjón af þeim kostnaði hefur verið mögulegt að áætla heildarkostnað sem hlýst af útvíkkun gildissviðs laganna. Um er ræða hækkun á gjöldum til samræmis við raunkostnað.

Um 14. gr.

    Þessi grein er efnislega samhljóða 14. gr. núgildandi laga nr. 13/1999.

Um 15. gr.

    Hér er kveðið á um refsingar og sektir vegna brota gegn lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Það hefur sýnt sig í framkvæmd laga nr. 13/1999 að núverandi ákvæði hafa ekki haft tilætluð áhrif. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi lögum um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum að því frátöldu, að lagt er til að nánari ákvæði um sektir við brotum verði sett í reglugerð. Er þar höfð hliðsjón af sambærilegu ákvæði í 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997. Með ákvæði þessu er horft til þess hagræðis sem er af því að staðla innan ákveðinna marka viðurlög við brotum gegn lögunum. Samkvæmt ákvæði 3. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, lætur ríkissaksóknari í té skrá um til hvaða brota sektarheimild lögreglustjóra nær til og leiðbeiningar um sektarfjárhæð. Slíkar leiðbeiningar hafa ekki verið gefnar út vegna brota gegn gildandi lögum um fólksflutninga með hópferðabifreiðum. Með ákvæði þessu er ætlunin að leiðbeiningar af þessu tagi verði í reglugerð í stað þess að ríkissaksóknari gefi þær út. Með því móti verða þær sýnilegri og um leið auðveldara fyrir almenning að kynna sér efni þeirra. Um rök fyrir þessari tilhögun og stöðlun viðurlaga vísast að öðru leyti til greinargerðar með frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum og umferðarlögum sem lagt var fram á 121. löggjafarþingi, þingskjal nr. 490.

Um 16. gr.

    Í þessu ákvæði eru sameinaðar heimildir ráðherra til þess að setja reglugerðir um skipulag á fólksflutningum og skipulag á vöru- og efnisflutningum vegna skuldbindinga sem leiða má af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Vöruflutningum og efnisflutningum er hér bætt við þar sem gildissvið laga þessara taka nú til þeirra eins og áður er fram komið.

Um 17. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Með þessari grein er tiltekið að þeir sem þegar hafa leyfi til fólksflutninga samkvæmt gildandi lögum, halda því leyfi þar til það er útrunnið eða fellur niður skv. 15. grein laganna. Þá er haldið í forgangsúthlutun þeirra sem þegar hafa sérleyfi en það er þó tímabundinn forgangur sem verður ekki lengur fyrir hendi eftir 1. ágúst 2005.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um fólksflutninga,
vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

    Með frumvarpinu eru gildandi lög um sama efni endurskoðuð í ljósi krafna sem settar eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Meginbreytingin felst í því að almennar kröfur sem lögfestar voru árið 1999, munu samkvæmt frumvarpinu einnig gilda um vöruflutninga. Þá er heimild Vegagerðarinnar til samninga við sérleyfishafa styrkt og lögfest að sérleyfi sem veitt eru eftir 1. ágúst árið 2005 verði boðin út. Ljóst er að leyfisveitingar verða umfangsmeiri í kjölfar breytinganna og er kostnaðurinn borinn af leyfisgjöldum skv. 13. gr. frumvarpsins. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar sem annast eftirlit og útgáfu rekstrarleyfanna eru áætlaðar tekjur af leyfisveitingum u.þ.b. 10 m.kr. á ári, og vega þær á móti kostnaði við veitingu leyfanna. Þá er gert ráð fyrir að árlegur fjöldi útgefinna leyfa verði u.þ.b. 1.200 leyfi. Ekki verður séð að frumvarpið hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það að lögum.