Ferill 684. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1063  —  684. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999.

(Lagt fyrir Alþingi á 126. löggjafarþingi 2000–2001.)


1. gr.

    3. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Iðgjaldsstofn bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri, skal vera reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með búrekstri í þessu sambandi er átt við búrekstur samkvæmt atvinnugreinanúmerum 01, jarðrækt og garðyrkju þ.m.t. ylrækt og búfjárrækt, og 02, skógrækt, í atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT 95, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.4, 01.5 og 02.02. Iðgjald þeirra bænda og maka þeirra sem reikna sér ekki laun en þiggja laun frá einkahlutafélagi eða öðrum lögaðila sem rekur bú, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa til þeirra vegna búrekstrar, sbr. 3. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Iðgjald sjóðfélaga skv. 1. mgr. 2. gr. skal vera 4% af iðgjaldsstofni skv. 1. mgr. þessarar greinar. Á móti iðgjaldi sjóðfélaga skal greitt mótframlag sem skal vera 50% hærra en iðgjald skv. 1. málsl. Mótframlag skal greitt af sjóðfélaga sé ekki samið um greiðslu þess úr ríkissjóði í búvörusamningi eða með öðrum sambærilegum hætti.
    Greiðsla iðgjalds og mótframlags skv. 2. mgr. skal að jafnaði fara fram mánaðarlega og skulu gjalddagar að jafnaði vera tíundi dagur næsta mánaðar eftir launatímabil og eindagi 30 dögum síðar. Stofn til innheimtu á mánaðarlegu iðgjaldi bænda og maka þeirra, sem starfa að búrekstri og reikna sér laun, skal miða við reiknað endurgjald í hverjum mánuði eins og það er ákveðið skv. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 1. málsl. 6. mgr. Liggi ekki fyrir upplýsingar um reiknað endurgjald yfirstandandi árs skal miðað við laun næstliðins tekjuárs. Einkahlutafélög og aðrir lögaðilar sem reka bú, sbr. 3. málsl. 1. mgr., skulu standa skil á iðgjaldi fyrir alla menn sem að búrekstrinum starfa. Greiðandi skal sundurliða iðgjöld eftir sjóðfélögum.
    Sjóðurinn annast innheimtu iðgjalda. Á greiðsludögum beingreiðslna samkvæmt búvörulögum skal þrátt fyrir 1. málsl. 3. mgr. halda eftir af þeim iðgjaldi þeirra sjóðfélaga sem beingreiðslna njóta fyrir næstliðinn mánuð og skila því til sjóðsins eigi síðar en 30 dögum eftir að þau eru greidd og skulu þau sundurliðuð eftir sjóðfélögum og tímabilum.
    Sé iðgjald ekki greitt á eindaga eða sé það vangreitt skulu reiknast hæstu leyfilegu dráttarvextir samkvæmt auglýsingu Seðlabanka Íslands á þá fjárhæð sem vangoldin er frá gjalddaga til greiðsludags.
    Leiði eftirlit ríkisskattstjóra skv. 6. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, í ljós að iðgjald bónda hefur verið vangreitt eða ofgreitt skal sjóðstjórn innheimta vangreidd iðgjöld eða úrskurða um bakfærslu og endurgreiðslu ofgreiddra iðgjalda. Iðgjald sem flutt hefur verið í annan lífeyrissjóð, lán verið veitt út á eða lífeyrir verið úrskurðaður og greiddur út á skal hvorki endurgreitt né réttindi sem af því leiða bakfærð. Sjóðfélagi getur enn fremur óskað eftir því að iðgjaldsstofn hans sé reiknað endurgjald í staðgreiðslu sé það hærra en reiknuð laun hans, sbr. 1. málsl. 1. mgr., samkvæmt álagningu að liðnu tekjuári. Vextir skulu reiknaðir á endurgreiðslu iðgjalda samkvæmt vaxtalögum, nr. 25/1987.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um iðgjaldagreiðslur, innheimtu, innheimtuþóknun, dráttarvexti og annað er varðar framkvæmd þessarar greinar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda vegna iðgjaldsákvörðunar á tekjur frá og með 1. janúar 2001.

Ákvæði til bráðabirgða I.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 1. gr., sbr. 4. mgr. 1. gr., skulu iðgjöld vegna 1. janúar 2001 til gildistöku laganna falla í gjalddaga með iðgjöldum þess greiðslutímabils sem næst fer á eftir gildistöku laganna.

Ákvæði til bráðabirgða II.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu ákvæði 6. mgr. 1. gr. koma til framkvæmda vegna iðgjalda af tekjum ársins 2000.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda, en í greininni er að finna ákvæði um innheimtu lífeyrisiðgjalda bænda. Lagaákvæðum um iðgjöld bænda og innheimtu þeirra var breytt í desember 1997 og tóku breytingarnar gildi 1. janúar 1998. Með gildistöku laga nr. 12/1999 var sjóðnum heimiluð innheimta hjá bændum sem ekki reikna sér laun. Lífeyrisiðgjöld bænda eru nú 4% af launum eins og kveðið er á um í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Innheimta iðgjaldanna hefur samkvæmt gildandi lögum farið þannig fram að greiðslu upp í iðgjald yfirstandandi árs hefur annars vegar verið haldið eftir af beingreiðslum þeirra bænda sem þeirra njóta og hins vegar innheimt með gjöldum utan staðgreiðslu á sama hátt og búnaðargjald. Auk þess hefur lífeyrissjóðurinn sjálfur annast innheimtu iðgjalda af bændum í þeim tilvikum þegar um greidd laun hefur verið að ræða en ekki reiknað endurgjald. Samtímis álagningu opinberra gjalda samkvæmt skattframtölum um mitt næsta ár hefur síðan farið fram álagning iðgjalda í Lífeyrissjóð bænda.
    Frá gildistöku laga nr. 12/1999 hafa komið í ljós ýmsir vankantar, sem erfitt hefur reynst að komast hjá. Starfsfólk lífeyrissjóðsins, ríkisskattstjóra, ríkisbókhalds, skattstjóra og sýslumanna hefur lagt sig fram við að leysa úr þeim vandamálum sem upp hafa komið en flestar leiðréttingar varðandi álagninguna hafa reynst erfiðar og tímafrekar. Í stuttu máli hefur samspil þeirra tveggja innheimtuleiða, sem bundnar eru í lögum sjóðsins og álagning iðgjalda um mitt næsta ár, endurgreiðslur iðgjalda, endurvinnsla álagningar síðar og sá tími sem innheimtan tekur hamlað mjög eðlilegri starfsemi sjóðsins og valdið sjóðfélögum miklum óþægindum. Auk þess hefur síðustu tvö ár ekki verið unnt að gera trúverðuga tryggingafræðilega úttekt á sjóðnum vegna óvissu um iðgjaldagreiðslur og réttindaávinnslu.
    Hlutaðeigandi aðilar hafa haldið fundi með jöfnu millibili um framkvæmdaatriði innheimtunnar og álagningu iðgjalda. Margt hefur verið lagfært en þrátt fyrir það hafa aðgerðir ekki skilað viðunandi árangri. Haustið 2000 stofnaði ríkisskattstjóri vinnuhóp með fulltrúum frá Lífeyrissjóði bænda, ríkisskattstjóra og fjármálaráðuneyti til þess að finna leiðir til úrbóta.
    Í samræmi við niðurstöður vinnuhópsins er í frumvarpi þessu lagt til að sjóðurinn annist sjálfur mánaðarlega innheimtu iðgjalda annarra bænda en þeirra sem beingreiðslna njóta. Jafnframt verði lögð af innheimta samhliða búnaðargjaldi. Enn fremur er lagt til að álagning iðgjalda samkvæmt skattframtölum verði lögð af og eftirlit ríkisskattstjóra með greiðslum í lífeyrissjóð komi í stað hennar.
    Í frumvarpinu eru eingöngu lagðar til breytingar á 3. gr. laganna. Í 1. mgr., sem er efnislega óbreytt, er lagt til að skotið verði inn tilvísun í lög nr. 75/1981, þar sem tilgreint er nánar hvaða atvinnugreinar falla undir þá atvinnugreinaflokka sem kveðið er á um og í síðasta málslið bætt við tilvísun í lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    2. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum.
    Í stað ákvæða um tvær fastbundnar innheimtuaðferðir í 3. og 4. mgr. 3. gr. gildandi laga er lagt til að komi ný 3. mgr. með almennum skýrum ákvæðum um greiðslu iðgjalds, gjalddaga, eindaga, innheimtustofn með tilvísun í lög og greiðendur, en efnislega er hún óbreytt frá gildandi lögum.
    Í nýrri 4. mgr. er lagt til að sjóðurinn innheimti sjálfur iðgjöld, önnur en þau sem innheimt eru af beingreiðslum, á grundvelli upplýsinga um reiknað endurgjald á hverjum tíma, en skv. 3. málsl. 4. mgr. gildandi laga hefur sjóðurinn einungis heimild til að innheimta sjálfur iðgjöld af þeim bændum sem þiggja laun af einkahlutafélögum eða öðrum lögaðilum sem reka bú. Gert er ráð fyrir að innheimta af beingreiðslum verði óbreytt að öðru leyti en því að hún miðist nú við næstliðinn mánuð í stað yfirstandandi mánaðar. Lagt er til að ákvæði um skil iðgjalda verði bætt við 2. málsl. Ákvæði þetta er nú í lokamálslið 3. mgr. 3. gr. gildandi laga.
    Ákvæði 5. mgr. eru efnislega óbreytt frá 4. málsl. 4. mgr. gildandi laga en í stað orðalagsins „innan 30 daga“ er lagt til að notað verði orðalagið „á eindaga“.
    Lagt er til að 6. mgr. komi í stað 5. mgr. í gildandi lögum en hún fjallar um álagningu iðgjalda, viðbótarinnheimtu og endurgreiðslur ofgreiddra iðgjalda eftir því sem við á. Þar sem nú er gert ráð fyrir samtímainnheimtu iðgjalda er hér lagt til að komi sérstakt ákvæði um að leiði eftirlit ríkisskattstjóra með greiðslu iðgjalda í lífeyrissjóð í ljós að iðgjald bónda hafi verið vangreitt þá skuli sjóðurinn innheimta það sem á vantar. Á sama hátt er gert ráð fyrir að ofgreitt iðgjald í lífeyrissjóð verði endurgreitt hafi réttindi þau er það veitti í sjóðnum ekki verið nýtt á neinn hátt, eða sjóðfélaginn óski eftir að iðgjaldsstofn hans sé reiknað endurgjald í staðgreiðslu, hafi það verið hærra en framtaldar tekjur á skattframtali. Ákvæði þetta er nýtt og kemur í veg fyrir ýmis óþægindi fyrir sjóðfélaga auk þess sem það auðveldar lífeyrisúrskurði og nauðsynleg samskipti við aðra lífeyrissjóði. Einnig getur það komið í veg fyrir stórfellt réttindatap þeirra bænda sem reka bú sín með tapi. Með ákvæðum þessum ættu í raun ákvæði núverandi 5. mgr. að ná fram að ganga.
    7. mgr. er óbreytt frá 6. mgr. í gildandi lögum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 12/1999,
um Lífeyrissjóð bænda.

    Frumvarp þetta miðar að því að sníða af vankanta sem eru á núverandi framkvæmd við innheimtu iðgjalda í Lífeyrissjóð bænda. Með frumvarpinu er lagt til að fyrirkomulagi á innheimtu lífeyrisiðgjaldanna verði breytt til hagsbóta fyrir sjóðfélaga og þá aðila sem annast innheimtuna. Ekki er ástæða til að ætla að útgjöld ríkissjóðs aukist svo nokkru nemi verði frumvarpið að lögum.