Ferill 480. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1077  —  480. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða.

Frá meiri hluta iðnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorgeir Örlygsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti. Jafnframt bárust gögn frá Ólafi Kristjánssyni, bæjarstjóra í Bolungarvík og formanni viðræðuhóps Fjórðungssambands Vestfirðinga.
    Frumvarpinu er ætlað að heimila stofnun hlutafélags um rekstur Orkubús Vestfjarða, en íslenska ríkið á 40% hlut í því. Gert er ráð fyrir að öll réttindi Orkubús Vestfjarða haldist óbreytt, þrátt fyrir að því verði breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag og réttindi starfsmanna tryggð með ákvæðum frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að gjaldskrá Orkubús Vestfjarða verði aðlöguð gjaldskrá Rariks, en að það verði gert í áföngum. Þetta kemur til af því að íslenska ríkið mun væntanlega samræma gjaldskrá Orkubús Vestfjarða við gjaldskrá Rariks. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir áframhaldandi skattfrelsi Orkubús Vestfjarða þrátt fyrir að það verði gert að hlutafélagi. Þetta er til samræmis við fyrirkomulag annarra orkufyrirtækja á landinu.
    Frumvarpið er til komið að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfirðinga haustið 1999 þar sem óskað var eftir viðræðum við íslenska ríkið um kaup á meiri hluta sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Frumvarpið sjálft er byggt á samkomulagi allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Við það að Orkubúi Vestfjarða er breytt í hlutafélag verður hverju sveitarfélagi heimilt að selja sinn hlut í því og liggur fyrir að íslenska ríkið mun ganga til viðræðna við sveitarfélögin um kaup ríkisins á hlut þeirra í félaginu og gera skuldbindandi kauptilboð. Það verður síðan hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það selur hlut sinn eða hefur hann áfram í eigu sinni. Eignarhlutföll sveitarfélaganna eru byggð á íbúatölu hvers sveitarfélags 1. desember 2000 eins og kveðið er á um í lögum.
    Ljóst er að skiptar skoðanir eru meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum um hvort selja skuli ríkinu hlut hvers þeirra um sig til þess að sporna við fjárhagsvanda einstakra sveitarfélaga. Meiri hlutinn lítur hins vegar svo á að frumvarpið eitt og sér taki einungis til breytts rekstrarforms Orkubús Vestfjarða, en að fjárhagsvandi sveitarfélaganna sé í raun annað mál, og leggur áherslu á að með frumvarpinu sé ekki verið að taka ákvörðun um sölu heldur að skapa aðstæður og lagalegt umhverfi til þess að af sölu geti orðið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Ísólfur Gylfi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Bryndís Hlöðversdóttir og Svanfríður Jónasdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 3. apríl 2001.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Drífa Hjartardóttir.



Bryndís Hlöðversdóttir,


með fyrirvara.


Svanfríður Jónasdóttir,


með fyrirvara.


Pétur H. Blöndal.



Árni R. Árnason.