Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1260  —  633. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um leigubifreiðar.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Kristínu Helgu Markúsdóttur frá samgönguráðuneytinu, Stefán Erlendsson, Gunnar Gunnarsson og Björn Ólafsson frá Vegagerðinni, Ásgeir Þorsteinsson, Stein Hermann Sigurðsson, Kristin Ólafsson og Guðmund Bogason frá bifreiðastjórafélaginu Frama, Guðjón Þ. Andrésson, Gústaf Níelsson og Markús Kjartansson frá Bifreiðastjórafélaginu Andvara, Bjarna Pálmason frá bifreiðastjórafélaginu Átaki, Jón Magnússon, lögmann bifreiðastjórafélagsins Átaks og Stefán Björnsson og Magnús Jóhannsson frá bifreiðastjórafélaginu Frey. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bifreiðastjórafélaginu Andvara, Neytendasamtökunum, Bifreiðastjórafélaginu Átaki, Vegagerðinni, bifreiðastjórafélaginu Frama, Hreyfli svf., Persónuvernd, Bifreiðastöð Hafnarfjarðar, Borgarbílastöðinni, borgarstjóranum í Reykjavík, Ökukennarafélaginu, Greiðabílum hf., bifreiðastöðinni Taxa ehf., Bifreiðastöð Oddeyrar ehf., bifreiðastjórafélaginu Frey, Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpi þessu eru lögð til ný heildarlög um leigubifreiðar. Verði frumvarpið að lögum færist stjórnsýsla málaflokksins og öll umsýsla leigubifreiðamála frá samgönguráðuneyti til Vegagerðarinnar. Hlutverk Vegagerðarinnar samkvæmt frumvarpinu felst í útgáfu atvinnuleyfa og skírteina fyrir afleysingabílstjóra, umsjón með námskeiðum og starfrækslu gagnagrunns. Aðkoma stéttarfélaga leigubifreiðastjóra að útgáfu akstursleyfa mun því falla niður.
    Þá felur frumvarpið í sér að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd leigubifreiðamála. Þangað verður hægt að kæra ákvarðanir Vegagerðarinnar og bifreiðastöðva samkvæmt lögunum. Umrædd úrskurðarnefnd leysir af hólmi umsjónarnefndir fólksbifreiða sem starfa samkvæmt núgildandi lögum.
    Meiri hlutinn telur að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér séu til góða og muni leiða til meiri festu í stjórn og skipulagi leigubifreiðamála á landinu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir í sérstöku þingskjali. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lagt er til að bætt verði við 2. gr. tilvísun í lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga svo að ekki fari á milli mála að ákvæði þeirra laga gildi um skráningu og meðferð gagna samkvæmt lögunum.
     2.      Lagt er til að Vegagerðinni verði heimilt að fela sveitarstjórnum framkvæmd mála er varða leigubifreiðar innan eigin sveitarfélags.
     3.      Lagt er til að einn nefndarmaður í úrskurðarnefnd leigubifreiðamála skuli skipaður samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands. Með þessu móti verður hlutleysi nefndarinnar síður dregið í efa.
     4.      Lagt er til að dregið verði úr því skilyrði 5. gr. frumvarpsins að eigandi þurfi að vera skráður eigandi eða skráður fyrsti umráðamaður með meirihlutaeign samkvæmt samningi við löggilt kaupleigufyrirtæki. Lagt er til að umráðamanni nægi að eiga a.m.k. 35% eignarhlutdeild þegar um er að ræða samning við löggilt kaupleigufyrirtæki.
     5.      Lagt er til að skylt verði að endurnýja skírteini á fimm ára fresti í stað þriggja eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
     6.      Lagt er til að undanþáguheimild Vegagerðarinnar í 3. mgr. 8. gr. verði einskorðuð við svæði þar sem ekki er í gildi takmörkun á fjölda leigubifreiða en eins og ákvæðið er orðað nú má skilja sem svo að heimildin taki til alls ákvæðisins en það var ekki hugmyndin með því.
     7.      Lagðar eru til breytingar á 11. gr. frumvarpsins. Orðalagi 1. mgr. er breytt og jafnframt er lagt til að 2. mgr. greinarinnar, eins og hún er í frumvarpinu, falli brott. Í stað komi nýtt ákvæði sem kveði á um heimild Vegagerðarinnar til að svipta menn atvinnuleyfi tímabundið gerist þeir ítrekað brotlegir gegn ákvæðum laganna eða ef brot telst alvarlegt. Ætla má að lögin verði skilvirkari hafi Vegagerðin úrræði til að bregðast við brotum með áþreifanlegum hætti. Eins og áður sagði gildir svipting Vegagerðarinnar aðeins tímabundið eða þangað til meðferð máls er lokið samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.

Alþingi, 11. maí 2001.



Árni Johnsen,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Hjálmar Árnason.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Magnús Stefánsson.