Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 1392  —  597. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta umhverfisnefndar.

    
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrufræðistofur sem gera ráð fyrir að stjórnunarleg ábyrgð náttúrustofa verði flutt frá ríki yfir til sveitarfélaga. Við umfjöllun nefndarinnar komu fjölmargar athugasemdir fram sem gefa ótvírætt til kynna að málið sé vanreifað og illa undirbyggt. Þannig kemur það glögglega í ljós í umsögnum frá stofunum sjálfum að miklar efasemdir ríkja um þær breytingar sem hér eru lagðar til.
    Það er mat 2. minni hluta að löggjafinn þurfi fyrst að gera upp við sig hvert markmiðið með náttúrustofunum eigi að vera, hvaða hlutverki þeim sé ætlað að gegna í neti þeirra stofnana sem stunda rannsóknir á sviði náttúruvísinda og hvaða hlutverki þeim sé ætlað að gegna í einstökum byggðarlögum. Þá telur 2. minni hluti að frumvarpið gangi gegn þeim tilgangi sem stofunum var upphaflega ætlað að uppfylla því þegar ákvæði um stofurnar komu upphaflega inn í lög var gert ráð fyrir að náttúrustofa gæti með tímanum unnið sig upp í það að verða setur Náttúrufræðistofnunar Íslands og þegar setrunum fjölgaði fækkaði náttúrustofunum. Hugsunin var sú að stofurnar ættu fyrst og fremst heima í þeim landshlutum þar sem ekki væru setur. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir er þessari hugmynd á glæ kastað án þess að rökstuðningur liggi fyrir.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er aukið við hlutverk stofanna og er það fagnaðarefni út af fyrir sig, en um leið er nauðsynlegt að láta í ljós efasemdir um að þau verkefni sem tíunduð eru í 4. gr. endi á borði stofanna þar sem stjórnvöld hafa ekki sinnt því hingað til að verkefni sem samkvæmt núgildandi lögum eiga að vera á verksviði stofanna fái það fjármagn sem þau verkefni útheimta. 2. minni hluti nefndarinnar bendir á í þessu sambandi að sárlega skortir hin faglegu rök fyrir þeirri breytingu sem 4. gr. felur í sér og afar óljóst er hvernig tengslum stofanna við Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins verður háttað. Það er mat 2. minni hluta að skilgreina þurfi verksvið stofanna og marka þeim sess, en það verður ekki gert með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Samkvæmt þessum tillögum er orðið enn óljósara en nú er hvort stofunum sé ætlað pláss í rannsóknum eða í vöktun og eftirliti. Mikilvægt er að átta sig á því að stofa sem tekur að sér verkefni fyrir framkvæmdaraðila er snerta rannsóknir vegna mats á umhverfisáhrifum getur ekki líka verið ráðgjafaraðili sveitarstjórna eða almennings vegna mats á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Það er því ljóst að stofurnar verða mjög fljótt vanhæfar til að sinna verkefnum sínum þar sem ekki er gerður greinarmunur á rannsóknarhlutverki þeirra annars vegar og umsagnar- og eftirlitshlutverki þeirra hins vegar.
    Það vegur þungt að mati 2. minni hluta að stjórnendur stofanna, sem komu að máli við nefndina, voru sammála um að breyting þessi væri hvorki aðkallandi né tímabær, núverandi fyrirkomulag á stjórnun hefði gefist vel enda hafi það gert stofunum kleift að standa utan við pólitískar væringar sveitarstjórnarmála. Þá kom einnig fram í máli þeirra að þeir telja nauðsynlegt að stofurnar öðlist meiri reynslu áður en næstu skref eru tekin varðandi stöðu þeirra. Bent var á að skynsamlegra væri að efla þær stofur sem þegar eru starfandi og láta á það reyna að fjölga frekar starfsstöðvum stofanna en að fjölga náttúrustofunum sjálfum um tvær eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá er það mat forstöðumanna stofanna og stjórna þeirra að nauðsynlegt sé að skilgreina nákvæmlega þá landshluta sem stofurnar eigi að starfa í og það talið tefja og skaða uppbyggingu stofanna að búa til óvissu um hvaða landshluta stofa starfar í eða breyta þeirri landshlutaskiptingu sem nú er komin hefð á. Bent er á að þau sveitarfélög sem standa að starfandi náttúrustofum hafi ráðist í uppbyggingu miðað við ákveðin svæði og óviðunandi sé að breyta þeim forsendum nú án rökstuðnings.
    Varðandi fjármögnun verkefna skal á það bent að ekkert kemur fram í frumvarpinu eða greinargerð með því hvaða aðila sé ætlað að standa straum af kostnaði við grunnupplýsingaöflun og gagnasöfnun um náttúru viðkomandi landshluta. Þá er afar óskýrt hverjum beri að standa straum af kostnaði stofanna við vinnu fyrir náttúruverndarnefndir. Það er mat 2. minni hluta að hér sé þannig að verki staðið að segja megi að ábyrgðin sé hvergi, hvorki á ríkisvaldinu né hjá sveitarfélögunum. Það verður að teljast ábyrgðarhluti, sérstaklega í ljósi aukinna skuldbindinga stjórnvalda í umhverfismálum, t.d. samkvæmt Ríó-yfirlýsingunni um umhverfi og þróun og samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Í þessu sambandi má geta þess að það var fullyrt af forstjóra Náttúrustofu Suðurlands að stofurnar hefðu minna vægi sem rannsóknarstofnanir við það að stjórnunarábyrgð flyttist frá ríki til sveitarfélaga og þannig gæti það orðið erfiðleikum bundið fyrir stofurnar að fá styrki frá erlendum aðilum sem dæmi eru um að hafi reynst stofunum mikil lyftistöng í rannsóknarstarfi.
    Náttúrufræðistofnun Íslands gagnrýnir 1. gr. frumvarpsins og telur vafasamt að orða ákvæðið um gjaldtökuna jafnþröngt og gert er í frumvarpinu. Stofnunin gagnrýnir einnig að það lögbundna samráð sem nú er til staðar (skv. 9. gr. gildandi laga) skuli lagt af og í þess stað settur inn ákaflega óljós texti um mögulega samvinnu þessara aðila.
    Með vísan til þess er að framan greinir leggur 2. minni hluti til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDDRI DAGSKRÁ:


    Annar minni hluti efast um að frumvarp þetta verði til þess að efla náttúrustofurnar og telur skorta hin faglegu rök fyrir þeim breytingum sem það felur í sér. Það mætir mikilli andstöðu forsvarsmanna náttúrustofanna, auk þess sem veigamiklar athugasemdir hafa komið fram frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins. Með vísan til þessa samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 15. maí 2001.


Kolbrún Halldórsdóttir.